Kríuvarpið er við Golfvöllinn og í Gróttu

Elísa Skúladóttir og Sigurlaug Sigurðardóttir.

Fuglalíf á Seltjarnarnesi hefur lengi verið afar fjölskrúðugt og býður ysti hluti nessins uppá mikilvægt útivistarsvæði. Grótta og Bakkatjörn eru friðlýst svæði og Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes eru á Náttúruminjaskrá. Bæjarstjórnin studdi í sumar ítarlega rannsókn á fuglalífi sveitarfélagsins, sem var framkvæmd af Sigurlaugu Sigurðardóttur mastersnemanda í umhverfis- og auðlindafræði og Elísu Skúladóttur líffræðingi undir leiðsögn Dr. Freydísar Vigfúsdóttur.

Rannsóknin fólst einkum í reglu-bundnum fuglatalningum á svæðinu en mikil áhersla var lögð á ástand kríuvarp á svæðinu. Seltjarnarnesbær geymir eitt stærsta kríuvarp höfuðborgarsvæðisins. Stærstur hluti kríuvarpsins á Seltjarnarnesi er á og við golfvallarsvæðið og í sumar var einnig veglegt varp í Gróttu. Þessi tvö svæði eru einkar ólík þar sem mikill fjöldi fólks fer um nánast daglega á golfvellinum en Grótta er lokuð fyrir umferð á varptíma. Golfvellir hafa verið viðurkennd sem mikilvæg svæði fyrir villt dýr á þéttbýli. Þó svo að landsvæðinu sé mikið breytt til að halda völlum við og svæðin undir miklu álagi skapa þeir gróðureyjar sem margar tegundir nýta sér, sé virðing borin fyrir svæði fuglanna. Gott er til þess að vita að golfvöllinn á Seltjarnarnesi hefur sett sér heildstæð markmið í vernd varpfugla á svæðinu.

Afrán frá mávum og minkur í Gróttu

Reglulega vöktun á varpinu var gerð yfir varptímann og má þar meðal annars nefna mælingar á eggjum til þess að meta upphaf álegu, ásamt mælingum á ungum og fæðugjöfum í unga. Krían hóf varp um það bil viku seinna en vanalega og gekk varpið ágætlega, þó að sjálfsögðu voru einhver afföll á ungum. Afrán var mest af mávum á svæðinu en síðsumars fundust ummerki um mink á Gróttu. 

Eftir erfiða afkomu sjófugla undanfarin ár vegna fæðuskorts, einkum rakin til hruns í sandsílastofninum er gott að sjá að fæðuframboð virðist hafa verið ágætt hjá kríunni á Seltjarnarnesi. Mest báru kríurnar ýmis síli og seiði í ungana, þó að smærri fæða hafi einnig verið greinileg eins og krabbadýr og jafnvel einstaka skordýr.

Góðviðrið hafði góð áhrif á kríuna

Milt og gott sumar gæti einnig hafa verið mikilvægur þáttur fyrir góða afkomu kríunnar en þurrkurinn í sumar á Suðurlandi virðist ekki hafa farið jafn vel varðandi afkomu vaðfugla, einkum tjalda þar sem þurrkur getur haft neikvæð áhrif á fæðuframboð þeirra. Frekari niðurstöður verkefnisins verða birtar í skýrslu sem verður aðgengileg almenning á vefsíðu bæjarins í lok sumars.

You may also like...