Samið við Skólamat

Samningurinn undirritaður.  Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Axel Jónsson eigandi Skólamatar skrifa undir samninginn. Að baki þeirra er Fanney Axelsdóttir mannauðsstjóri og Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamatar.

Í vetur var boðin út framleiðsla og framreiðsla matar fyrir leik- og grunnskóla sem og fyrir bæjarskrifstofur Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2020 til 2023. Seltjarnarnesbær samdi síðan við Skólamat ehf. Fyrirtækið mun ennfremur sjá um samantekt að máltíð lokinni í skólunum. Þrír aðilar tóku þátt í útboðinu og samþykkti bæjarstjórn á fundi sínum í vor að ganga til samninga við Skólamat ehf. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Axel Jónsson eigandi Skólamatar ehf. skrifuðu undir samstarfssamning þess efnis þann 28. maí sl. Við mat á tilboði var horft til verðs og reynslu rekstraraðila að sambærilegum verkefnum. Tilboð Skólamatar ehf. kom best út þegar tekið var tillit til verðs, gæða og reynslu. Samningurinn er til þriggja ára með möguleika á að framlengja tvisvar sinnum um eitt ár eða að hámarki til fimm ára.

Skólamatur ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á hollum og ferskum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum. Fyrirtækið hefur yfir tuttugu ára reynslu í því að þjónusta börn á leik- og grunnskólaaldri. Á hverjum degi er maturinn undirbúinn í framleiðslueldhúsi Skólamatar í Reykjanesbæ. Þaðan er maturinn sendur beint í eldhús skólanna þar sem starfsfólk Skólamatar sé um að elda matinn rétt áður en að matartíma kemur sem tryggir ferskleika máltíða. Daglega er boðið upp á aðalrétt ásamt hliðarrétti sem eru alltaf vegan. Með öllum máltíðum er boðið upp á ferskt grænmeti og úrval ávaxta í meðlætisbar.

Í samstarfi við næringarfræðinga

Matseðlar Skólamatar eru unnir í samstarfi við næringarfræðinga sem tryggir að maturinn sé samkvæmt ráðleggingum Landlæknisembættisins um næringu barna. Á heimasíðu Skólamatar https://www.skolamatur.is/ (Opnast í nýjum vafraglugga) má nálgast upplýsingar um matseðla ásamt næringarinnihaldi og innihaldslýsingum á öllum réttum. Skólamatur mun kynna betur þjónustu sína þegar nær dregur skólasetningu í haust. Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar, segir að það sé afar ánægjulegt að fá tækifæri til þess að þjónusta íbúa Seltjarnarnesbæjar og hlakkar til samstarfsins.

Að sögn Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra kveðst hún þess fullviss að fyrirtækið muni standa undir þeim væntingum sem sveitarfélagið gerir heilt yfir til þjónustu, gæða og fjölbreytni máltíða. Seltjarnarnesbær hefur verið heilsueflandi samfélag frá því að gengið var til samninga við Embætti Landlæknis í október 2018. Frá þeim tímapunkti hefur verið unnið markvisst að því að framkvæma og þróa ný verkefni í samstarfi við viðeigandi aðila.

„Seltjarnarnesbær lítur á það sem eitt af hlutverkum sínum að tryggja heilsusamlega næringu í skólum sveitarfélagsins hér eftir sem hingað til. Áfram verður stuðlað að hollu mataræði og heilbrigðum matarvenjum” segir Ásgerður.

You may also like...