Málefni Melaskóla í borgarráði

Margt barna stundar nám við Melaskóla og eru húsnæðisvandræði þegar til staðar og fyrirsjáanleg á næstu árum verði ekki brugðist við.

Borgarráð hefur lagt til að undirbúningur verði nú þegar hafinn að viðbyggingu við Melaskóla enda ljóst að húsnæðisþörf skólans verður ekki leyst til framtíðar án viðbyggingar. Borgarráð samþykkti einnig að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhags- og fjárfestingaráætlunar borgarinnar.

Hin tillagan, um að leitað yrði allra leiða til að tryggja skólanum viðbótarhúsnæði fyrir skólabyrjun í haust, var einnig samþykkt en þar er lagt til að ráðist verði í brýnar viðhaldsframkvæmdir og endur-bætur við Melaskóla í sumar og haust, þar með talið málun innanhúss, viðhald og bón á gólfefni og tilfærslur innanhúss samkvæmt óskum stjórnenda og starfsfólks. Þá verði skólanum boðið viðbótarhúsnæði í nágrenni skólans frá og með næsta hausti. Í tillögunni kemur fram að umrætt húsnæði verði til tímabundinnar ráðstöfunar þar til framtíðarlausn verður ákveðin í húsnæðismálum skólans. Þá verði mótaðar tillögur um hvernig megi bæta útiaðstöðu og leiksvæði barna í skólanum meðal annars með því að nýta betur græn svæði í nærumhverfi skólans. Tillögurnar voru fluttar af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins en voru afgreiddar með góðri samstöðu allra flokka.

You may also like...