Þróun fasteignaverðs á Seltjarnarnesi og Vesturbæ

Nesid

„Þegar ég hóf störf við fasteignasölu fyrir rúmum 12 árum þá var fasteignaverð nánast það sama á Seltjarnarnesi og Vesturbæ Reykjavíkur,“ segir brottflutti Seltirningurinn Ólafur Finnbogason, löggiltur fasteignasala á Mikluborg. Ólafur segir að fasteignaverð hafi verið svipað á Seltjarnarnesi og Vesturbænum allt fram til 2007.

„Svo komu nokkur ár í röð þar sem verð fasteigna á Seltjarnarnesi stóð nánast í stað og sérstaklega verð á sérbýlum. Fasteignaverð hækkaði lítillega í Vesturbænum á sama tíma en eftir 2011 hefur fasteignaverð hækkað mikið og eru notaðar íbúðir í Vesturbæ Reykjavíkur að seljast á sama verði og nýjar íbúðir til að mynda á Skerjabraut og Hrólfsskálamel.“

Grandinn hækkað í verði

Ef horft er á þróun fasteigna-verðs eftir svæðum segir Ólafur fasteignaverð á Grandanum, sem hafi verið töluvert lægra en á Eiðistorgi, Austurströnd og Tjarnarbóli, orðið tölu vert hærra. „Fasteignaverð í fjölbýlishúsum við Mela og Haga eru síðan töluvert hærra en á Granda og á Nesinu að undanskyldum nýbyggingum,“ segir Ólafur.

Um 50 milljónir á Högunum – 42 á Seltjarnarnesi

Ólafur nefnir nýleg verðdæmi þar sem til að mynda 125 fm íbúð á Högunum með bílskúr seldist á rétt undir 50 milljónum og komust færri að en vildu. Á sama tíma var íbúð í Tjarnarbóli sem var mikið endurnýjuð og jafn stór með bílskúr seld á 42 milljónir. 100 fm íbúð auk bílskýlis á Grandanum seldist á 43 milljónir á meðan íbúð af sömu stærð á Austurströnd seldist á 37 milljónir. Ólafur segir muninn á fasteignaverði milli Seltjarnarness og Vesturbæjar vera meiri í sérbýlum og hæðum en þar eru dæmi um 130 fm hæðir með bílskúr sem seljast á 20 milljónum meira Vesturbænum en á Seltjarnarnesi og að svipaður verðmunur sé á raðhúsi á Grandanum og sambærilegu húsi á Ströndunum á Seltjarnarnesi. Ólafur kveðst spenntur að sjá verðlagningu á tveimur nýbyggingum sem nú rísa á Hrólfsskálamel á Seltjarnarnesi og Grandavegi í Vesturbænum en bæði húsin koma í sölu á fyrrihluta þessa árs.

Seltjarnarnes á inni hækkun

Ólafur gerir ráð fyrir að Seltjarnarnes eiga inni hækkun fast-eignaverðs sem komi til með að koma fram á næstu misserum en til þess að það komi þarf að kynna betur fyrir nágrönnum Seltirninga þau gæði sem Seltjarnarnesið hefur upp á að bjóða. „Nú er hagstæðara, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk að búa á Seltjarnarnesi. Útsvarið er 0,82% lægra á Seltjarnarnesi en í Reykjavík og tómstundarstyrkurinn er 15.000 kr hærri. Öll þjónusta er innan 150 m radíus frá skólum á Seltjarnarnesi og foreldrar þurfa ekki að keyra börnin í tómstundir eins og í Vesturbænum. Einnig er samstarf Gróttu, tónlistarskóla og grunnskóla bæjarins til fyrirmyndar þar sem yngstu börnin fara í tómstundirnar í beinu framhaldi af skólanum. Það hlýtur að vera metnaður Seltirninga að vera taldir jafnvígir Vesturbæingum að lágmarki,“ segir Ólafur og það er greinilegt að hjarta hans slær með Seltirningum en hann hefur þjálfað handbolta hjá Gróttu í 16 ár og unnið í félagsmálum á Nesinu auk þess að hafa kennt í Mýrarhúsaskóla.

You may also like...