Hjólakraftur sinnir stuðningsþjónustu í sumar

Gengið frá samningi velferðarsviðs og Hjólakrafts. Þorvaldur Daníelsson stofnandi Hjólakrafts er til hægri á myndinni.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Hjólakraftur hafa gert með sér samning um þjónustu við Keðjuna í sumar. Keðjan veitir stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Reykjavík. Samningurinn er byggður á styrk frá velferðarráði Reykjavíkurborgar en samið er um heilsueflandi hópastarf fyrir reykvísk börn og ungmenni í aðstöðu Hjólakrafts í Völvufelli í Efra-Breiðholti.

Starfsmaður Hjólakrafts mun starfa á sumarnámskeiðum ásamt starfsmönnum Keðjunnar í húsnæði Hjólakrafts, Brúnni og Leikvangi. Þar verða haldin sumarnámskeið á vegum Keðjunnar með það að markmiði að efla félagsþroska og bjóða upp á heilsueflandi hópastarf, bæði inni og úti, fyrir börn og ungmenni.

Í Brúnni er leikjatölvuherbergi, saumastofa, listastofa, setustofur og spilaherbergi með stóru borði auk tveggja háalofta. Í Leikvangi er aðstaða með klifurvegg, köðlum, kaðalstigum, þythokkí, borðtennis og fleiru. Auk aðstöðunnar er áhersla á útiveru, menningartengda viðburði og hreyfingu. Haldin verða sex þriggja vikna námskeið í sumar og er markmið þeirra að sporna gegn félagslegri einangrun, hreyfingarleysi og brotinni sjálfsmynd barnanna.

You may also like...