Umfjöllun um námsmat í Grunnskóla Seltjarnarness

Námsmat í Grunnskóla Seltjarnarness var mikið í umræðunni á haustönn 2019 eftir að niðurstöður úttektar Ernu Ingibjargar Pálsdóttur á námsmatinu litu dagsins ljós. Kennsla var felld niður í Valhúsaskóla mánudaginn 2. desember en þar var ekki um mótmæli að ræða heldur þurftu kennarar tíma til að vinna úr þeim fréttaflutningi sem farið hafði af skólanum helgina áður og funda um þá stöðu sem skólinn hafði verið settur í.

Það vakti furðu skólafólks, bæði á Seltjarnarnesi og víðar, að yfirstjórn bæjarfélags skyldi taka þátt í að skapa vantraust á námsmatið og vega þannig að sínum eigin skóla. Fagfólk skólans upplifði umfjöllun pólitískra fulltrúa á Seltjarnarnesi sem mikinn áfellisdóm enda var vegið að starfsheiðri og fagmennsku kennara skólans. Námsmat í Grunnskóla Seltjarnarness hefur alla tíð verið unnið af fagmennsku, heilindum og samkvæmt fyrirmælum Menntamálastofnunar. 

Afsökunarbeiðni barst svo frá meirihluta bæjarstjórnar 3. desember eftir fund sem boðað var til af hálfu kennara og skólastjórnenda.  Fundinn sátu, auk skólafólks, fræðslustjóra og fulltrúa úr bæjarstjórn, formaður Skólastjórafélags Íslands og formaður Félags grunnskólakennara. 

Staðreyndir varðandi námsmatið

Í úttekt Ernu Ingibjargar Pálsdóttur á námsmati GS og í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að nemandi sem fær einkunnina B er búinn að ná öllum þeim hæfniviðmiðum sem til er ætlast og allt umfram það er á færi fárra nemenda.  Sá orðrómur hefur gjarnan verið uppi á Seltjarnarnesi að á Nesinu sé erfiðara að fá góðar einkunnir en annars staðar þó flestir nemendur GS innritist í þá framhaldsskóla sem þeir óska sér. Til að gefa einhverja mynd af stöðunni þá voru niðurstöður voreinkunna í þremur námsgreinum sem hér segir árið 2019:

80% nemenda voru með B og yfir í íslensku, stærðfræði og ensku og yfir 35% nemenda fengu B+ og A í sömu námsgreinum.

 Þessar niðurstöður gefa það engan veginn til kynna að nemendur í GS sitji ekki við sama borð og aðrir nemendur í landinu þegar kemur að því að skrá sig í framhaldsskóla, nema síður sé.  Ef það væri ekki upplifun starfsfólks skólans að nemendur standi sig vel á samræmdum prófum og ef starfsfólk fengi ekki fjölda heimsókna á hverju ári frá útskrifuðum nemendum sem tala um hve vel þeim gangi í framhaldsskólanum sínum þyrfti að skoða þessar tölur. Niðurstöðurnar sýna í raun að nemendur hér eru hærri en gera mætti ráð fyrir þ.e. ef horft er til þess að það sé á færi fárra nemenda að fá B+ og A. Tölurnar hér að ofan benda til þess að þeir nemendur sem vinna vel njóti árangurs erfiðis síns. Þess ber að geta að þó hér sé vísað í samanburð á  samræmdum prófum og námsmati skólans þá eru þessar einkunnir í raun alls ekki samanburðarhæfar en gefa þó einhverja vísbendingu.  Annars vegar er verið að vísa í raðeinkunn (samræmda prófið) og hins vegar hæfnieinkunn (skólaeinkunnin).

Lýsing á því ferli sem fór í gang í júní 2019

Foreldrafélag GS sendi skólanefnd bréf, dagsett 12.06.2019, þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við skólastarfið og óskað eftir svörum. Því bréfi var svarað 26.06.2019. Þetta bréf var sent skólanefnd fyrir hönd foreldra útskriftarárgangs 2019 en fram kom á haustönn 2019 að það eru a.m.k. allnokkrir foreldrar í umræddum árgangi sem vissu ekki af tilurð bréfsins. Fram hefur komið að skólastjóri hafi beðist afsökunar á „ákveðnum atriðum“ í svörum sínum við umræddu bréfi en sú afsökunarbeiðni sneri ekki að námsmati, enda ekki ástæða til, heldur baðst skólastjóri afsökunar á því að hafa ekki auglýst nógu vel að kennarar, allir nema þrír, ásamt námsráðgjafa væru staddir í Valhúsaskóla 7.-12. júní og að ekki hafi verið gengið nógu vel frá símsvörun og því hvenær skólinn ætti að standa opinn þessa sömu daga. 

