Nýr kafli í sögu Seltjarnarness

Steinn Jónsson, Magnús Örn Guðmundssom og Hilmar S. Sigurðsson.

Laugardaginn 21. september var rekinn endahnútur á mikið íþróttaafrek á knattspyrnuvellinum við Suðurströnd. Meistaraflokkur Gróttu skipaður ungum leikmönnum stóð uppi sem sigurvegari í næst efstu deild og hafði þar með unnið keppnisrétt í efstu deild að ári. Það var mikil stemmning á vellinum og um tvö þúsund áhorfendur voru mættir til að horfa á leikinn og styðja liðið. Liðið gat komist upp með jafntefli við Hauka en á endanum vannst frækilegur 4:0 sigur.  Fyrir utan afrek þessa unga liðs sem hefur í allt sumar spilaði mjög skemmtilegan fótbolta verður þetta að teljast eitt mesta þjálfunarafrek seinni ára á landsvísu hjá Óskari Hrafni Þorvaldssyni og hans þjálfarateymi.

Mér varð hugsað 32 ár aftur í tímann þegar fjölskylda mín var nýflutt á Seltjarnarnes og ég dróst inn í starfsemi knattspyrnudeildar Gróttu. Synir mínir voru í fótboltanum og ég mætti á alla leiki. Kynntist þar fámennum hópi fólks sem stóð að starfsemi yngri flokkana og stórum hópi ungra stráka. Guðmundur Hannesson var formaður deildarinnar og allt í öllu og fagnaði mörkum með lúðrablæstri.  Sigurlaug Bjarnadóttir vann með honum í stjórn og síðan mér og svo voru nokkrir áhugasamir foreldrar. Það var góður hópur manna í meistaraflokki flestir fyrrverandi KR ingar. Aðstaðan var mjög takmörkuð, einn malarvöllur að vísu vel staðsettur og síðan kom grasvöllur á Valhúshæð ef völl skyldi kalla. Það var settur veghefill á hæðina og síðan tyrft. Við reyndum að gera það besta úr þessu. Við réðum góða þjálfara í yngri flokka starfið og lögðum mikið upp úr því. Mér eru minnistæðir menn eins og Lárus Grétarsson, Sverrir Herbertsson, Júlíus Júlíusson, Stefán Arnarson og Sigurður Helgason sem hugsuðu vel um þessa ungu stráka og vildu allt fyrir félagið gera.

Hlutirnir gerðust hratt, árið eftir að ég mætti á hliðarlínuna var ég kominn í stjórnina og næsta ár orðinn formaður. Hafði ekki ætlað mér það enda margt annað að gera en hreyfst með þessu starfi sem var að mörgu leyti gefandi. Sem formaður ber maður ábyrgð á allri starfseminni og verður að horfa heildstætt á málin. Mér er minnistætt samtal við Rögnvald Dofra Pétursson sem þá spilaði með meistaraflokki skömmu eftir að ég varð formaður. Hann sannfærði mig um að ef ekki væri öflugur meistaraflokkur  hjá félaginu hefðu ungu strákarnir ekkert til að keppa að og mundu fara í önnur félög. Nábýlið við KR og Val var erfitt og foreldrar jafnvel að keyra sína stráka á æfingar í þessum félögum. Ef við hefðum haft betri aðstöðu og alla fótboltastráka á Nesinu í Gróttu hefðum við verið í toppbaráttu í yngri flokkunum ár eftir ár. Það sem er eftirminnilegast eru kynnin við fjölda fólks og síðan frækilegir sigrar. Við komumst í úrslitakeppni 5. flokks 1990 í Hafnarfirði og unnum KR í 8 liða úrslitum. Það var stór stund. Eftir leikinn sagði Viðar Halldórsson við mig ”þið eruð í bullandi séns að vinna mótið”, en svo vann FH mótið ef ég man rétt.

