Þéttasta byggðin er í Vesturbænum

Séð yfir gamla Vesturbæinn frá Bakkastíg yfir Vesturgötu í átt að Landakoti. Í fjarska hyllir undir Skuggahverfi og Borgartún. Allt Vesturbæjarsvæðið er þéttbýlt miðað við aðra hluta Reykjavíkur og þéttleikinn einna mestur norðan Hringbrautarinnar.

Þéttasta byggðin í Reykjavík er í Vesturbænum. Það kemur fram í rannsókn sem unnin var á vegum ráðgjafafyrirtækisins Alta á þéttleika einstakra svæða í Reykjavík. Mestur þéttleiki mældist í gamla Vesturbænum á svæðinu norðan Hringbrautar og austan Hofsvallagötu í þeim borgarhlutum sem skoðaðir voru. Á því svæði eru meðal annars gömlu verkamannabústaðirnir sem reistir voru á fjórða áratugnum. Um 109 íbúðir eru þar á hvern hektara og nýtingarhlutfall er 0,73%.

Í fjölmörgum nýrri hverfum er að finna mun minni þéttleika og jafnvel allt niður í sjö íbúðir á hektara. Algengast er þó að þéttleikinn sé í kring um 20 íbúðir á hektara. Í viðtali sem Vesturbæjarblaðið átti við Gísla Martein Baldursson fyrir nokkur sagði hann að Melarnir og Hagarnir væru með þéttustu borgarhverfum Reykjavíkur eftir að hafa skoðað byggðina. Íbúafjöldinn í þessum tveimur hlutum Vesturbæjarins væri sambærilegur við meðalþéttleika í mörgum borgum í Evrópu. Á þessu svæði væru um 5000 íbúar á hvern ferkílómetra, sem sé svipað hlutfall og sé í þeim borgum Evrópu sem njóti mikilla vinsælda og eftirsótt sé að búa þar. Hann benti á að engin háhýsi séu að finna í þessum borgarhluta en þau eru heldur ekki að finna í borgarhlutanum norðan Hringbrautarinnar.

Á Melunum og Högunum er blanda sérbýlis og fjölbýlis, mikið er af grænum svæðum og garðar við nær öll hús auk þess sem finna má þægilegar gönguleiðir í skóla og vinnu og góð nærþjónusta sé á svæðinu. Þétt byggð er forsenda fyrir mannlífi í hverfunum og fólki á förnum vegi, sem aftur eykur svo öryggi íbúa þeirra. Í könnun Alta kemur fram að skipulagsyfirvöld fjórða áratugarins í Reykjavík hafi verið nokkuð framsýn og sótt fyrirmyndir til borga annarra landa eins og Danmerkur en einnig hafi ákveðin nauðsyn ráðið þéttleikanum í gamla Vesturbænum.

Við Birkimel vestan Hringbrautar eru fjögurra hæða blokkir með kjallara og herbergjum í risi. Þarna er mikill þéttleiki en engu að síður stórar grænar lóðir á milli blokka og bílastæði fyrir hverja íbúð.

You may also like...