Hagsmunir Vesturbæjarins hafðir að leiðarljósi

Hér er tillaga sem er til umræðu um framtíðar skipulag á lóð KR. Hér er ekki um að ræða neina hönnun eða endanlegt skipulag. Þessi teikning var gerð til þess að skoða hvað kemst fyrir á svæðinu með tilliti til nýtingu. Ekkert er enn ákveðið með byggingar eða útlit en áhersla verður lögð á lifandi götumynd, nýtingu og hagkvæmni. Næsta skref er að vinna með skipulagsyfirvöldum hjá Reykjavíkurborg að nýju skipulagi.

Málefni KR hafa lengi verið til umfjöllunar en ljóst er að félagið er fyrir löngu orðið aðþrengt með núverandi aðstöðu. Það hefur ekki verið augljóst hvernig leysa mætti úr þessum aðstöðuvanda íþróttafélagsins og ýmsar leiðir verið skoðaðar. Mannvirkjanefnd KR fékk til liðs við sig Pétur Marteinsson fyrrum knattspyrnumann ásamt Guðmundi Kristjáni Jónssyni skipulagsfræðingi til að vinna að hugmyndum um uppbyggingu KR svæðisins á vegum fyrirtækis þeirra Borgarbrags. Um er að ræða athyglisverðar hugmyndir sem eiga hugsanlega eftir að verða grunnurinn að frekari uppbyggingu aðstöðu á KR svæðinu á næstu árum. Vesturbæjarblaðið ræddi við Pétur um stöðu verkefnisins.

Pétur segir að þegar ræða eigi um uppbyggingaráform KR verði að horfa til baka til áranna fyrir hrunið 2008. Þá hafi verið uppi ýmsar hugmyndir, m.a. ákveðnar tillögur á árunum 2006 og 2007 um uppbyggingu í kringum KR. Umtalsverð vinna hafi þá farið fram við að skoða hvað hægt væri að gera á svæðinu. Þetta verkefni hafi undið upp á sig og orðið meira „Vesturbæjarverkefni“ frekar en sérstaklega bundið við KR því ljóst hafi verið hvernig uppbygging KR gæti einnig tekið mið af þörfum Vesturbæjarins. Pétur segir að KR sé fyrst og síðast hverfisfélag sem sé mjög annt um að koma til móts við íbúana eins og það geti.

Vesturbæingar töldu skorta þjónustu við börn og unglinga

„Í þeirri vinnu sem fram fór á þessum árum var settur saman stýrihópur til þess, meðal annars, að hlusta eftir hvernig íbúar litu á hverfið – hvað væri gott í Vesturbænum og hvað ætti ekki að gera og hverju þyrfti að breyta. Þegar búið var að vinna úr þeim gögnum á sínum tíma var farið út í allsherjar skoðanakönnun um mannlífið í Vesturbænum. Meðal annars var spurt um líðan barna í hverfinu, hvað væri vel gert og svo framvegis. Í þessari könnun kom í ljós að Vesturbæingar töldu skorta betri þjónustu við börn og unglinga. Sérstaklega var bent á vetrarstarfið í því sambandi og að aðstaða væri ófullnægjandi. Einnig kom fram í þeirri könnun að fólk vill gjarnan sjá öflugra tómstundastarf, listnám og fjölbreyttara úrval fyrir börn. Skoðað var hvar fólk stundaði íþróttir og það koma greinilega í ljós að því lengra sem fólk bjó frá KR svæðinu því minni var þátttakan. Þá virtist Hringbrautin virka sem gjá á milli hverfishlutanna því börn úr Vesturbæjarskóla komu mun síður til þess að stunda íþróttir hjá KR en úr byggðunum sunnan götunnar.“

Vandaður undirbúningur

Pétur segir alveg ljóst að íþróttastarf sé ein besta forvörn sem börn og ungmenni geta notið og hreyfing og félagsskapur skipti miklu máli í uppvexti barna. „Á sínum tíma var farið að skoða hvert umfang verkefnisins gæti verið út frá hagkvæmni og nýtingarmöguleikum og Ask arkitektar og Bjarni Snæbjörnsson arkitekt fengnir til að skoða hvernig best væri að nýta KR svæðið. En síðan kemur hrunið 2008 og allar hugmyndir um fjárfrekar framkvæmdir fara á salt. Á árunum eftir hrun var ljóst að erfitt yrði að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir og því hægðist á vinnunni þar til aðstæður bötnuðu. Á þessum tíma fengu hugmyndir um uppbyggingu að þróast og þroskast. Fyrir um tveimur árum var það síðan mat aðalstjórnar KR að tímabært væri að setja þessa vinnu af stað aftur með skipulegum hætti á nýjan leik. Þá hafði verkefnið fengið að þroskast og dafna en það nýtir engu að síður að hluta til þeirrar vinnu sem unnin var á sínum tíma.“

