Margt áhugavert að frétta af umbótum á KR-svæðinu

KR-svædi-1 1

Þessi mynd sýnir hvernig svæðið gæti litið út ef litlu knatthúsin í Kaplakrika væru byggð í Frostaskjóli. Mynd: Þórður Már Sigfússon

Ljóst er að framtíðaruppbyggingu KR svæðisins í Vesturbæ Reykjavíkur hefur dregist von úr viti. Um síðustu aldamót voru ýmsar hugmyndir á kreiki um framtíð KR svæðisins og uppbyggingu á aðstöðu fyrir starfsemi félagsins. Síðan þá hefur lítið gerst og ekki bólar enn á framkvæmdum þótt nokkur teikn virðist á lofti er snerta samvinnu íþróttafélagsins og Reykjavíkurborgar um skipulagsvinnu. Gylfi Aðalsteinsson formaður KR segir að margt áhugavert sé frétta í sjálfu sér, nokkur umræða hafi farið fram um uppbyggingu svæðisins og margir sýnt henni áhuga.

„Meðal annars birtist grein á fotbolti.net þann 16. febrúar sl. á 117 ára afmæli félagsins sem sýndi áhugaverðar hugmyndir um skipulag KR svæðisins sem lúta að knattspyrnunni og er það virðingarvert. En það má ekki gleymast að KR er fjölgreinafélag með á þriðja þúsund iðkendur í 13 íþróttagreinum. Fyrir nokkru var samþykkt í borgarráði að KR og Reykjavíkurborg myndu fara í samstarf um skipulag á KR svæðinu.

Hvar er þessi vinna stödd í dag?

„Það er heilmikil vinna í gangi, í rúmt ár hefur verið starfandi byggingarnefnd sem í umboði aðalstjórnar hefur það hlutverk að koma með tillögur að uppbyggingu á KR svæðinu. Búið er að gera ákveðna þarfagreiningu á svæðinu með tilliti til þarfa félagsins. Það er ljóst að aðstaða okkar annar engan vegin eftirspurninni. Það er einnig ljóst að svo hægt verði að hefja uppbyggingu á svæðinu þarf að breyta deiliskipulaginu og við KR–ingar leggjum mikla áherslu á að það verði gert í fullri sátt við félagsmenn og íbúa í nágrenninu Við höfum átt mjög gott samstarf við Reykjavíkurborg og bindum miklar vonir við það samstarf. En það getur verið ansi snúið að breyta skipulagi í grónu hverfi, sú vinna er tímafrek. Við höfum leitað til arkitektanna Bjarna Snæbjörnssonar og Páls Gunnlaugssonar, en þeir þekkja KR svæðið mjög vel, að koma að þessari vinnu. Enn fremur höfum við gert samning við Borgarbrag um nánari útfærslu á þeirri starfsemi og þjónustu sem hægt verður að bjóða upp á fyrir utan hefðbundna íþróttastarfsemi t.d. í dag er starfræktur tónlistarskólinn Do re mí í félagsheimilinu, frístundastarf skólanna og frístundamiðstöðin Frostaskjól er einnig á svæðinu. Markmiðið með þessari vinnu er m.a. að gera reksturinn sjálfbærari en hann er núna.“ Hvað varðandi uppbyggingu á KR svæðinu er í forgangi? Og hvenær má sjá einhverjar hugmyndir verða að veruleika? „Það má segja að það séu nokkur atriði, aðkallandi er að búa betur að vetraraðstöðu í fótboltanum. Hugmyndin er að koma fyrir á svæðinu okkar „hálfu“ knatthúsi eins og þekkist víða. Enn fremur þurfum við að bæta og stækka íþróttahúsið til að mæta fjölgun iðkenda og loks þarf að bæta félagsaðstöðuna sem er mjög mikilvægt. Það má reikna með að síðsumars ættum við að geta kynnt hugmyndir okkar um uppbyggingu á KR svæðinu. En þetta tekur sinn tíma og við viljum vanda okkur vel.“

Aðstaðan langtum verri en flestra íþróttafélaga

Í greininni á fotbolti.net sem Gylfi vitnar til segir meðal annars að aðstaða KR sé langt um verri en flestra íþróttafélaga hér á landi og einkum ef miða er við höfuðborgarsvæðið. Knattspyrnuhús eða yfirbyggðir fótboltavellir séu til staðar fyrir mörg félög og áform um fleiri byggingar af því tagi. Svo mikill sé aðstöðumunurinn þar sem hann er hvað bestur borin saman við aðstöðu á KR svæðinu að segja megi að himinn og haf skilji þau svæði að. Í greininni kemur fram að ekkert hafi orðið úr neinum þeirra hugmynda sem ræddar voru um síðustu aldamót. Þar má nefna stækkun KR vallarins með tveimur viðbótarstúkum sem gera myndu að verkum að alls myndu um átta þúsund áhorfendur rúmast í sæti á vellinum og bygging knattspyrnuhúss á uppfyllingu við Örfirisey. Fyrir um þremur árum vöknuðu hugmyndir um samstarf KR og húsnæðissamvinnufélagsins Búseta um uppbyggingu svæðisins þar sem gömlu skemmurnar sem kenndar eru við Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda eða SÍF standa. Þær hugmyndir byggðust á samnýtingu lóðarinnar fyrir niðurgrafið knattspyrnuhús og um 70 íbúðir. KR dró sig hins vegar út úr þeirri samvinnu undir lok ársins 2014 þar sem þessi uppbygging myndi ekki henta félaginu eða koma til móts við þarfir þess til frambúðar.

Ekki tæmandi hugmyndabanki

Eins og Gylfi Aðalsteinsson bendir réttilega á fjallar greinin á fotbolti.is aðeins um fótboltahlutann í starfi KR og getur því ekki talist tæmandi hugmyndabanki fyrir það sem þörf kann að vera fyrir og í athugun er varðandi framtíð félagsins en fróðlegt verður að sjá afrakstur þeirrar skipulagsvinnu sem nú er í gangi fyrir svæðið.

KR-svædi-2 1

Það þarf þó að byggja meira en stúku á svæðinu, kannski knatthús í fullri stærð. Knatthúsið á þessari mynd er í sömu stærð og Fífan í Kópavogi. Mynd: Þórður Már Sigfússon

 

KR-svædi-3 1

KR-völlurinn með stúkur allan hringinn sem rúma um 7.500 manns í sæti. Knatthús í fullri stærð er síðan á milli keppnisvallarins og gervigrasvallarins. Mynd: Þórður Már Sigfússon.

 

KR-svædi-5 1

Hvernig mun KR-völlurinn líta út í framtíðinni? Norðurstúkan samtengd knattspyrnuhúsi í fullri stærð. Mynd: Þórður Már Sigfússon.

You may also like...