Mikil samkennd á Nesinu

– Viðtal við Margréti Jónsdóttur –

Margrét Jónsdóttir og Guðjón Margeirsson ásamt börnum sínum. Þau eru Árni, Daði, Kristín Laufey, Þorsteinn og Ragnheiður.  Alls eiga þau tólf barnabörn. 

Margrét Jónsdóttir fótaaðgerðafræðingur og lyfjatæknir spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Margrét bjó og starfaði á Nesinu um árabil. Hún stofnaði og starfrækti Fótaaðgerðastofu Seltjarnarness ásamt Ragnheiði dóttur sinni árið 1999. Fyrstu 6 árin var hún  í sundlaugarhúsinu við Suðurströnd en þegar húsnæðinu var breytt  fluttu þær stofuna á Austurströnd 8. Þær seldu Sigurbjörgu H. Guðjóns­dóttur fótaað­gerðafræðingi stofuna 2018 og rekur hún hana í dag. Margrét er Skagamaður. Dóttir Ragnheiðar Þórðardóttur og Jóns Árnasonar sem var alþingismaður Vesturlands um árabil.

“Ég er Skagamaður en að hluta alin upp í Reykjavík. Pabbi settist á þing 1959. Þá voru samgöngur ekki eins greiðar og nú. Engin Hvalfjarðargöng og leiðin fyrir Hvalfjörð þótti ekki greiðfarin. Vegurinn var hlykkjóttur og seinfarinn. Akraborgin var um klukku­tíma að sigla á milli Akraness og Reykjavíkur. Oft í veltingi í vestanáttinni sem er algeng á þessum slóðum. Á þessum tíma var útilokað að búa á Skaganum og vinna í Reykjavík. Því fluttum við fjölskyldan til Reykjavíkur á haustin og til baka upp á Skaga á vorin þar sem við systur vorum að vinna í fiski. Tími flutninganna miðaðist þó ekki alveg við starfstíma Alþingis heldur við skólagöngu okkar. Við urðum að vera komnar suður þegar skólinn byrjaði. Ég var að komast á táningsárin og fór beint í þriðja og fjórða bekk í Kvennaskólanum. Ég fór síðan til London þar sem ég bjó eitt ár í Chelsea. Ég gifti mig 1964 og flutti þá alfarin frá Akranesi. Maðurinn minn er Vesturbæingur, Guðjón Margeirsson. Við eigum fimm börn og bjuggum fyrstu sex árin á Ljósvallagötunni og síðar við Kaplaskjólsveg, í blokkinni sem er rauð og var eitt sinn kennd við KR. Við vorum alltaf að fikra okkur lengra til vesturs því þaðan fórum við út á Seltjarnarnes og bjuggum lengi við Lindarbrautina. Nú erum við nýlega flutt aðeins til baka. Á Grandaveginn þar sem við kunnum ágætlega við okkur.”

Nýttum tækifærið og opnuðum fótaaðgerðarstofu

En snúum okkar að fóta­aðgerðunum. Margrét segist hafa verið búin að vinna við þær í áratugi hjá þjónustustofnunum Reykjavíkurborgar í Furugerði og við Vesturgötu. “Fyrir um 20 árum tók Ragnheiður dóttir mín sig upp. Fór til Noregs þar sem hún lærði fótaaðgerðir. Þegar hún kom heim sáum við tækifæri til þess að slá okkur saman og opna stofu. Við opnuðum á Nesinu í sundlaugarhúsinu en þegar því var breytt festum við kaup á húsnæði við Austurströnd 8. Þar hafði verði pizzastaður og við innréttuðum plássið að þörfum fótaaðgerðastofunnar. Þar störfuðum við saman um árabil en nú þegar ég varð 75 ára þá fannst mér nóg komið. Þetta átti sér þó nokkurn aðdraganda. Dóttir mín var slæm í baki og varð að hætta að starfa í faginu fyrir nokkrum árum. Við áttum viðskiptavini víða að. Ekki bara af Nesinu, Vesturbænum eða höfuðborgarsvæðinu. Jafnvel bar við að fólk ofan af Skaga, norðan frá Akureyri austan af fjörðum og víðar kæmi. Um það bil sem dóttir mín varð frá að hverfa kom til mín nýútskrifaður fótaaðgerðafræðingur, Sigurbjörg Hulda, sem var að leita sér að sumarvinnu. Hún fór að vinna hjá mér og er nú búin að kaupa fótaaðgerðarstofuna af okkur. Ég var mjög lánsöm og hafa Seltirningar tekið henni vel. Við áttum mjög góða samvinnu og vann ég hjá henni síðasta eina og hálfa árið eftir að hún tók við rekstrinum”

Fótaaðgerðir annað en fótsnyrtingar

Margrét sagði ekki skilið við Skagann að fullu. “Þegar dvalar­heimilið Höfði var byggt á Akranesi var enginn fótaaðgerðafræðingur til að starfa þar. Forsvarsmönnum þar var ljóst að bjóða þyrfti upp á fótaaðgerðir því fáum er nauðsynlegra að eiga kost á slíkri þjónustu en eldra fólki. Leitað var til mín um hvort ég gæti komið og sinnt þessu verkefni fyrir heimilið. Þannig fór að ég fór einu sinni í mánuði upp eftir og vann að fótaaðgerðum stundum nokkra daga í senn eftir því hversu mikið var að gera.” Margrét segir að fólk ruglist stundum á fótsnyrtingu og fótaaðgerðum. “Fótsnyrting er eins og nafnið bendir til aðeins snyrting til fegrunar og fer jafnan fram á snyrtistofum líkt og önnur snyrtimeðferð. Fótaaðgerðir eru heilbrigðisfag þar sem fótaaðgerðafræðingurinn sér um að sinna ýmsum fótameinum. Fótaaðgerð flokkast því undir heilbrigðisþjónustu.”

