Vilja almenningsgarð á Hagatorgi

Eins og sjá má á myndinni er Hagatorgið stórt og umlukið umferðargötu auk þess sem umferðargötur liggja að því frá öllum hliðum. Byggingar sem umlykja torgið eru Hótel Saga, Háskólabíó og Neskirkja. Sunnan torgsins má sjá Hagaskóla en blokkirnar við Birkimel og Þjóðarbókhlöðuna til norðurs.

Nokkrar umræður hafa farið fram á facebookinni að undanförnu um Hagatorgið. Einkum snúa þær að nýtingu þess og áhuga á að breyta því úr umferðarmannvirki til almanna nota. Í einni grein má m.a. lesa að Hagatorgi mætti breyta úr umferðarmannvirki í almenningsgarð með tengsl við Melaskóla, Hagaborg og Hagaskóla. Bent var á að þótt Hagatorg sé stórt grænt svæði sé það umlukið götu og nýtist engan veginn til neins. Með því að loka Neshaga og Fornhaga næst torginu og leiða umferð af Birkimel annars vegar niður Dunhaga og hins vegar niður Hagamel mætti búa til stórt grænt svæði, sem yrði hluti af skólalóðum þriggja skóla.

Og sami facebokkarhöfundur heldur áfram og segir að með þessu mætti stórbæta aðstöðu fyrir börn í hverfinu til að leika sér úti. Einnig gæti svæðið nýst í kennslu í Melaskóla en þar er rými fyrir útikennslu mjög lítið. Krakkar í Melaskóla þyrftu þá heldur ekki að fara yfir umferðargötu til að fara í íþróttir í íþróttahús Hagaskóla. Svæðið myndi einnig nýtast öðru ungmennastarfi, t.d. skátastarfi. Auk þess myndi þessi breyting líklega minnka umferð í kringum Melaskóla og Hagaborg.

Þarf að hafa bílaumferð á Hagatorgi

Annar höfundur segir þetta vera góða hugmynd. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 sé Hagatorg skilgreint sem almenningsgarður. Því sé ekki seinna vænna en að borgin fari að efna til hugmyndasamkeppni um hvernig torgið skuli líta út. M.a. hvort nauðsynlegt sé yfirhöfuð að hafa bílaumferð á því og hvort ekki sé hægt að loka Neshaga við Furumel þannig að skólalóð Melaskóla yrði stækkuð yfir að Hagaskóla fram hjá kirkjunni.

Autt og vindasamt svæði

Þriðji höfundurinn kveðst hafa búið í Vesturbænum í 50 ár og starfa þar nú. Hann segist fara daglega gangandi til vinnu. Hann segir þetta autt og vindasamt svæði þar sem mætti sannarlega setja niður falleg tré og gróður. Svo mætti líka búa til göngustíga yfir torgið.

Þarf torgið að vera svona ógnarstórt

Annar höfundur leggur til að hafa samkeppni um hvernig mætti nýta þetta svæði betur og sennilega dygði t.d. að loka Neshaga á milli Hjarðarhaga og Hagatorgs til að koma á móts við slíka hugmynd til að byrja með en leyfa aðeins Strætó að laumast þar í gegn. Hann spyr hvort hringtorgið þurfi að vera svona ógnarstórt. Minnka torgið og færa nær hótel Sögu.

Tré, plöntur og annars gróður

Og enn einn leggur orð í belg og kveðst ganga nær daglega um Hagatorg. Hann kveðst velta næstum jafn oft fyrir sé af hverju þetta svæði sé ekki betur nýtt. Það að planta blönduðum gróðri trjám og runnum sem myndu hjálpa verulega til með að mynda skjól sem ekki sé vanþörf á. Honum finnst borðleggjandi að breyta torginu í garð.

Samspil Hagatorgs og bygginganna í kring

En fleiri sjónarmiða gætir í umræðunni. Einn höfundur kveðst ekki á móti því að nýta Hagatorg betur nýtt sem almenningsrými en það þurfi þó að gera það af virðingu við skipulags- og byggingarsögu hverfisins og hugmyndir Einars Sveinssonar borgararkitekts sem hannaði Melahverfið um 1940 út frá ákveðnum skipulagshugmyndum um samspil Hagatorgs og bygginga í kring. Og ekki síst út frá hugsjónum um andrými og birtu fyrir borgara. Hönnun bygginga í kringum Hagatorg taka mið af því og hefur götumyndin og skipulagið fagurfræðilegt gildi.

Íbúðaturn á Hagatorgi

Líst ágætlega á að gera eitthvað með Hagatorg segir einn höfunda á facebookinni. Hann bendir á pláss sem hljóti að vera hægt að nota það betur. Og svo tekur ironian við í skrifum hans því honum finnst koma til greina að byggja stúdentaíbúðir á torginu. Hvað með svona 20 hæða turn sem gæti rúmað ansi margar litlar íbúðir, segir hann og bendir á að Bílastæði séu við Háskólann og því þurfi engin ný stæði.

You may also like...