Leðurjakkaveður – togstreita á milli viðkvæmni og töffaraskapar

– segir Fríða Ísberg um nýútkomna bók sína

Fríða Ísberg.

Leðurjakkaveður nefnist nýútkomin ljóðabók eftir Fríðu Ísberg. Fríða hefur nú gefið út tvær ljóðabækur auk smásagnasafns sem hafa skipað henni á bekk með athyglisverðum höfundum. Af öðrum bókum hennar má nefna Kláða og Slitförina. Í Kláða bregður hún sér í heim smásagnahöfundarins. Þar var hún að reyna fyrir sér á nýjum vígstöðvum þar sem hún fór af lipurð á milli hugarheima einstaklinga sem klæjar undan væntingum eða kröfum samtíma síns. Í nýju bókinni Leðurjakkaveður snýr hún til baka. Á vit ljóðlistarinnar. Gauti Kristmannsson þýðandi og bókmenntarýnir Víðsjár hjá RÚV segir í umfjöllun um Leðurjakkaveður að skáldið haldi utan um þemu sín af miklu öryggi í gegnum bókina og gefi þar með ljóðræna sýn á tilveruna með því að takast á við tilvistarangist umkomuleysisins, bæði í ljósi eigin æsku og annars fólks. Vesturbæjarblaðinu lék hugur á að hitta þessa athyglisverðu konu og rithöfund. Hún býr á Reynimelnum og varð litla kaffihúsið í Bóksölu stúdenta fyrir valinu sem fundarstaður. 

En er Fríða Vesturbæingur. “Nei – og ég er nýlega komin þangað. Ég bjó á Stúdentagörðunum í tvö á og flutti síðan á Reynimelinn. Ég kann afskaplega vel við mig og finnst eiginlega að ég sé kominn heim. Þetta er umhverfi sem heillar mig. Mér finnst yndisleg að geta farið út í göngu á morgnana. Farið í sund og komið við í bakaríinu á leiðinni til baka. Þá er kominn tími til þess að fá sér kaffi og þá er ég tilbúin fyrir að takast á við verkefni dagsins.” Fríða er ættuð úr Vestmannaeyjum en fluttist þaðan með fjölskyldu sinni Lindahverfið í Kópavogi. “Þar átti ég 17 góð ár áður en ég flutti í Vesturbæinn. Þótt ég ætti gott uppeldi og væri í góðu yfirlæti í Kópavogunum þá átti þetta umhverfi akki allskosta við mig. Það vantar alla fagurfræði í byggðina sem ég skynja svo vel í Vesturbænum. Þarna var nær enginn gróður og skipulagið miðaðist einum um of við bíla. Þetta er með allt öðrum hætti í Vesturbænum.”

Togstreita á milli viðkvæmni og töffaraskapar

Hefur Fríða fengist lengi við að skrifa. “Ég hef verið að skrifa frá unglingsárunum – jafnvel bernsku. Ég las mikið sem barn og unglingur. Ég fór eiginlega að semja um leið og ég byrjaði að skrifa. Fór að bulla sögur. Og svo þróaðist þetta. Leðurjakkaveður er þriðja bókin mín. Þar er ég að fjalla um lífið og tilveruna. Ég er að fjalla um togstreituna á milli þess að vera viðkvæmur og að vera töffari. Oft er einkenni viðkvæmra að láta líta út eins og þeir séu töffarar. Leðurjakkinn getur orðið merki þeirra. Þeir vilja tjá eitthvað með honum. Eitthvað annað en er innra fyrir. Þaðan er nafnið á bókinni komið.” Fríða segir að við séum komin á öld einlægninnar.” Mér finnst það áberandi í bókum sem eru að koma út og einnig í viðtölum í fjölmiðlum. Fólk sækist eftir að tjá sig. Segja frá ósigrum ekkert síður en sigrum. Hvernig þurft hafi að takist á við allskonar tilbrigði í lífinu. Nú eru margir að koma fram sem virðast í þörf fyrir að segja frá. Oft einhverju sem flestir hefðu viljað sveipa þögn áður fyrr. Mér finnst líka áhugavert að fjalla um sársaukann þótt ég fari mínar eigin leiðir í því. Ég kem inn á hann í bókinni. Við erum á áratug þegar ýmislegt er að brjótast út eftir tímann þegar aðdragandinn að hruninu stóð yfir. Tímann þegar allir áttu að vera svo sterkir, flottir og glansandi. Fólk var að setja heilu leikritin á svið í kringum sig. Svo hrundi þessi gerviheimur.”

Í þremur hlutum en flakkar á milli

Fríða skiptir bókinni Leðurjakkaveður í þrennt. Hún kallar bókarhlutana fyrstu persónu, aðra persónu og nefnir lokahlutann einfaldlega með orðinu við. Þetta eru kaflar og höfundurinn hleypur nokkuð á milli. Notar samsvarandi tákn gegnum ljóðin og verkið í heild. Leðurjakkinn er eitt dæmi þessa aðferð. Hann kemur fyrir í nokkrum ljóðanna. Hann er tákn töffarans en einnig skrápur til varnar umhverfinu eins og Fríða lýsir tilvist hans yfir kaffibolla í Bóksölunni. En hvað er Fríða að fast við þessa dagana. “Ég er að skrifa. Er með drög að skáldsögu í smíðum. Ég veit þó ekki alveg hvenær hún kemur út. Ef til vill um næstu jól eða þá að ég bíð aðeins lengur. Að skrifa skáldsögu er öðruvísi en að skrifa ljóð. Nei – ég er er ekki komin með titil að bókinni. Titlarnir verða að vekja athygli. Þeir gegna ótrúlega mikilvægu hlutverki til þess að vekja athygli á innihaldi bóka. Þeir verða að segja ákveðna hluti án þess þó að segja of mikið. Stundum koma þeir snemma á ferlinu. Þá geta þeir bundið mann við að þróa sig áfram. Skapa ramma sem erfitt er að fara út fyrir. Hugsanlega kemur næsta bók út á næsta ári. Ég er búin að gefa út þrjár bækur á þremur árum. Ef til vill væri gott að hvíla sig í eitt ár. En hver veit,” segir þessi unga skáldkona á Reynimelnum.

You may also like...