Húsið er að grotna niður á hafnarbakkanum

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Húsinu var komið upp af Ríkisskipum, var lengi í eigu Jóns Ásbjörnssonar, áhugi var á að koma Nettó verslun þar fyrir en er nú í eigu útvegsfyrirtækisins Brims og hefur staðið að mestu ónotað í nokkur ár.

„Við höfum verið að þrýsta á eigandann að huga að útliti hússins,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna í samtali við Vesturbæjarblaðið. Húsið hefur stöðuleyfi til næstu ára samkvæmt skipulagi en það hefur nánast ekki verið í notkun síðustu sjö til átta árin og lítið verið um viðhald þann tíma.“

Gísli segir að vafalaust verið gerðar breytingar á notkun þessa svæðis með nýju skipulagi en eins og er sé lítið að gerast í málinu. „Við hjá Faxaflóahöfnum viljum að þarna verði áfram starfsemi sem tengjast höfninni og bryggjunum fremur en að efnt verði til íbúðabyggðar eða hótelbygginga og að það verði haft í huga þegar kemur að skipulagsgerð. Til þess er að mínum dómi of þröngt um og lítil aðstaða fyrir bílastæði sem slík landnotkun kallar eftir auk þess sem hafnarsvæðið á að geta haldið sér,“ segir Gísli. Húsið sem um ræðir stendur á gamla hafnarbakkanum í Reykjavík og var upphaflega byggt á vegum Ríkisskipa sem önnuðust strandsiglingar kringum Ísland á árum áður og gerðu Heklu og Esju út ásamt fleiri skipum vegna þjónustu við landsbyggðina. Eftir að rekstri Ríkisskipa var hætt komst húsið í eigu Jóns Ásbjörnssonar útvegsmanns sem nýtti það til fiskvinnslu um hríð og sem geymsluhúsnæði. Eftir að fyrirtæki hans hætti notkun þess var hugað að sölu og sóttust KEA og Samkaup eftir því til þess að koma Nettó verslun á fót en fyrirtækin leituðu þá með logandi ljósi að húsnæði fyrir verslunarrekstur í Reykjavík. Sú hugmynd naut ekki náðar hafnaryfirvalda sem töldu að rekstur dagvöruverslunar eða stórmarkaðar ætti ekki erindi inn á hafnarsvæðið og lítið pláss væri fyrir þá umferð sem fylgdi slíkri starfsemi. Eftir það komst húsið í eigu Brims útvegsfyrirtækis Guðmundar Kristjánssonar en hefur nánast ekkert verið nýtt síðan nema lítillega sem geymsluhúsnæði og fyrir nokkra viðburði á vegum listamanna. Ljóst er að húsið er í nokkuð þröngri stöðu hvað sölu varðar. Möguleikar um nýtingu þess, sölu eða niðurrif eru háðir skipulagi til framtíðar og hvernig borgaryfirvöld hugsa sér að haga framtíðaruppbyggingu gamla hafnarsvæðisins. Á meðan grotnar húsið niður og augnayndi af því minnkar með hverju óvissuárinu sem líður.

You may also like...