Búið að auglýsa Lækningaminjasafnshúsið til sölu

Safnatröð 5. Oft nefnt Lækningaminjasafnshúsið.

Seltjarnarnesbær hefur auglýst Safnatröð 5 til sölu en húsið er þekkt sem Lækningaminjasafnið. Húsið er alls 1.363 fermetrar fokhelt að innan en að mestu fullklárað að utan. Í auglýsingunni kemur fram að tilboðum þurfi að fylgja ítarlegar greinargerðir um starfsemina og hvað væntanlegir kaupendur hyggist fyrir hvað varar notkun hússins. Umhverfi hússins er háð deiliskipulagi sem skipulagt er sem safnasvæði. Í nágrenni þess eru Nesstofa, Lyfjafræðisafnið og Urtagarðurinn. Ekki er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði í húsinu og mikilvægt er að starfsemi þar falli að umhverfinu. 

Engin starfsemi er í húsinu enda langt í frá full klárað. Heildarkostnaður við byggingu þess var talinn vera um 700 milljónir króna í lok árs 2012. Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyri að heildar kostnaður við byggingu þess yrði um 345 milljónir. Lækningaminjasafn Íslands var stofnað samkvæmt stofnskrá sem byggði á samningi Læknafélags Íslands, menntamálaráðuneytis, Seltjarnarnesbæjar og Þjóðminjasafns Íslands um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðisins. Seltjarnarnebær lagði nokkurt fé til byggingarinnar í upphafi eða um 150 milljónir króna Talið er þurfa á bilinu 300 til 400 milljónir til þess að ljúka byggingu þess. Hluti af því er vegna þess að hvorki er búið að leggja hita eða rafmagn í það. Viðræður fóru fram um að ríkið kæmi að byggingu hússins til að unnt yrði að ljúka henni en þær skiluðu ekki árangri. Íbúar á svæðinu hafa kallað eftir að hreyfing komist á mál hússins og að unnt verði að ljúka byggingu þess þar sem það liggi þegar undir skemmdum. Af þeim ástæðum meðal annars hefur bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar ákveðið að auglýsa það til sölu. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um starfsemi í húsinu eftir að ljóst var að það yrði ekki notað fyrir lækningaminjasafn. Ekkert hefur orðið úr þeim enda óljóst hvort eða hvenær byggingu þess muni ljúka.

You may also like...