Skýrsla og næstu skref

Í kjölfarið á ákvörðun aðalstjórnar KR skipaði hún sérstaka mannvirkjanefnd sem vann þarfagreiningu með verkfræðistofunni Mannviti. Mannvirkjanefndin samanstendur af fulltrúum deilda KR ásamt formanni, varaformanni og framkvæmdastjóra KR. „Þeir réðu síðan Borgarbrag – fyrirtækið sem ég tilheyri til að vinna forhagkvæmnisathugun. Í henni skoðuðum við stöðuna eins og hún er í dag út frá aðsöðu og viðhorfi fólks til KR. Við byrjuðum á að skoða þarfagreiningu sem KR hafði unnið með deildum félagsins, bárum saman Vesturbæinn við önnur hverfi og KR saman við önnur sambærileg félög. Við áttum samtöl við marga hagsmunaaðila í hverfinu og í lokin þróuðum við þessa hugmyndafræði í samstarfi við ASK arkitekta og Bjarna Snæ-björnssson arkitekt og pökkuðum henni inn í skýrslu sem við erum búnir að kynna fyrir trúnaðarmönnum og sjálfboðaliðum innan KR auk formanna allra deilda félagsins. Þá hafa verið haldnir opnir íbúafundir, m.a. með Reykjavíkurborg, þar sem hugmyndirnar hafa verið kynntar og kallað eftir samræðu. “Aðstaða til íþrótta- og tómstundaiðkunnar er ofarlega á baugi en hugmyndirnar nú snúa einnig að mannlífi í hverfinu með skemmtilegri götumyndum og þjónustu við íbúa að leiðarljósi. Vesturbærinn er gott hverfi og þessar hugmyndir miða að því að gera það enn betra“.

Pétur Marteinsson. Myndin tekin á Kaffi Vesturbæ þar sem spjallið við Pétur fór fram.

Vesturbærinn hannaður sem fjölskylduhverfi

Pétur bendir á að Vesturbæinn hafa strax í upphafi verið hannaður sem fjölskylduhverfi þar sem auðvelt væri að ganga á milli heimila og þjónustustaða. „Svæðið frá háskólanum og vestur að KR átti að mynda nokkra þjónustukjarna með verslanir, vinnustofur og annars konar þjónusta við hverfið. Háskólinn, Hótel Saga, skólarnir, sundlaugin, Kaffihús Vesturbæjar, Úlfarsfell og Melabúðin mynda enn þennan kjarna. Hugmyndir KR nú eru að bæta enn við þessa þjónustu þannig að hverfið geti orðið sjálfbærara. Borgarumhverfi þar sem fólk getur gengið á milli staða – heimila, skóla og þjónustu – er miklu skemmtilegra en þegar þarf langar leiðir til þess að sækja þjónustuna. En til þess að verslun og önnur þjónusta festi nægilegar rætur þarf einnig tilskilinn fjölda íbúa til þess að nota hana.“

KR svæðið kjarni íþrótta, tómstunda og þjónustu

„Hugmyndin sem við vinnum eftir er að gera KR svæðið að kjarna þar sem ákveðna hverfisþjónustu verði að finna,“ heldur Pétur áfram. Þá er ég ekki síst að tala um þjónustu fyrir börn og ungmenni en einnig fyrir almennar fjölskyldur í Vesturbænum. Ef ég byrja á því sem felst í fyrsta fasanum þá er hugmyndin að íþróttir, listnám og frístundastarf verði allt á einum stað. Að krakkar úr skólunum í kring sem einkum eru Grandaskóli, Vesturbæjarskóli, Melaskóli og Hagaskóli hafi þannig möguleika á að koma á KR svæðið eftir skóla og hin hefðbundna „vinnudag“ sinn og að foreldrar þurfi ekki að vera að skutlast með börnin hingað og þangað. Inn á KR svæðinu á öll þjónusta sem börnin vilja sækja í að vera til staðar. Þarna yrði tónlistarkennsla, leiklist og myndlist. Mögulega yrði hægt að koma skátastarfi fyrir og einnig að bjóða upp á almenna hreyfingu fyrir fólk á öllum aldri. Þetta eru hugmyndir um nýja starfsemi en á sama tíma leggjum við til að bæta það sem fyrir er á staðnum. Það má samt ekki gleyma því að KR býður í dag, umfram íþróttir, upp á mikla þjónustu við börn og unglinga. Félagsmiðstöðin Frostheimar, tónlistarskólinn DoReMi og frístundaheimilið Frosti eru öll á svæðinu í dag ásamt því að leikskólum í hverfinu er boðið að “leika” sér á daginn í sölum KR án greiðslu. Hugmynd er um að bæta við yfirbyggðu knatthúsi sem yrði staðsett inn á miðri lóðinni. Húsið yrði byggt í vari og þyrfti ekki að verða frekt á umhverfið eða umhverfislýti að neinu leyti og auðveldlega mætti byggja það í tveimur áföngum á lengri tíma, yfir hálfan völl í hvorum áfanga.“

