Hefur keypt Geirsgötu 11 á um 1,7 milljarð

Gamla skipaútgerðarskemman við Geirsgötu 11.

Dótturfélag malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya Corporation hefur keypt hús við Geirsgötu 11. Kaupverð nemur alls 14 milljónum Bandaríkjadala eða um 1,7 milljarði íslenskra króna. Dótturfélagið sem ber heitið Berjaya Land Berhad keypti allt hlutafé í eignarhaldsfélaginu Geirsgötu 11 ehf. fyrir 1,4 milljónir dala og greiðir auk þess upp 12,6 milljóna dala skuld umrædds eignarhaldsfélags við Útgerðarfélag Reykjavíkur. Seljendur eru félögin Fiskitangi og Útgerðarfélag Reykjavíkur sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns og forstjóra HB Granda.

Berjaya er í eigu milljarðamæringsins Vincent Tan þess sama og á breska knattspyrnufélagið Cardiff City. Hann hefur sagt að kaupin á Geirsgötu 11 myndu gefa félaginu tækifæri til þess að hefja fjárfestingar á sviði fasteignaþróunar og  hótelstarfsemi á Íslandi. Félagið rekur hótel víða í suðausturhluta Asíu og einnig í Lundúnum. Geirsgata 11 er gömul vöruskemma sem upphaflega var byggð fyrir Skipaútgerð ríkisins en hefur lítið verið notuð frá því starfsemi hennar var hætt. Húsið komst í eigu Brim sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur og Fiskitanga fyrir nokkrum árum. Ekkert liggur fyrir um, hvorki af hálfu Faxaflóahafna eða Reykjavíkurborgar hvort leyft verði að byggja hótel eða íbúðarhúsnæði á lóðinni.

Byggingarleyfi liggja ekki fyrir

Geirsgata 11 er gömul vöruskemma, sem hefur staðið að mestu ónotuð undanfarin ár og er farin að láta á sjá. Ekki hefur legið fyrir hvort leyfi fáist til byggingar hótels á svæðinu. Á liðnu ári samþykkti stjórn Faxaflóahafna að tillögu skipulagsfulltrúa hafnarinnar að bíða með framkvæmdir og uppbyggingu á Miðbakka þar til framkvæmdum við Austurhöfn verði lokið og ljóst með hvaða hætti skipulag umferðar um Austurbakka og starfsemi á jarðhæð hússins við Austurhöfn verður en þar gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi. Þess má geta að borgaryfirvöld hafa sett kvóta á hótel í miðborginni. Gistirými mega ekki fara yfir 23% af starfsemi í Kvosinni. Enginn kvóti er þó á Geirsgötunni því það deiliskipulag nær ekki yfir hana. Hins vegar er ekkert deiliskipulag til fyrir Geirsgötu 11 sem þýðir að engar heimildir eru fyrir uppbyggingu lóðinni. Kaupandi verður að koma með tillögu sem sýnir fyrirhugaða uppbyggingu.

Verið að kaupa staðsetningu

Útgerðarfélag Reykjavíkur sem átti eignina hafði á undanförnum árum leitað eftir því að rífa húsið og byggja á lóðinni. Ekkert byggingarleyfi hefur fengist. Á liðnu ári var lögð fram tillaga að deiliskipulagi sem átti að tengja svæðið við Kvosina ásamt því að halda hafnarstarfseminni gangandi. Alls var gert ráð fyrir 27 þúsund fermetra húsnæði. Skipulagsfulltrúi tók neikvætt í tillöguna þar sem um of mikið byggingarmagn væri að ræða. Miðað við kaupferð hússins má gera ráð fyrir að þrýst verði á Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg að gefa leyfi fyrir framkvæmdum. Ljóst má vera að verið er að kaupa staðsetninguna en ekki eingöngu gamla vöruskemmu.

You may also like...