Meistaraflokkur var kapítuli út af fyrir sig. Langstærstur hluti af stuðningi bæjarstjórnar við félagið var í formi ókeypis aðstöðu bæði innan og utan húss sem var reiknað sem styrkur. Fjármálin og reksturinn voru alfarið á herðum okkar fámenna hóps í stjórninni. Þrátt fyrir þetta var markið sett hátt og við réðum Sæbjörn Guðmundsson sem var Seltirningur og hafði gert garðinn frægan hjá KR til að vera spilandi þjálfari í meistaraflokki. Aðstoðarmaðurinn var Sverrir Herbertsson sem hafði bæði spilað með KR, Víkingi og Gróttu og var mjög snjall leikmaður og leikstjórnandi. Hafði lært ýmislegt hjá Yuri Sedov rússneskum þjálfara Víkings. Sverrir var á þeim tíma einnig að þjálfa 4. flokk. Á fyrsta ári Sæbjörns og Sverris unnum við 4. deildina, spiluðum úrslitaleik á útvelli við Víking Ólafsvík sem þá var með mjög sterkt lið, unnum 5-3 og flugum heim frá Rifi með bikarinn.  Það var ógleymanlegt. Árið eftir höfðum við aftur styrkt liðið og litlu munaði að við færum aftur upp en það tókst ekki og varð mörgum mikil vonbrigði. 

En allt tekur sinn tíma og sennilega vorum við ekki tilbúin til að takast á við stór verkefni bæði vegna aðstöðuleysis og fjárhagssjónarmiða. Þetta varð hins vegar byrjunin á umræðum um að bæta yrði verulega aðstöðu fyrir knattspyrnu á Seltjarnarnesi. Við fengum í lið með okkur Guðmund Þorbjörnsson verkfræðing og fyrrum landsliðsmann úr Val og Dýra Guðmundsson sem hafði spilað hjá FH og Val og átti strák í yngri flokkunum. Við skiluðum skýrslu um málið til bæjarstjórnar sem gekk út á að skapa aðstöðu fyrir fótboltann þar sem malarvöllurinn var við íþróttamiðstöðina. Okkar niðurstaða var að lækka ætti yfirborð vallarins um 4 metra til að skapa skjól og leggja fullkominn grasvöll með undirlagi og drenage og síðan hálfan gervigrasvöll nær íþróttamiðstöðinni til vetraræfina. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að best sé að leika knattspyrnu á náttúrulegu grasi en gervigrasið hefur þróast mikið og er nú frambærilegt sem vallaryfirborð hér á landi. Nú er kominn topp gervigrasvöllur við Íþróttamiðstöðina og áhorfendastæði og aðstaða fyrir leikmenn. Þetta skapar alveg nýja umgjörð utan um starfsemina en þarf auðvitað að bæta verulega þegar liðið er komið í efstu deild. Þeir sem hafa tekið við stjórnartaumum hafa unnið mikið starf og komið mörgu góðu til leiðar og ber þar hæst framlag Hilmars S. Sigurðsson sem var formaður knattspyrnudeildar í 16 ár. Ekki má gleyma þætti bæjarstjórnar sem hefur látið byggja boðlega vallaraðstöðu fyrir félagið og árangurinn er í samræmi við það eins og alltaf var ljóst að gæti orðið. Í heild á ég góðar endurminningar frá þessum árum en þetta var erfitt og eftir 7 ár var ég búinn að fá nóg og allir í kringum mig líka. 

Á leið minni á leikinn  laugardaginn 21. september hitti ég fyrrum samstarfskonu Örnu Einarsdóttur hjúkrunarfræðing sem á strák í liðinu. Í okkar samtali sagði hún mér nokkuð sem gladdi mig mikið að heyra “það er svo mikið hjarta í þessu félagi”. Að heyra foreldri segja þetta segir mikla sögu. Þegar komið er “mikið hjarta” í félag sem hefur eignast meistaraflokk í þessum gæðaflokki sem hefur unnist upp í gegnum yngri flokka og dregur 2000 manns á úrslitaleik er mikið unnið og framtíðin björt.  Nú er einnig  öflug kvennaknattspyrna hjá Gróttu og meistaraflokkur kvenna vann sig einnig upp um deild og er í mikilli sókn. Hlúum að þessari starfsemi sem er mikilvæg fyrir okkar yngra fólk og allt mannlífið á Seltjarnarnesi. Það er í okkar höndum.

Steinn Jónsson, læknir

You may also like...