Marshallhúsinu breytt í lista- og menningarmiðstöð

Búið er að breyta Marshallhúsinu í Örfirisey í lista- og menningarmiðstöð.

Margmenni var við opnum listamiðstöðvar í Marshallhúsinu í Örfirisey síðast liðinn laugardag. Á liðnu ári gerði Reykjavíkurborg samkomulag við HB Granda eiganda hússins um leigu þess til 15 ára í því skini að koma þar á fót lista- og menningarmiðstöð. Nú hafa Nýlistasafnið, Gallerí Kling og Bang og Ólafur Elíasson hönnuður og myndlistarmaður – sá sem m.a. hannaði glerhjúp Tónlistarhússins Hörpu flutt starfsemi þangað. Þá hefur nýtt veitingahús verið opnað á jarðhæðinni undir forystu Leifs Kolbeinssonar.

Marshallhúsið á sér merka sögu. Hún hófst árið 1948 þegar Reykjavíkurborg og hlutafélagið Kveldúlfur gerðu með sér sameignarfélagið Faxa sf. um byggingu nýrrar síldarverksmiðju í Örfirisey en þá veiddist mikið af síld í Faxaflóa þótt það ævintýri yrði skammvinnt. Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1948 og var að hluta fjármögnuð með Marshall aðstoð sem Íslandi hlotnaðist eftir stríðslok 1945. Marshall aðstoðin var kennd er við George Marshall, hershöfðingja og síðar utanríkisráðherra en með henni var fjármunum beint að vestan til endurreisnar Evrópu. Það var þó ekki fyrr en á síðari árum að farið var að kenna húsið við Marshall hershöfðingja lengst af var það kallað Faxaverksmiðjan eftir félaginu Faxa sem byggði það. Eftir að síldveiðum lauk og bræðslu var hætt hefur húsið að mestu staðið ónotað þar til nú. Hvatamenn að þessu verkefni eru arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason hjá Kurt og pí og Börkur Arnarson stjórandi Gallerís i8. Það var síðla árs 2014 sem þeir komu að máli við Vilhjálm Vilhjálmsson forstjóra HB Granda og í framhaldi af því fóru hjólin að snúast. Rætt var við borgaryfirvöld sem fljótt sáu margvíslega möguleika í húsinu. Með því mætti leysa húsnæðisvanda Nýlistasafnsins og Klink og Bang auk þess sem eftirsóknarvert væri að fá Ólaf Elíasson að verkefninu. Gerður var samningur um að Reykjavíkurborg leigir allt húsið af HB Granda nema jarðhæðina þar sem er búið að opna veitingastað. Gert er ráð fyrir lif­andi starf­semi á öll­um hæðum; hússins þar sem nokkrar mynd­list­ar­sýn­ing­ar verða uppi á hverj­um tíma og veit­ingastaður og bar á jarðhæðinni.

You may also like...