Í kjölfar þess umróts sem skapaðist vegna óánægju með námsmat 10. bekkinga vorið 2019 var kvartað undan námsmati GS til ráðuneytis og í kjölfar þess fór ráðuneytið fram á að gerð yrði úttekt á námsmati skólans.  Þessu fögnuðu stjórnendur GS mjög enda höfðu þeir þá þegar haft samband við ráðuneytið  til að athuga hvort skólinn gæti sjálfur kallað eftir úttekt á námsmatinu því ljóst var að skólinn naut ekki fulls trausts.  Svör ráðuneytis voru að skólinn gæti ekki kallað sjálfur eftir slíkri úttekt heldur yrðu foreldrar að kæra námsmatið.  Það er athyglisvert að ráðuneytið er ekki með neina aðila á sínum snærum til að gera slíka úttekt heldur þurfti fræðslustjóri Seltjarnarness að finna óháðan aðila til að gera úttektina. Það er svo sem í þeim anda sem skólafólk hefur upplifað þegar leitað er eftir svörum frá Menntamálastofnun varðandi ýmis mál tengd námsmatinu – skólafólk fær ekki svör við spurningum sínum varðandi hinn mjög svo óljósa kafla í aðalnámskránni sem fjallar um námsmat. 

Þróunarvinna sem unnið er að varðandi námsmat skólans

Námsmat í GS hefur verið  að fullu innleitt en á hverju hausti eru kennsluáætlanir skólans uppfærðar og þá er námsmatið einnig uppfært enda er það hluti af kennsluáætlunum.  Kennsluáætlanir og námsmat verða aldrei fullmótaðar frekar en annað í skólastarfi – skóli er og á að vera í stöðugri þróun.  Í kjölfar uppfærslu kennsluáætlana/skólanámskrár ár hvert eru haldnar skólakynningar fyrir foreldra og kennsluáætlanir birtar á Mentor. Nú hefur það aftur verið tekið upp að setja kennsluáætlanir einnig inn á heimasíðu skólans.

Niðurstöður úttektar Ernu Ingibjargar bárust skólanum í lok nóvember en þá höfðu kennarar  og stjórnendur verið að kortleggja og endurvinna það sem betur mátti fara í námsmatsvinnu innan skólans frá því síðastliðið vor.  Þær breytingar sem lagt hefur verið í lúta að eftirfarandi: 

    Gera námsmatið gegnsærra því skólafólk áttaði sig á því að einhverjir nemendur og foreldrar virtust eiga erfitt með að lesa út úr upplýsingum hæfnikortanna. 

    Í einhverjum tilfellum vantaði einnig upp á samræmingu námsmats milli skólastiga og milli einstakra námsgreina og unnið hefur verið að því að samræma námsmat eins og kostur er. Samræmi innan hverrar námsgreinar var til staðar enda er námsmat samvinnuverkefni kennara sem kenna sömu námsgreinar en ekki geðþóttaákvörðun hvers og eins. 

    Tekin verður aftur upp fyrri hefð sem felst í því að nemendur fái samantekt námsmats eftir áramót en skólaárið 2018/2019 var eina árið sem nemendur fengu ekki miðsvetrareinkunn. Það helgaðist af því að hæfnikortin voru talin það gegnsæ að þau ættu að sýna nógu vel stöðu nemenda.

    Gefnir verða bókstafir í stað hæfnitákna

    Gefnir verða bókstafir fyrir einstök hæfni-viðmið eins og gert var síðasta skólaár en jafnframt fyrir einstök verkefni sem tengd eru hæfniviðmiðunum

    Gerð hefur verið grein fyrir mismunandi vægi einstakra hæfniviðmiða / verkefna í kennsluáætlunum þó ekki sé kveðið á um að slíkt sé gert skv. aðalnámskrá.  Þarna, sem og í öðru, telur skólinn sig vera að koma til móts við ábendingar sem komu fram sl. vor.

  Eins og gerist á hverju ári voru kennslu-áætlanir endurskoðaðar haustið 2019 og farið yfir þau hæfniviðmið sem lögð verða til grundvallar skólaárið 2019/2020.

Engar þær breytingar sem hér eru nefndar hefðu haft áhrif á einkunnagjöfina sjálfa sl. ár en það er von skólafólks að þessar breytingar geri nemendum og foreldrum auðveldara fyrir að hafa yfirsýn yfir stöðuna hverju sinni. 

Svar E.I.P við þeim viðbrögðum sem niðurstöður greinagerðar hennar ollu

Í svari Ernu Ingibjargar við þeim viðbrögðum sem greinagerðin olli meðal stjórnmálamanna bæjarins kemur fram að greinagerðin er hugsuð sem ábendingar til foreldra og skólans – ábendingar um nálgun og leiðir.  Að sögn Ernu Ingibjargar er ekki hægt að túlka ábendingarnar sem staðreyndir um að ekkert í skólastarfinu hafi verið byggt á þeim þáttum sem nefndir eru.  Einnig bendir Erna Ingibjörg á að kennarar hafi faglega þekkingu á námsmati og nálgun þeirra á einkunnagjöf geti verið misjöfn.  Það fer allt eftir áherslum hverrar námsgreinar og kennslu ásamt áherslum hvers skóla fyrir sig.

Stjórnendur og kennarar 

Grunnskóla Seltjarnarness

You may also like...