Fríkirkjusöfnuðurinn í 120 ár

Fríkirkjan við Tjörnina er ein af áberandi byggingum í borgarmynd Reykjavíkur. Til hægri er gamla íshúsið sem notað var vegna ístöku á Reykjavíkurtjörn. Upp úr miðri síðustu öld var Glaumbær frægur skemmtistaður þar til húsa þar til húsnæðið skemmdist af eldi. Eftir endurgerð þess hýsir það Listasafn Íslands. Á vinstri hönd er Miðbæjarskólinn en eftir að kennslu barna var hætt í húsinu hefur það verið notað fyrir skrifstofu- og kennsluhúsnæði.

Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík er 120 ára á þessu ári. Fríkirkjan við Tjörnina með sinni einstöku náttúrulegu staðsetningu í hjarta Reykjavíkur hefur verið órjúfanlegur hluti af andliti og ímynd höfuðborgarinnar nú hátt í 120 ár. Stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík í lok 19. aldar er með merkari atburðum íslenskrar menningarsögu.  

Frá byrjun var Fríkirkjan íslensk grasrótarhreyfing og nýtt lýðræðisafl í ferskum anda nýfengins trúfrelsis þjóðarinnar. Hún var stofnuð af íslenskri alþýðu en ekki goðum, höfðingjum, valds- eða embættismönnum erlends eða innlends ríkisvalds. Iðnaðarmenn og verkamannafjölskyldur voru í fararbroddi sem og fjölskyldur sjómanna og bænda sem voru að flytja til Reykjavíkur á þeim tíma. Stofnun Fríkirkjunnar gegndi í raun mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga þar sem ríkiskirkjan, síðar nefnd þjóðkirkja, var í raun hluti af stjórnsýsluapparati danska konungsveldisins.

Kosningaréttur sóknarfólks á oddinn í sjálfstæðisbaráttunni

Fríkirkjan var miðlæg í þeirri lýðræðisvakningu sem átti sér stað hér á landi um aldamótin 1900. Kosningaréttur sóknarfólks og réttur þess til að velja sinn eigin prest var mikið réttlætismál og var eitt af því sem var sett á oddinn í sjálfstæðisbaráttunni. Frá upphafi var meiri áhersla lögð á víða sýn, kvenréttindi, umburðarlyndi og frjálslyndi en áður hafði tíðkast á hinu trúarlega sviði á Íslandi.

Allt frá upphafi hefur Fríkirkjan við Tjörnina verið helguð mannréttindabaráttu. Það er sérlega eftirtektarvert að strax á upphafsárunum skyldu konur njóta sömu réttinda í söfnuðinum og karlar. Í þá daga höfðu konur aldrei haft kosningarétt á Íslandi. Og konur höfðu ekki rétt til skólagöngu hvað þá rétt til æðri menntunar á við karla. Innan safnaðarins var að finna helstu meginreglur lýðræðis og jafnræðis og því ljóst að þar fann fólkið vilja sínum farveg og fann rödd sína í samfélaginu – líklegast í fyrsta sinn á Íslandi.

Baráttumaður fyrir réttindum kvenna

Séra Ólafur Ólafsson var annar prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík og auk þess var hann mikilsvirtur alþingismaður. Séra Ólafur Ólafsson var á sínum tíma einn fremsti karlkyns baráttumaður fyrir frelsi, menntun og almennum réttindum kvenna hér á landi. Heimildir herma að á fyrri hluta síðustu aldar tilheyrði um það bil helmingur íbúa Reykjavíkur Fríkirkjunni og því hefur hún alltaf verið miðlæg í sögu borgar og menningarlífs landsmanna. 

Fríkirkjan þurfti síðan í áratugi að búa við það að ríkisvaldið/þjóðkirkjan tók fríkirkjufólk í þúsunda vís, af skrá síns eigin trúfélags og setti það í ríkis/þjóðkirkjutrúfélagið, án vitundar eða samþykkis. Og trúfélagsgjöldin streymdu því óhindrað í það trúfélag sem fólkið vildi alls ekki tilheyra.

Fjöldi safnaðarfélaga hefur tvöfaldast síðustu tvo áratugina og er nú um tíu þúsund og þeim fer fjölgandi. Þá mun heildarfjöldi Fríkirkjuhreyfingarinnar hér á landi brátt telja um tuttugu þúsund manns. Þúsundir Íslendinga hafa gerst meðlimir og augljóst er að margfalt fleiri taka undir áherslurnar .

Miðlæg í skapandi tónlistarlífi

Fríkirkjan fagnar því sérstaklega að hún er aftur orðin miðlæg í fjölbreytilegu og skapandi tónlistarlífi landsmanna. Jafnt ungir og ómótaðir listamenn sem okkar allra færustu snillingar flytja þar tónlist sína. Það minnir á þá gömlu tíma þegar Fríkirkjan var í áratugi, hljómfegursta og stærsta tónlistarhús borgarinnar og landsmanna allra.

Á undanförnum áratug hefur Fríkirkjan lagt ríka áherslu á mannréttindi samkynhneigðra. Mannréttindabarátta samkynhneigðra hefur borið mikinn árangur undanfarin ár. Fríkirkjan metur mannréttindi ofar trúarlegum kreddum, æðri allri lögmáls eða bókstafshyggju.

Orð séra Ólafs

Svo aftur sé vitað til séra Ólafs Ólafssonar þá ritaði hann í lok nítjándu aldar. „Það á að koma og kemur einhvern tíma sá tími, að konur sitja hér á þingmannabekkjum og taka þátt í löggjöf lands og þjóðar, að konur sitja í dómarasætum, boða guðsorð, gegna læknastörfum, kenna við skóla og rækja hver önnur störf, sem karlmennirnir nú hafa einkarétt til að hafa með höndum. Það kemur að því einhvern tíma að þetta sem nú þykja öfgar mun þykja í alla staði eðlilegt.“  Þessi orð sr. Ólafs eru góð áminning nú þegar enn á ný er horft fram á veginn á fyrir hluta tuttugustu og fyrstu aldar. Það sem þá töldust öfgar þykir nú í alla staði eðlilegt. Það sem þá taldist óraunsæ draumsýn er nú hluti af okkar hversdagsveruleika. Það sem áður var talið ganga í berhögg við Guðs vilja og skikkan skaparans og rótgrónar hefðir telst nú kristilegt og alveg aldeilis sjálfsagt.   

hmj

You may also like...