50 ára afmælistónleikar Selkórsins

Þessi mynd var tekin af Selkórnum á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi í tilefni af 50 ára afmælinu.

Þann 6. maí næstkomandi fagnar Selkórinn því að hafa sungið sig inn í hjörtu landsmanna í fimmtíu ár. Af því tilefni verður efnt til léttrar tónlistarveislu með lögum sem hafa sérstaklega verið útsett fyrir kórinn á síðustu árum.  

Fyrir hlé verða á efnisskránni ýmsar perlur íslenskra dægurlaga. m.a. eftir Gunnar Þórðarson, Megas, 12. september og einnig eitt lag eftir Friðrik Karlsson, bæjarlistamann Seltjarnarness árið 2018. Eftir hlé er öll tónlistin eftir Seltirninginn og  tónlistarmanninn ástsæla Jóhann Helgason en hann var bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2007. Kórinn lét af þessu tilefni útsetja 9 lög Jóhanns, þar á meðal hið fræga lag hans „Söknuð”. Jóhann syngur nokkur lög með kórnum.

Úrvals tónlistarmenn leika með kórnum á tónleikunum. Gunnar Hrafnsson á kontrabassa, Kjartan Valdemarsson á píanó og Einar Valur Scheving á trommur. Meðleikari kórsins  Dagný Björgvinsdóttir leikur á píanó og orgel og Hafsteinn Þórólfsson syngur með kórnum. Kórstjóri Selkórsins er Oliver Kentish. 

Tónleikarnir verða í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 6. maí og hefjast þeir kl. 16:00. Tónleikagestir fá kaffi og konfekt í hléi. Í tilefni afmælisins verður aðgangseyrir aðeins kr. 1.000.-

Hægt er að nálgast miða hjá kórfélögum og við innganginn. 

You may also like...