Tónlistarmaður og læknanemi

ragnar-arni-1

Ragnar Árni Ágústsson.

Ragnar Árni Ágústsson tónlistarmaður og læknanemi er uppalinn á Seltjarnarnesi. Foreldrar hans eru Ágúst Ragnarsson og Katrín Pálsdóttir fjölmiðlamaður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnar farið nokkuð óvenjulega leið í lífinu. Hann stundaði tónlistarnám frá bernsku. Hann er lærður saxófónleikari og hefur bæði sinnt tónleikahaldi og tónsmíðum. Um tvítugsaldurinn ákvað hann að venda kvæði sínu í kross og hefja nám í læknisfræði sem hann stundar nú í Ungverjalandi. Hann segir hugsunina um manneskjuna – tengsl líkama og sálar hafa hrifið sig.

“Ég flutti á Seltjarnarnesið með foreldrum mínum þegar ég var nokkra mánaða. Ég var í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla og hafði þar mjög góða kennara. Ég var í Gróttu bæði í handbolta og fótbolta og síðast en ekki síst í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi. Ég byrjað að spila á blokkflautu þegar ég var sex ára en valdi svo saxófón sem mitt hljóðfæri þegar ég var átta ára. Ég var í lúðrasveitinni hjá Kára Einarssyni sem er nú skólastjóri Tónlistarskólans.

Bertel og Big bandið hans Samma

Á meðan ég var í Valhúsaaskóla var ég í unglingahljómsveitinni Bertel, ásamt félögum mínum Gunnari Gunnsteinssyni, Kjartani Ottóssyni og Jasoni Egilssyni. Við vorum aðeins 14 ára þegar við byrjuðum. Bertel gaf út eina plötu. Þar var ég ekki með saxófóninn heldur spilaði á gítar og hljómborð. Þetta var rokkhljómsveit og við tókum tvisvar þátt í Músiktilraunum.“ Þegar Ragnar hóf nám í menntaskóla tók hann jafnframt inntökupróf í Tónlistarskóla FÍH á jazzsaxófón. „Þannig byrjaði ég á sama tíma í Menntaskólanum við Hamrahlíð og FÍH. Ég útskrifaðist úr MH um tvítugt og úr FÍH sem jazzsaxófónleikari árið eftir. Á meðan ég var í FÍH spilaði ég með ýmsum hljómsveitum og komst þannig inn í þá fallegu tónlistarfjölskyldu sem er hér á landi. Þar fékk ég tækifæri til þess að spila með mörgu ágætu og skemmtilegu fólki til dæmis SJS Big band sem Samúel Jón Samúelsson stýrði af mikilli snilld. Flestir sem ég spilaði með þar voru eldri en ég. Þetta er fjölmenn hljómsveit skipuð einvalaliði íslenskra jazztónlistarmanna. Sammi hóaði fyrst í mig þegar ég var 18 ára.“ Ragnar segir að þetta band hafi farið um alla Evrópu og spilað mjög víða. „Þarna eignaðist ég ákveðna lærifeður sem kenndu mér bæði um tónlist og lífið í leiðinni. Ég líki þessu stundum við þegar faðir minn hefur sagt mér sögur frá því að hann var til sjós á sínum yngri árum. Ragnar hefur komið víða við í tónlistinni. Hann spilaði með Bubba Morthens á plötunni “Ég trúi á þig” og var meðlimur í hljómsveit hans Sólskuggarnir. Ég spilaði einnig með Hjálmum og ferðist með þeim á tónlistarhátíðir. Skömmu áður en ég fór frá Íslandi er Ásgeir Trausti að hefja sinn tónlistarferil og spilaði ég undir hjá honum sama kvöld og ég flaug í fyrsta skipti til Ungverjalands. Ég man líka að ég hugsaði að þetta yrði líklega það síðasta sem ég myndi spila inn í langan tíma því nýtt viðfangsefni væri að taka við.“

