Nýtt og aukið menningarhlutverk í Breiðholti

Gerduberg Gudrun og Solveig 1

Guðrún Dís Jónatansdóttir deildarstjóri viðburða, fræðslu og miðlunar og Sólveig G. Arngrímsdóttir safnstjóri.

Borgarbókasafn Reykjavíkur fékk um áramót nýtt og aukið hlutverk við sameiningu þess við Menningarmiðstöðina Gerðuberg.

Meginmarkmið sameiningarinnar er að styrkja hlutverk starfsstaða Borgarbókasafns sem menningarmiðjur í hverfum borgarinnar með aukinni áherslu á viðburði og fræðslu árið um kring.

Borgarbókasafnið er stærsta menningarstofnun Reykjavíkurborgar og þar starfa 110 manns. Áætlað er að 695 þúsund gestir heimsæki safnið á þessu ári sem er um 2.000 manns á degi hverjum. Áhersla er lögð á Borgarbókasafnið sem þriðja staðinn; griðastað í amstri dagsins þar sem hægt er að njóta, læra, taka þátt og styrkja andann. Við dagskrárgerð er einkum horft til barnamenningar, fjölmenningar og alþýðumenningar. Þessar áherslur endurspegla vel yfirskrift ársins á menningar- og ferðamálasviði sem er „Fjölbreytt menning | friðsæl borg“.

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir miklar endurbætur á efri hæð Gerðubergs. Veitingaaðstaðan hefur verið færð til og opnað hefur verið inn í bókasafnið og sýningarrýmin. Nýr veitingaaðili tekur nú við rekstri á nýju og glæsilegu kaffihúsi sem mun bjóða upp á ljúffengan hádegisverð og huggulegar kaffiveitingar. Segja má að nú sé loksins komið hið eina sanna hverfiskaffi í Breiðholtið og það þarf að gefa því gott nafn. Þeir sem vilja koma með tillögu að nýju heiti á kaffihúsinu eru hvattir til að taka þátt í samkeppni og leggja tillögu sína í rauða póstkassann í anddyri hússins. Í verðlaun er hádegismatur fyrir tvo. En hvaða breytingar munu gestir og notendur Gerðubergs helst verða varir við í framtíðinni. Breiðholtsblaðið hitti þær Guðrúnu Dís Jónatansdóttur deildarstjóra viðburða, fræðslu og miðlunar og Sólveigu G. Arngrímsdóttur safnstjóra á dögunum og forvitnaðist um framtíðina.

Fólk lætur ánægju í ljós

Guðrún Dís: „Viðburða- og sýningarhald verður áfram jafn fjölbreytt og verið hefur. Gestir geta kynnt sér dagskrána í nýja blaðinu okkar sem ber yfirskriftina „Bókaðu daginn“ en það verður gefið út fimm sinnum á ári. Þar er að finna viðburðadagatal, greinar og fróðleiksmola um eitt og annað sem er á döfinni.“ Sólveig: „Gestir hafa látið í ljós mikla ánægju með breytingarnar hér á efri hæðinni og við finnum að þeir eru strax meðvitaðri um allt sem er í boði í húsinu; koma í bókasafnið, kíkja á sýningarnar og svo bíða allir spenntir eftir að kaffihúsið opni. Við höfum lagt á það mikla áherslu við nýja rekstraraðila að kaffihúsið eigi að vera kaffihús Breiðhyltinga. Hér á að vera hægt að kíkja við í kaffi, hitta vinina, hanga á netinu, skreppa á tónleika og fá sér gott að borða á eftir. Kaffihúsið mun jafnframt sinna þjónustu við þá sem njóta niðurgreiðslu hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.“

Handverks- sagna- heimspeki- og leikhúskaffi

Guðrún Dís: „Við munum halda áfram að skipuleggja viðburði í kaffihúsinu á miðvikudagskvöldum en þetta misserið verður til skiptis handverkskaffi, sagnakaffi, heimspekikaffi og leikhúskaffi. Það síðastnefnda er nýjung sem sett er á laggirnar í samstarfi við Þjóðleikhúsið en spjallað verður um íslensk skáldverk sem sett eru á svið í leikhúsinu. Næst verður fjallað um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Sagnakaffið er líka spennandi en þar munum við fá ungu kynslóðina til að segja sögur og þá gjarnan bæði í tali og tónum og jafnvel með uppistandi.“ Sólveig: Það er mikið líf í húsinu og á síðustu misserum hefur aðsókn aukist mjög að félagsstarfinu en þar er margt skemmtilegt í boði, bæði handverk, hreyfing og samvera ýmis konar. Verkefnið Menntun núna hefur líka farið mjög vel af stað og nú eru að fara í gang íslenskunámskeið, Landnemaskólinn og Fimmtudagsfræðsla þar sem boðið er upp á kynningar af ýmsu tagi. Það er því gaman að sjá hve gestahópur hússins er fjölbreyttur, bæði hvað varðar aldur og uppruna.“ Guðrún Dís: „Við leggjum mikla áherslu á samstarf jafnt innan húss sem utan. Okkur berast nánast daglega beiðnir um ýmiskonar samstarf og er það mjög jákvætt að fólk upplifi bókasöfnin sem sinn vettvang, hvort heldur er til fræðslu, viðburða- eða sýningarhalds. Sólveig: Og svo má ekki gleyma að það er líka gott að koma við á bókasafninu án þess að vera í einhverjum sérstökum erindagjörðum. Það er notalegt að kíkja við hvenær sem manni hentar yfir daginn, þó ekki sé nema til annars en að kíkja í blöðin, fá sér kaffibolla og spjalla um daginn og veginn. Við viljum helst að fólk, jafnt ungir sem aldnir upplifi Gerðuberg sem griðastað í erli dagsins. Svo er líka fínt að læra á bókasafninu. Fyrir þá sem ekki vita er boðið upp á heimanámsaðstoð fyrir börn í 4. til 10. bekk á bókasafninu á mið-vikudögum kl. 14.00 til 15.30. Við köllum þetta „Heilahristing“ og er skipulagt í samstarfi við Rauða krossinn sem sendir hingað sjálfboðaliða sem aðstoða börnin við heimanámið. Það er líka gott að leita til starfsmanna bókasafnsins þegar vantar heimildir fyrir ritgerðasmíð eða önnur verkefni.“

Tónlistin á sínum stað

Guðrún Dís: „Klassík og Jazz í hádeginu er enn á sínum stað. Ragnheiður Gröndal jazzsöngkona stígur á stokk 13. og 15. febrúar og Hulda Björk Garðarsdóttir sópransöngkona verður ásamt Nínu Margréti Gríms-dóttur píanóleikara með klassísk verk eftir Schumann, Brahms og fleiri í lok febrúar. Svo það er um að gera að fylgjast vel með dagskránni, skrá sig á fréttabréfspóstlistann okkar og kíkja á nýju heimasíðuna okkar www.borgarbokasafn.is. Það er svo sannar-lega nóg um að vera í þessu fyrsta menningarhúsi Reykvíkinga sem nú er að verða 32 ára. Það hefur þróast í takt við tíðarandann hverju sinni og hefur nú fengið sannkallaða andlitsupplyftingu. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni og vonandi verður Gerðuberg áfram stolt Breiðhyltinga.“

You may also like...