Minjar úr sögu Seltjarnarness

Gamla lögguhliðið.

Í ofsaveðri í apríl 2015 féllu trönurnar við Snoppu eins og spilaborg en þær höfðu verið eitt af kennileitum Seltjarnarness. Í kjölfarið hvatti Jón Snæbjörnsson til þess á Facebook að trönurnar yrðu endurreistar og svaraði hópur Seltirninga kallinu. Jón og Steinunn Árnadóttir garðyrkjustjóri héldu síðan utan um verkefnið. Trönurnar voru endurreistar af sjálfboðaliðum haustið 2016 Seltirningum til sóma. Til að styðja frekar við þetta verkefni hefur umhverfisnefnd fjárfest í efni sem notað verður til að þétta trönurnar næsta vor. 

Hópur gamalgróinna Seltirninga tók sig til í byrjun nóvember 2018 í samráði við bæjaryfirvöld og endurreisti gamla lögguhliðið á vestursvæði Seltjarnarness í landi Ness en hliðið hafði legið niðri áratugum saman. Eftir seinni heimsstyrjöld var hliðinu komið fyrir til þess að stöðva bílaumferð út í Suðurnes meðfram Kotagranda. Á þessum tíma var svæðið m.a. notað sem skot- og æfingasvæði fyrir lögreglu auk sandtöku landeiganda í fjörunni. Sú notkun er löngu aflögð en minningin lifði. Með þessu frábæra frumkvæði sjálfboðaliða er verið að varðveita sögu Seltjarnarness. Þakkir fá Árni Pétursson, Bragi Björgvinsson, Einar Hafsteinsson, Hreinn Sigurjónsson og Jón Snæbjörnsson en hann fór fyrir hópnum.

Fyrir okkur Seltirninga er mikilvægt að varðveita sögu og minjar á Seltjarnarnesi. Það er því ómetanlegt þegar einstaklingsframtakið leiðir til þess að sjálfboðaliðar stíga fram og láta hendur standa fram úr ermum í þágu samfélagsins. 

Hannes Tryggvi Hafstein

Formaður umhverfisnefndar

You may also like...