Ákveðið að byggja við MR

Gamla skólahús Menntaskólans í Reykjavík.

Ákveðið hefur verið að byggja 2.600 fermetra viðbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík. Skólinn er nú með starfsemi sína í tíu húsum á svokölluðum Menntaskólareit sem afmarkast af Þingholtsstræti að Lækjargötu og Amtmannsstíg að Bókhlöðustíg. Til að rýma til fyrir nýja húsinu verður nýrri hluti hússins Casa Cristi rifinn, en það er friðað að hluta. Fyrir aldarfjórðungi var haldin samkeppni um nýja byggingu við skólann en það hús var aldrei byggt. 

Hluti húsnæðisins hentar illa nútíma kennsluháttum. Það stenst ekki kröfur um aðgengi. Með nýbyggingunni er auk þess að rýmka um húsnæði ætlað að uppfylla skilyrði laga eins og til dæmis í sambandi við að hafa mötuneyti fyrir nemendur. Sal til þess að geta kallað nemendur saman og færanlegar kennslustofur auk þess að gera stjórnun skólans aðgengilegri en hún er núna í risinu í Gamla skóla. Elísabet Zimsen rektor segir að þetta sé stór áfangi í langri sögu skólans. Lengi hafi staðið til að byggja við hann. Einhvern veginn hafa menn alltaf heykst á því að fara í þessar framkvæmdir. Það sé að vissu leyti skiljanlegt því skólinn sé á viðkvæmu svæði.

You may also like...