Einkaþjálfari og tónlistarkennari

Ragnar hefur komið víðar við en á tónlistarsviðinu og í læknisfræðinni. Hann segir að eftir að hann lauk menntaskólanum – árunum á milli tvítugs og tuttugu og þriggja ára kenndi hann á saxófón í Keflavík. „Ég fékkst við það í tvö ár og fékk þannig að kynnast raunveruleikanum sem tónlistarkennari. Annað árið í kennslunni var ég líka að þjálfa hjá World Class. Ég fór í einakþjálfaraskóla World Class og fékk vinnu hjá þeim.“ Um svipað leyti hófst crossfit æðið á Íslandi ég og vinur minn Ari Bragi Kárason trompetleikari byrjuðum að þjálfa, hann fór aðeins lengra með það en ég. Uppúr þessu fer ég að fá áhuga á líkamanum. Á þessum tíma hafði ég hugsað mér að fara í framhaldsnám í tónlist og var búinn að kynna mér skóla í Þýskalandi, Bretlandi og í Bandaríkjunum og reyna að meta hvað mig langaði til þess að gera.“

Kynntist munki í Þýskalandi

„Þegar ég var sextán ára fór ég á námskeið í hugleiðslu til Þýskalands. Mér finnst hugleiðslan hafa hjálpað mér á mörgum sviðum. Bæði í listsköpun og einnig hvernig ég hef nálgast námið. Þá fékk ég að velja mér hugleiðslukennara. Hann er munkur og búinn að helga líf sitt þessum fræðum. Og svo sérkennilegt sem það kann að virðast þá hefur hann alltaf verið á réttum stað í mínu lífi. Ég hitti hann fyrst þarna í Þýskalandi en þessir menn ferðast gjarnan um heiminn og kenna fræði sín. Á ferðum sínum kom hann eitt sinn hingað til lands og ég hitti hann þá sem er auðvitað ótrúlegt. Og núna eftir að ég fór til Ungverjalands komst ég að því að hann hefur dvalið í Króatíu sem er næsti bær við, þannig að við höfum átt áframhaldandi góð samskipti. Ég hef heimsótt hann og hann hefur heimsótt mig yfir til Ungverjalands. Við erum búnir að halda góðu sambandi í um áratug og þessi maður hefur kennt mér og haldið mér við efnið í hugleiðslunni og bent mér á að reyna að lifa í núinu.

ragnar-arni-2

Ragnar Árni kominn í læknasloppinn og sestur við orgel og farinn að leika fyrir þá sem dvelja á sjúkrahúsi.

Fékk áhuga á líkama og sál

Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika um framhaldsnám gerðist það að ég fékk meiri áhuga á líkamanum. Bæði þessum efnislega en einnig á andlegu hliðinni. Eða á líkama og sál og tengingunni þar á milli. Ég velti sálfræðinámi fyrir mér sem er styttra nám en læknisfræðin en fannst það einhvern veginn of huglægt fyrir þær hugmyndir sem ég var farinn að þróa með mér. Þegar ég var að þjálfa í World Class fékk ég alls kyns spurningar frá fólki sem ég gat alls ekki svarað vegna þess að ég hafði ekki þekkingu til þess. Ég fór því að lesa mér til um þessa hluti. Greinar um heilsu og líkamlega líðan. En það var erfitt fyrir mig að gera mér grein fyrir hvað var sannleikur í þessu skrifum og hvað gat flokkast sem áróður fyrir tilteknum lífsstíl. Mig langað til þess að afla mér fróðleiks og mynda mér mínar eign skoðanir út frá því. Þegar ég fór að íhuga læknisfræðina gerði ég mér grein fyrir að inntökupróf í læknisfræði gæti orðið mér erfið því ég hafði engan sérstakan undirbúning úr framhaldsskóla fyrir þá leið.“

Gat tekið undirbúningsnám úti

Ragnar segist hafa verið mikið meira í félagslífi og listum en að afla sér efnafræðilegrar- og líffræðilegrar þekkingar þótt hann hafi verið til hálfs á tónlistarbraut og til hálfs á náttúrufræðibraut. „Ég var þó með ákveðinn grunn af náttúrufræðibrautinni en hafði ekki verið að stefna í þessa átt. Þeir sem ætla sér í læknisfræði eru jafnan búnir að stefna að því í framhaldsskóla og undirbúa sig. Ég sá því tækifæri í Ungverjalandi þar sem fyrsta árinu er varið í undirbúning fyrir hina eiginlegu læknisfræði. Þar er kennd efnafræði og eðlisfræði ásamt fleiri fögum sem eru grunnfög í læknanáminu. Þar gat ég náð mér í þann undirbúning og byggt þann grunn sem ég þurfti á að halda fyrir framhaldið. Ég lærði heilt sumar fyrir inntökuprófið og komst svo inn í þetta fornám þar sem mér var sagt að ef það gengi vel gæti ég hafið nám í læknisfræði. Ég er búinn að vera úti í fjögur ár og á eftir þrjú til þess að ljúka almennri læknisfræði.”

