Forréttindi að búa í Breiðholti

– Sigurjón Arnórsson aðstoðarmaður Ingu Sæland alþingismanns –

Þessi mynd var tekin þegar Christina og ég fórum á okkar fyrsta stefnumót á Íslandi.

Sigurjón Arnórsson aðstoðarmaður Ingu Sæland alþingismanns á fjölbreyttan feril að baki. Hann er fæddur í Reykjavík en var fluttur tveggja vikna gamall til Belgíu þar sem foreldrar hans voru búsett. Hann var á fjórða ári þegar fjölskyldan fluttist aftur til Íslands en dvaldi þó aðeins um hríð. Leið hennar lá síðan til Maryland í Bandaríkjunum þar sem hún var búsett þar til Sigurjón var 14 ára. Eftir það átti hann heimili í Breiðholtinu en býr sem stendur í Kópavogi ásamt bandaríksættaðri konu og ungum syni. Sigurjón fór að taka þátt í stjórnmálum í Breiðholti. Hann var í stjórn Félags sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi og tók einnig þátt í prófkjöri fyrir flokkinn og var kosningastjóri. Síðan lá leiðin yfir til Viðreisnar en sérstakir atburðir í lífi hans urðu til þess að hann fór að spyrja sig ýmissa spurninga um lífið og samfélagið. Þetta leiddi hann á fund Ingu Sæland. Sigurjón spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

“Ég er fæddur í Reykjavík en var aðeins tveggja vikna þegar ég ferðaðist í burðarrúmi til Brussel. Foreldrar mínir voru þá búsett þar en móðir mín vildi fæða hér á landi. Því kom hún heim en fór strax utan með mig að fæðingunni lokinni. Ég var aðeins tveggja vikna gamall. Þau fluttu svo heim þegar ég var þriggja ára. Dvölin heima var þó ekki til lengdar því leið okkar lá til Maryland í Bandaríkjunum. Fjölskyldan flutti aftur til Brussel í nokkur ár eftir dvöl okkar í Maryland, þar sem pabbi starfaði sem fulltrúi Íslands í NATO.” Sigurjón segist því ekki hafa átt mikla æsku á Íslandi. Komin á unglingsár og ekki nógu góður í íslensku eftir að hafa búið í ensku málumhverfi nær alla ævi. “Ég var aðeins á undan í skóla og fór beint í Menntaskólann við Hamrahlíð þegar við komum heim. Ég fór í alþjóðadeildina. Ég var farinn að missa íslenskuna aðeins eftir að hafa farið í gegnum grunnskólakerfi á ensku. Ég taldi mér þetta fyrir bestu en ég myndi líka getað tekið mig á í móðurmálinu. Eftir námið í Hamrahlíðinni lá leiðin í Háskólann á Bifröst til náms í hagfræði. Ég bjó á Bifröst þann tíma sem ég stundaði námið þar. Ég er af síðustu árgöngunum sem bjó alfarið á staðnum vegna þess að skólinn var þá farinn að innleiða og þróa fjarnám sem er orðið eitt aðalatriðið í starfi hans í dag. Á þessum tíma var erfitt að fá húsnæði á staðnum en er orðið breytt í dag. Nú er hótelrekstur og fleira þar sem áður voru námsmannaíbúðir. Mér líkaði vel að búa á staðnum. Pabbi var sendur í sveit þegar hann var krakki. Þarna náði ég að upplifa það sama að ýmsu leyti. Meira að segja voru haldin sveitaböll. Gott að vera í sveitinni. Þetta er fallegt umhverfi og þarna fékk að upplifa Bifrastarstemninguna eins og hún var. Á Bifröst lauk ég gráðu í HHS, sem er blanda af heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Ég lauk síðan meistaranámi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Íslensku útrásarvíkingarnir voru kallaðir “cowboys” í Lúxemborg

Þá voru þið flutt í Breiðholtið. “Foreldrar mínir fluttu í Breiðholtið eftir heimkomuna frá Banda-ríkjunum. Ef ég tel frávikið á Bifröst ekki með þá bjó ég þar. Lít á mig að miklu leyti sem Breiðhylting þótt viðkoman hafi verið víðar. Eftir að ég lauk MS náminu við Háskólann í Reykjavík fór ég að leita mér að vinnu. Einhverri alvöru vinnu fyrir utan að slá gras og fleira þess háttar sem ég hafði gripið til á námsárunum. Mig langaði til þess að starfa við eitthvað sem ég hafði verið að læra og fór að horfa til atvinnumöguleika á þeim vettvangi. Það lenti með að ég fór til starfa við JP Morgan bankann í Lúxemborg. Þetta var eftir hrunið og ég var fyrsti Íslendingurinn sem kom til starfa eftir það. Ég tók eftir því að horft var á mig sem mér fannst furðulegt. En svo komu skýringarnar. Íslendingarnir sem voru kallaðir „cowboys“ í Lúxemborg störfuðu í Luxembourg City fyrir íslenska banka – banka útrásarvíkinganna. Starfsfólkið horfði upp á þá koma til Luxemborgar fyrir hönd íslensku bankanna, kaupa dýrustu húsin og keyra um á flottustu bílunum. Svo fór allt á hausinn hjá þeim og þeir hurfu eins fljótt og þeir komu. Margir höfðu áhyggjur þegar þeir sáu mig, að einn af þessum Íslendingum væri kominn til starfa innan raða JP Morgan. Ég sé ekki fyrir mér að starfsmenn JP Morgan myndu stunda sömu ævintýramennsku og íslensku bankarnir gerðu. JP Morgan er mjög gamall og íhaldssamur banki.”