Þjónustusvæði og KR svæðið tengist og myndi heild

Pétur segir að auk þessara hugmynda megi nýta rými í útjaðri KR svæðisins sem ekki nýtist undir íþróttastarf. Þá er gert ráð fyrir blandaðri byggð í anda aðalskipulags Reykjavíkur þar sem blanda mætti saman leiguíbúðum og þjónustu á borð við hverfisverslanir. Hægt er að hugsa sér að þarna yrði heilsugæsla eða rými fyrir starfsstöðvar lækna eða hvað annað sem vantar í hverfið.“ Pétur segir að í því sambandi verði að skoða hvaða þjónustu Vesturbæingar kalla eftir og vilja fá til sín í borgarhlutann. Áhugavert væri að ræða þetta við íbúana sjálfa þannig að við sem búum í hverfinu gætum haft áhrif á það sem boðið verður uppá í hverfinu. „Hugmyndin er þó fyrst og fremst sú að hverfið verði sjálfbært, betra og skemmtilegra. Að hægt verði að nálgast þjónustu innan þess og að íbúar þurfi ekki að ferðast akandi í önnur hverfi eða borgarhluta eftir því sem kalla mætti daglegar lífsnauðsynjar hvort sem um neysluvörur er að ræða eða þjónustu á borð við heilsugæslu, íþróttir og uppeldisstörf eða annað sem heyrir undir þessa skilgreiningu.“

Vöntun á fjölbreyttari íbúðaúrræðum

Pétur segir borgin leggi um þessar mundir áherslu á að nú sé vöntun á fjölbreyttari íbúðaúrræðum – einkum minni íbúðum og skoða mætti hvort hægt væri að koma til móts við þær þarfir í leiðinni. „Íbúðaverð í Vesturbænum hefur rokið upp að undanförnu og ljóst að umbætur á KR svæðinu bæði hvað íþróttastarf og þjónustu varðar mun auka vinsældir þess og einnig kalla eftir ódýrari húsæðiskostum og fleiri leiguíbúðum. Við þurfum að athuga fleiri úrræði í húsnæðismálum því ef fram heldur sem horfir er hætta á að Vesturbærinn þróist meira í þá átt að verða einsleitt hverfi eldri íbúa þar sem yngra fólk á erfitt með að koma undir sig fótunum. “

Hagsmunir Vesturbæjarins og KR fara fullkomlega saman

Pétur segir að með þessum hugmyndum og úrvinnslu þeirra vilji KR koma til móts við framtíð Vesturbæjarins í samvinnu við Reykjavíkurborg og íbúana eins og kostur er. Að opna faðminn út í hverfið eins og hann kemst að orði. „Þetta er stóra myndin sem við erum að vinna eftir. Þegar er búið að máta ýmsar byggingar og nýtingu inn á svæðið þótt ekki sé farið að hanna nein mannvirki. KR er gamalt félag og hugsar langt fram í tímann. Ekki bara til þessa árs eða hins næsta heldur marga áratugi fram í tímann. Við viljum í þessu efni, eins og Kínverjar, hugsa í áratugum og jafnvel öldum. Við erum að reyna ný vinnubrögð – athuga nýja nálgun við það sem okkur finnst stórt viðfangsefni. Hvernig áframhaldandi uppbygging Vesturbæjarins og KR geta farið saman inn í framtíðina. Hagsmunir Vesturbæjarins og KR eiga að geta farið fullkomlega saman.“

Í broddi fylkingar í yfir 100 ár

Pétur segir næstu skref í þessu máli að Reykjavíkurborg og KR hafi ákveðið að setja á fót starfshóp sem undirbúa eigi hvaða breytingar þurfi að gera á deiliskipulagi og síðan þarf að opna Exelinn og hefja vinnu við kostnaðargreiningu. „Það þarf að reikna út hver framkvæmdakostnaður verður, hvaða tekjum breytingar sem þessar geta skilað og greina hver rekstrargrundvöllurinn verður. Eftir er að vinna hagkvæmnikönnunina en hún ætti að geta legið fyrir eftir nokkra mánuði. Vonandi þegar fer að vora á ný.“

KR er stórt fjölgreinafélag

„KR er fjölgreinafélag og stórt á íslenskan mælikvarða en innan félagsins starfa nú 11 deildir. Gömlu íþróttavellirnir sem Vesturbærinn gat státað af á fyrri tíð eru horfnir. Þeir hafa farið undir byggingar. Háskólavöllurinn fór undir bílastæði. Framnesvöllurinn undir Vesturbæjarskólann og gamli Melavöllurinn fór undir Þjóðarbókhlöðuna. Á meðan önnur félög búa við bætta aðstöðu hefur KR staðið í stað. Það er ekki gott fyrir félag sem hefur verið í broddi fylkingar í yfir 100 ár. Vesturbærinn má heldur ekki við því.“

You may also like...