Saxófónninn var minn besti félagi

Ragnar segir að þetta sé búið að vera bardagi og á ýmsu hafi gengið. „Það var ekki auðvelt að byrja. Ég hafði aldrei setið við að læra svona marga klukkutíma á dag. En ég hafði hins vegar æft mig á saxófóninn marga klukkutíma á dag í mörg ár og það koma mér til góða. Ég bjó í litlu herbergi til að byrja með. Það var gott að hafa saxann með í för og geta gripið til hans til að hreinsa hugann“. Ragnar segist nota bækur mikið í náminu. „Mér finnst betra að lesa af bókum en af tölvuskjánum en það fer þó eftir því við hvað maður er að fást. Mér finnst ég fá meiri yfirsýn þannig.“ Ragnar segir ungversku ekki þvælast fyrir útlendingum í læknanáminu. „Við lærum latínu fyrsta árið til að komast inn í fræðaheitin en síðan fer allt nám fram á ensku. Þetta er staðlað nám eftir amerískum háskóla. Ragnar segir að það sem skemmtilegast sé við að vera við nám í Ungverjalandi sé hversu fjölbreyttan hóp af ungu og hæfileikaríku fólki stundi nám við háskólann. „Þarna er samankomið í þessum fallega háskólabæ fólk frá öllum heimshornum.

Nýtt lag í lok sumars

En aftur að tónlistinni. Er tími fyrir hana með öðrum hætti en að blása við og við í saxófóninn til að hvíla sig frá náminu. „Þarna úti gefast ekki eins mörg tækifæri til þess að spila með góðum hljómsveitum og hér heima. Þá sá ég hversu gott það var að vera hluti af þessari góðu íslensku tónlistarfjölskyldu þar sem allir spila með öllum og fólk hjálpast að. Þetta varð til þess að ég fór sjálfur að semja meiri tónlist. Í íbúðinni þar sem ég bý úti er lítið herbergi sem ég þarf ekki að nota. Ég breytti því í stúdíó þar sem ég get verið við að semja mína eigin tónlist. Ég hef aðeins minnkað saxófónleikinn. Alla vega í bili. Ég er einkum að semja á gítar, búa til texta og syngja mín eigin lög þessa dagana. Ég gaf út eitt lag síðasta sumar og gerði tónlistarmyndband sem heitir Leiðin og er tekið upp í fjörunni hér við Gróttu á Seltjarnarnesi og ég frumsýndi það í húsinu sem ætlað var fyrir Lækningaminjasafn þaðan sem hægt er að sjá yfir tökustaðinn. Hægt er að að sjá lagið og myndbandið á heimasíðunni minni www.ragnarmusic.is. Nú er ég nýlega komin úr stúdíói þar sem ég tók upp fleiri lög sem ég er búinn að vinna með frábærum tónlistarmönnum. Þar voru Seltirningar með mér. Þar á meðal Helgi Hrafn Jónsson sem var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness 2015. Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommuleikari og Gunnar Gunnsteinsson bassaleikari. En einnig aðrir snillingar þeir Pétur Ben gítarleikari og Tómas Jónsson hljómborðsleikari. Ragnar segir að tónlistarskólinn eigi mikinn heiður skilinn fyrir það tónlistarlega uppeldi sem margir ungir Seltirningar hafi notið. Þá vil ég nefna það frábæra starf sem unnið er í félagsmiðstöðinni Selinu, þar sem ýtt var undir skapandi starf unglinga.

Hef verið að semja kvikmyndatónlist

Einnig hef ég samið tónlist fyrir bíómyndir. Ég hef farið á nokkrar kvikmyndahátíðir í Evrópu einkum í Frakklandi, vegna þess að ég hef aðallega starfað með frönskum aðilum – leikurum og leikstjórum. En þetta samstarf er góð afsökun til að eyða meiri tíma í París í stuttum stoppum.“ En tónlistin og læknisfræðin, er endilega svo langt á milli? „Gerast töfrarnir ekki einhverstaðar á þeim stað þar sem vísindin og listin mætast? Þetta er staður sem mig langar að rannsaka betur”. segir Ragnar Árni Ágústsson að lokum.

ragnar-arni-3

Saxófónninn var minn besti félagi segir Ragnar þegar hann dvaldi í framandi landi. Hér blæs hann með íslenskum tónlistarfélögum.

You may also like...