Mín reynsla er aftur á móti að þetta var ekkert sérstaklega spennandi. Ég sat á bak við skrifborð. Starf mitt var einkum fólgið í að fylgjast með sjóðum sem voru í stýringu hjá bankanum. Þetta voru stórir sjóðir á okkar mælikvarða og oft um háar tölur að ræða. Starfsemin var meðal annars fólgin í því að senda ákveðnar upplýsingar á milli landa. Til dæmis á milli Lúxemborgar, Manilla og Mumbay. Við bárum ábyrgð á að allt væri gert rétt. Oft þurftum við sem unnum við þetta að vera fljótir til starfa. Fengum stundum ekki nema eitt korter til þess að fara yfir stafla af tölum og finna út hvort allt stemmdi eða ekki. Og þá var eins gott að ýta á réttan takka að yfirferð lokinni því oft var um engar smáupphæðir að ræða. Ég fékk ágæta reynslu af að starfa í þessum heimi en ílengdist ekki þarna.”  

Ævintýri breytti heimsýn minni

Sigurjón er búinn að starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, er einn af stofnendum Viðreisnar og fyrsti launaði starfsmaður flokksins. Nú starfar hann fyrir Flokk fólksins. Hvað var til að hann flutti sig til í pólitíkinni. “Það er saga að segja frá því. Ég lenti í ævintýri sem breytti heimssýn minni. Þannig er að ég kynntist konu frá Suður Californíu. Við kynntumst þegar hún kom til Íslands á námskeið sem haldið var hjá Háskólanum í Reykjavík. Þegar námskeiðinu lauk fór hún aftur til Bandaríkjanna, þar sem við héldum sambandinu gangandi í gegnum netið. Svo kom hún aftur til Íslands og ævintýrið okkar hófst fyrir alvöru. Það reyndist erfitt að fá leyfi fyrir hana að dvelja hér á landi þar sem við vorum ekki gift. Við fengum lögmann til þess að vinna fyrir okkur þannig að hún fengi leyfi til þess að koma. Hann sagði okkur að vera rólegum og taldi líkur til þess að hún fengi að vera hér áfram. Svo gerist það að hún hringdi í Útlendingastofnun og fékk þau svör að hún hefði einn sólarhring til þess að hverfa frá landinu og ekki aðeins Íslandi heldur öllu Schengensvæðinu. Ef hún gerði það ekki gæti hún fengið margra ára bann við að koma aftur inn á svæðið. Þetta var bein hótun og fátt við henni að gera annað en að koma sér í burtu. Við keyptum næstu flugmiða til Californíu og pökkuðum því allra helsta niður í tvær litlar töskur. Christina er af mexíkóskum ættum. Er af annarri kynslóð innflytjenda frá Mexíkó. Hún er af fátæku fólki og þar kynntist ég fátækt í fyrsta sinn á ævinni. Þegar við komum út veitti ég athygli að margt fólk bjó í sama húsi. Ég fór að heilsa upp á fólkið. Hélt að þetta væri fjölskylda hennar. Ég áttaði mig síðan á að fólk bjó saman í húsum þótt það væri ekki allt fjölskyldutengt. Ég var að heilsa upp á alla nágrannana. Við vorum ekki með mikla peninga en keyptum okkur fjölskyldubíl sem við rifum sætin úr. Svo keyptum við dýnur og svefnpoka í Walmart og bjuggum í bílnum um tíma. Þetta gengur upp í Suður Kaliforníu þar sem er stöðugur sumarhiti. Þessi dvöl okkar á heimaslóðum hennar endaði með því að við giftum okkar. Og nú eignum við fjögurra mánaða gamlan strák sem heitir Arnór Sigurjónsson eftir afa sínum. Þessi lífsreynsla. Að sjá hvernig fólk lifir í þessu umhverfi breytti mér. Ég fór að hugsa á annan hátt. Mannlífið er flóknara en ég hafði gert mér grein fyrir. Þarna tók ég ákvörðun um að hætta í stjórnmálum. Þegar við komum hingað heim fór ég að horfa í kringum mig. Kanna hvað hafði gerst á meðan við vorum í burtu. Þá tók ég eftir Ingu Sæland og flokknum sem hún var búinn að stofna. Þetta vakti áhuga minn og ég setti mig í samband við hana. Við forum að spjalla saman og það lenti með því að ég fór að vinna fyrir hana.”

