Miklar breytingar við Birkimel

Talsverð umferð ökutækja sem gangandi vegfarenda er við Birkimel sem tengir m.a. annars Hringbraut við Hagatorg.

Mikla breytingar verða við Birkimel í sumar. Leggja á fjögurra metra göngu- og hjólastíg vestan megin götunnar á milli Hringbrautar og Hagatorgs. Breikka á núverandi gangstétt í átt að lóðarmörkum til að gera pláss fyrir stíginn.

Mismunur í hæðarlegu við lóðarmörk verður leystur með stoðveggjum þar sem þörf er á. Tengingar við núverandi gangstétt verða að mestu óbreyttar, ýmist leystar með rampi eða þrepum. Staðsetningu á innkeyrslu að bílastæði frá Birkimel verður óbreytt en vegna hæðarlegu þarf að gera ramp inn á bílastæðið. Hæðarlega á einu til tveimur bílastæðum verður aðlöguð vegna nálægðar við rampa í innkeyrslu. Skipta á núverandi ljósastaurum út fyrir nýja sem eftir breytingu verða staðsettir í bakkanti gangstéttar. Gert er ráð fyrir að gatan verði óbreytt að mestu, en þrengingar verða settar í götu við biðstöðvar til að auka öryggi og bæta aðstöðu fyrir farþega Strætó auk þess sem hámarkshraði verður lækkaður úr 50 km/klst í 30 km/klst. Á liðnu ári kom fram hugmynd frá íbúa um að endurnýja gangstétt og gera hjólastíg við Birkimel í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt. Hugmyndin var síðan kosin til framkvæmda í íbúakosningum. Verja átt tíu milljónum til verk-efnisins. Umhverfis- og skipulagsráð ákvað að bæta um betur og ráðast í endurnýjun á lýsingu við götuna og leggja breiða göngu- og hjólaleið vestan megin götunnar. Til að framkvæma verkefnið á m.a. að ráðast í færslu á biðstöðvum Strætó við götuna og vinna á hæðarmun við blokkirnar sem standa við götuna til að stígurinn rúmist sem best. Að auki verður gróður endurnýjaður á nokkrum stöðum við götuna til að fegra hana og stofntré verða gróðursett. Birkimelur, frá Hringbraut að Hagatorgi, er fjölfarin leið gangandi og hjólandi vegfarenda en börn nýta götuna mikið til að komast til og frá skóla en bæði Haga- og Melaskóli eru í nágrenni Hagatorgs. Þá er talsverð umferð ferðamanna að Radisson Blu Hótel Sögu auk þess sem Þjóðarbókhlaðan stendur við götuna.

You may also like...