Landsbyggðarstelpa í Breiðholtinu með mörg járn í eldinum

Unnur Maria 1

Unnur María Sólmundardóttir kennari með meiru.

Unnur María Sólmundardóttir er kennari en er engu að síður með mörg járn í eldinum. Hún er hálfur Norðfirðingur, ólst upp á Akranesi en hefur frá 18 ára aldri búið í Reykjavík, lengst af í Breiðholtinu þar sem hún býr núna ásamt fjölskyldu sinni.

Unnur María er menntaður sjúkraliði, lögreglumaður, viðburðarstjórnandi og smíðakennari, og kennir í dag á yngra stigi í Breiðholtsskóla auk þess að stunda nám í hagnýtri Margmiðlun við Borgarholtsskóla sem hún lýkur í vor. Breiðholtsblaðið hitti Unni Maríu á dögunum. “Mér finnst ég alltaf vera landsbyggðarstelpa þó ég hafi lengst af búið í borginni, það er frábært að alast upp úti á landi, maður er svo frjáls, getur stússast í krabbaeldi á Langasandi ef svo ber undir og leikið sér í fjöllunum fyrir Austan. Eflaust hefur þessi reynsla haft sitt að segja með hversu vel mér líður hér í Breiðholtinu. Það er gott að vera með börn í Breiðholti, það er stutt í náttúruna sem er hér allt í kringum okkur samanber útivistarparadísina Elliðárdalinn.”

Það er sérstök samsetning að vera sjúkraliði og kennari, hvernig kom það til?

“Ég ætlaði mér frá sex ára aldri að verða hjúkrunarfræðingur og byrjaði á að fara í sjúkraliðanám. Eftir að hafa unnið á sjúkrahúsum sá ég að hjúkrunarfræðin hentað mér ekki sem framtíðarstarf og ákvað því að fylgja æskuvinkonu minni sem þá var í kennaranámi. Leiðin lá í verknámsgreinarnar þar sem ég er svo mikill föndrari. Upphaflega ætlaði ég að fara í textílkennarann en ákvað að taka frekar smíðina þar sem ég vildi læra á þær vélar og tól sem notaðar eru í smíðunum.”

En hvað heillar þig við kennarastarfið?

“Það er bara svo margt, starfið er bæði fjölbreytt og fjölskylduvænt og manni gefst einnig tækifæri til að fylgja börnunum sínum eftir í þeirra námi. Ég byrjaði að kenna á miðstigi en hef síðustu ár kennt yngri börnum þ.e. 1. og 2. bekk og finn að það á mjög vel við mig, kennslan er fjölbreytt og börnin svo skapandi.”

Kennarar þurfa ekki alltaf að finna upp hjólið

Unnur María fór í námið í Borgarholtsskóla til að þróa áfram hugmyndir sínar um námsefnisgerð og miðlun. Hún hefur þegar gefið út sex tölublöð af Vefriti Kennarans, sem innihalda námsefni og skipulagsgögn, en í náminu lærir hún að nota ýmis hönnunar- og umbrotsforrit. Hugmyndin byrjaði sem Facebookasíða fyrir þremur árum og lokaverkefnið í náminu er að gera heimasíðuna www.kennarinn.is , nokkurs konar gagnabanka með öllu er lítur að námi og kennslu. Heimasíðan er í vinnslu en hún stefnir að því að fullgera hana á næstu mánuðum. “Markmiðið með síðunni og vefritunum er að skapa vettvang fyrir kennara til að deila kennsluefni, aðferðum og ábendingum um eitt og annað sem tengist námi og kennslu. Ég hef aðallega verið að vinna með eigið efni hingað til en vona að fleiri bætist í hópinn,” segir Unnur María en hún sér fyrir sér að vefurinn verði í framtíðinni nokkurskonar upplýsingatorg og gagnabanki fyrir kennara, nemendur og foreldra á skólastigunum fjórum.

En hvernig gengur að halda svo mörgum boltum á lofti í einu?

“Það hefur gengið hingað til þó vissulega hefði ég viljað komast lengra með verkefnin mín og eyða meiri tíma með fjölskyldunni. Það verður frábært að útskrifast í vor og eiga aftur tíma aflögu.” En hvert stefnir þú í framtíðinni, kennari, vefstjóri og útgefandi? “Mig langar að þróa hugmyndir mínar í námsefnisgerð og miðlun lengra þó ég sé ekkert endilega að hætta sem kennari. Til að ramma þær inn stofnaði ég fyrirtækið Kennarinn útgáfa í haust. Eftir útskrift stefni ég að því að vinna meira í viðskiptahugmyndinni á bak við verkefnið, gera það sjálfbært með því að finna leiðir til að skapa tekjur af vinnu minni í framtíðinni.”

Langamma lítur til með mér

Í upphafi gantaðist Unnur María með að langamma hennar sem dó áður en hún fæddist hafi í gegnum tíðina minnt hana á að slaka á með því að gera vart við sig á ýmsum tímapunktum í lífi hennar. Hún sér hana ekki sjálf en hefur fengið að heyra frá miðlum og næmu fólki að nafna hennar fylgi henni og láti vita af sér öðru hvoru. Mögulega þegar að verkefnin hafa e.t.v. verið of mörg og álagið of mikið. Ekki urðum við þó varar við langömmu í viðtalinu sem þýðir væntanlega að hún er mjög sátt við þá stefnu sem Unnur María er að taka í lífinu.

SGK

You may also like...