Breiðholtið sérstakur en vanmetinn staður 

Víkjum aðeins að Breiðholtinu. „Eftir að hafa ferðast mikið og búið bæði á Austur- og vesturströnd Bandaríkjanna einnig í Brussel og í Lúxemborg þá tel ég Breiðholtið vera sérstakan og oft vanmetinn stað. Ég fékk fjölmenningu í arf af uppeldi í Breiðholti. Breiðholt var leiðandi í þeirri vinnu að taka á móti og starfa með fólki af öðrum þjóðum sem flutti hingað. Skólarnir voru framarlega í þessari vinnu og mér finnst sérstaklega gaman að hvað Fellaskóli kom af miklum krafti að þessu verkefni. Ég tala oft um Breiðholt sem New York Íslands. New York hefur oft verið kölluð „the melting pot Ameríka“ eða fjölmenningarsamruni Ameríku. Rétt eins og New York þar sem margir menningarheimar búa saman hefur Breiðholtið verið fjölmenningarborg Íslands. Ég átti í eitt ár sæti í starfshóp á vegum Reykjavíkurborgar sem sá um stefnumótun um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf. Á þeim tíma voru skólar í Breiðholti og sérstaklega Fellaskjóli leiðandi í þeirri vinnu. Ég tel að Breiðholtið hafi margt til að bera og fram að færa við mótun þess samfélags sem hér hefur myndast. Samfélag fjölmenningar. Ég get bent á fleira sem líkir Breiðholtinu við New York. Breiðholtið á sinn Central Park sem er Eilliðaárdalurinn. Að mínu mati er dalurinn fallegasta útivistarsvæði í Reykjavík. Fyrst eftir að konan mín sem er ættuð frá suður Kaliforníu flutti hingað bjuggum við í mínu gamla hverfi sem er Breiðholtið. Hún átti erfitt með að venjast löngum og sólarlausum vetrardögum enda vön öðru. En það gladdi hana alltaf þegar við fórum ævintýraferðir um Elliðaárdaginn. Mér finnst að Elliðaárdalurinn ætti að vera friðaður rétt eins Central Park. Mér finnst óþolandi hvernig borgaryfirvöld vilja ganga á þetta græna svæði. Dæmi um það má nefna umdeilt deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn 2019 sem var samþykkt þrátt fyrir fjölda athugasemda og mótmæla – meðal annars frá Umhverfisstofnun. Samkvæmt skipulagi er opnað á að byggja stórt mannvikri í dalnum eða næsta nágrenni við hann. Ég fæ ekki séð hvernig rekstrarumhverfi þjónustufyrirtækis sem þar er gert ráð fyrir að geti risið muni verða til. Alla vega ekki nema með mikilli utanaðkomandi umferð og raski. Ég tel að varlega verði að fara að byggja í dalnum umfram sem þar er. En til að fullkomna samlíkingu Breiðholtsins við New York þá þyrfti bara að flytja Kauphöll Íslands í Mjóddina og búa þannig til lítið íslenskt Wall street í Breiðholtinu.“

Forréttindi að búa í Breiðholti

„En af því við erum að tala um Elliðárdalinn þarf ég að nefna annað umdeilt mál,“ segir Sigurjón. „Það eru kanínurnar. Allt frá því í æsku hef ég haft mikla gleði af því að heimsækja kanínurnar, endurnar og gæsirnar sem margar hverjar sækja í svæðið kringum Skálará við Vesturlandsveg. Eða kanínuhúsið með fjólubláa þakinu eins og það er oft kallað í Breiðholtinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur talað um að skera upp herör gegn þessum kanínum þar sem þær éta fóður og hlaupa út á Breiðholtsbrautina. Þótt þetta sé að sjálfsögðu skynsamlegt íhugunarefni þá vil ég spyrja Reykjavíkurborg hvar annars staðar í borginni sé hægt að umgangast frjáls dýr. Mér hefur alltaf fundið það vera forréttindi að hafa þennan möguleika í Breiðholtinu. Ef farið verðu út í að reisa stór mannvirki á þessu svæði eins og umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar vil gera myndi það eyða mýrinni sem er undirstaða fuglalífs á svæðinu. Mér finnst þetta sorglegt. Þessi þróun minnir mig á baráttuna við að vernda lífríki Reykjavíkurtjarnar sem lengi var til umræðu í borginni. Mér finnst núverandi stjórn Reykjavíkurborgar ekki eins umhverfissinnuð og hún vil vera láta. Ef ég á að horfa til annarrar áttar í Breiðholtinu þá þykir mér vænt um græna svæðið fyrir neðan Ölduselsskóla. Þar eru flottar og víðar gangbrautir, litlir lækir og leiksvæði fyrir börn. Ólíkt New York er gott pláss fyrir fjölskyldubíla í Breiðholti. Það er líka hægt að stunda hestamennsku í Elliðaárdal og í Víðidal. Þótt ég búi ekki í Breiðholti sem stendur eru mikil forréttindi að búa þar.“

You may also like...