Leiðsögumannaverkefni fyrir flóttafólk

Reykjavíkurdeild Rauða krossins er stöðugt að taka inn nýja sjálfboðaliða fyrir Leiðsögumannaverkefni fyrir flóttafólk. Leiðsögumenn flóttafólks kynnast og aðstoða nýkomna einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi. 

Guðrún, Vera og Marco.
© Mynd: Gabrielle Motola.

Það eru um 50 leiðsögumannapör virk í verkefninu. Alls eru 108 fullorðnir einstaklingar í verkefninu og margir eru með fjölskyldur. Flóttafólkið er af 21 þjóðernum og eru fjölmennustu hóparnir frá Kúrdistan, Afganistan og Sýrlandi. Atli er leiðsögumaður fyrir Hassan, sem kom nýlega frá Sýrlandi: “Það hefur verið mjög ´inspírerandi´ að kynnast einhverjum sem ég hefði annars ekki kynnst,” segir Atli. Hassan segir: “Atli lætur mér líða eins ég sé hluti af fjölskyldu. Hann kynnir mig fyrir samfélaginu og hjálpar mér við hvaðeina.” 

Leiðsögumaðurinn verður vinur þess nýkomna, svarar spurningum um lífið á Íslandi, æfir íslensku eða ensku, talar um íslenska menningu og/eða aðstoðar við praktísk úrlausnarefni eins og atvinnuleit, skólaumsóknir og þýðingu bréfa sem berast á íslensku. Leiðsögumannapörin hittast yfir eins árs tímabil, vikulega eða aðra hverja viku. Pörin geta t.d. hisst á bókasafninu, á kaffihúsi, heima hjá hver öðrum, eða hvar sem hentar best.

Markmið verkefnisins er að styðja hina nýkomnu til sjálfstæðis í nýju landi með því að gera þeim kleift að nýta hæfileika sína og þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að farnast vel á Íslandi.

Hulda er leiðsögumaður fyrir Ramadan og Anifu og börnin þeirra. Anifa og Ramadan líta nú á Huldu sem hluta af fjölskyldunni. “Við vinnum að praktískum hlutum, t.d. leitum að vinnu og könnum hvernig hægt sé að fá erlent bílpróf viðurkennt, en við gerum líka margt skemmtilegt saman. Alltaf þegar ég og börnin mín ætlum að stoppa stutt hjá Anifu og Ramadan endum við á að vera í nokkra klukkutíma, tíminn flýgur áfram,“ segir Hulda.

Hassan og Atli.
© Mynd: Gabrielle Motola.

Samskiptum eftir að verkefninu lýkur

Mörg leiðsögumannaparanna halda áfram samskiptum eftir að verkefninu lýkur og í sumum tilfellum verða til vinasambönd, eins og Atli and Hassan. Síðasta vetur fluttu þeir Sveinbjörn og Mohammed TEDx fyrirlestur í Tjarnarbíó þar sem þeir deildi reynslu sinni af verkefninu. Á TEDx fyrirlestrinum tjáði Mohammed sig um hvernig Leiðsögumannaverkefnið hefur haft áhrif á hann: “Eftir eitt ár er verkefninu lokið. Sambandið milli okkar er ekki lengur á milli flóttamanns og leiðsögumanns flóttamanns. Við erum núna nánir vinir. Ég get sagt að verkefnið leiðsögumaður flóttamanns hafi breytt lífi mínu.“

Aðrir flóttamenn og leiðsögumenn verkefnisins hafa álíka reynslu. Vera og Spencer og sonur þeirra Marco voru kynnt fyrir Guðrúnu í gegnum verkefnið Leiðsögumenn flóttafólks. Vera: “Guðrún er góður vinur og systir fyrir mér. Hún er alltaf til staðar. Hún gerir allt betra.” Guðrún er sammála um að hún hefur hjálpað Veru og Spencer að taka þátt í íslensku samfélagi. “Og margar reglur eru óskrifaðar og þau geta spurt mig hvaða spurninga sem er, t.d. um launakjör og leikskóla. Þegar við hittumst vinnum við stundum að ákveðnum verkefnum eða markmiðum en öðrum stundum hittumst við bara og njótum þess að vera saman. Fjölskyldan mín er orðin fjölskylda þeirra.”

Ef þú hefur áhuga á að gerast Leiðsögumaður flóttafólks endilega hafðu samband við Pimm eða Sigrúnu til að skrá þig: pimm@redcross.is eða sigrunerla@redcross.is

Hulda, Anifa og Ramadan.
© Mynd: Gabrielle Motola.

You may also like...