Lyfjatæknir í Vesturbæjarapóteki

Margrét er ekki við eina fjöl felld ef svo má segja. Auk þess að hafa lært fótaðgerðarfæði og starfað við það meira og minna allan sinn starfsaldur þá lærði hún einnig lyfjatækni og starfaði í apóteki um tíma. “Ég starfaði um árabil sem lyfjatæknir í Vesturbæjarapóteki hjá Birgi Einarssyni. Hann var mikill öðlingur og góður vinnuveitandi. Þetta var mjög góður tími og ég var ánægð að starfa þar. En þetta var dálítið bindandi. Ég hafði sett fótaaðgerðirnar á ís meðan ég starfaði þar en sá tími kom að ég fór að huga að þeim að nýju. Ég hætti í apótekinu eftir nokkurra ára starf og fór að sinna fótaaðgerðunum alfarið til að geta unnið sjálfstætt. Ég hafði sinnt hvoru tveggja í hlutastarfi um tíma. Þá áttum við orðið fimm börn og það hentaði betur að ráða vinnutíma sínum”

Fólk getur koðnað niður

Margrét segir að fótaaðgerðir séu gefandi og þakklátt starf. Verið sé að vinna í mikilli nánd við viðskiptavininn. “Þess vegna held ég að maður verði að vera orðinn talsvert þroskaður til að fara í þetta starf. Það hefur mikið að segja að líða vel í fótunum. Þetta á ekki síst við um eldra fólk. Hætta á að fótamein myndist vex með aldrinum. Oft ber ekki á fótameinum utan frá. Þau eru ekki sýnileg. Fæturnir eru svo vel faldir í sokkum. Eitt af því sem leitt getur af fótameinum er hætta á að fólk missi jafnvægi og detti þegar það finnur til sársauka. Ef fólk á erfitt með gang og veigrar sér við að hreyfa sig reglulega hrörnar það fyrr. Fólk getur koðnað niður.” Margrét segir að fleira fólk á öllum aldri og báðum kynjum notfæri sér þessa þjónusta en var. “Flestum finnst sjálfsagt að fara á fótaaðgerðarstofu. Það hefur líka margt breyst í faginu á þeim 40 árum sem ég starfaði við það. Ég sinnti formennsku í Félagi fótaaðgerðafræðinga um tíma og var einnig fulltrúi og í stjórn hjá Alþjóðasamtökum fóta­aðgerðafræðinga. Þannig kynntist maður því sem var að gerast og fékk að vita að ýmsum nýjungum. Margt hefur breyst í faginu á þeim tíma sem ég hef starfað við fótaaðgerðir. Það er í stöðugri þróun maður lærir svo lengi sem maður stundar fagið. Mikilvægt er fyrir sykursjúka að huga vel að fótum sínum og láta fótaaðgerðafræðinga fylgjast reglulega með þeim. Þegar sykursýkin fer að hafa áhrif á tauga og æðakerfið er hætt við að sár myndist á fótum og þá er oft erfitt að græða þau og getur það leitt til aflimana. Allir ættu líka að huga vel að fótabúnaði sínum. Þröngir skór geta valdið miklum skaða. Stærsta breytingin fyrir fagið varð þegar við fengum viðurkenningu sem löggilt heilbrigðisstétt.”

Margrét fjórða frá vinstri ásamt félögum sínum í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarnes.

Margt líkt með Skaganum og Nesinu

Hvarflaði aldrei að ykkur að flytja upp á Akranes. “Nei. Maður var orðinn nokkuð rótfastur hér syðra og eftir að við fluttum á Nesið fann ég að margt var líkt með því því og gömlu heimahögunum. Ákveðinn smábæjarbrag er að finna á Seltjarnarnesi líkt og var á Akranesi þegar ég var að alast upp og gott að vera í námunda við sjóinn. Margt breyttist þar efra eftir að verksmiðjurnar á Grundartanga tóku til starfa. Þá fluttist fólk bæði í gamla Skilamannahreppinn og á Akranes. Uppbyggingin á Skaga hófst fyrst með Sementsverksmiðjunni. Áður en hún kom til sögunnar var ekkert nema fiskurinn. Allt atvinnulífið byggðist að mestu á honum. Sementsverksmiðjan var byggð sem byggðaátak á sínum tíma. Nú er hún horfin. Tengsl fólks á Seltjarnarnesi eru talsvert náin. Fólk þekkist innbyrðis. Þar lifir einhvers konar samkennd eins og oft í fámennum samfélögum. Ég hef notið þess að vera félagi í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarnes um árabil. Þar hef ég verið með góðum og skemmtilegum konum, sem vinna gott starf og er samkenndin þar mikil. Seltirningum hefur fjölgað hægt. Nú standa fyrir dyrum byggingaframkvæmdir í Bygggörðum. Þegar þær íbúðir verða komnar í gagnið mun fólki fjölga nokkuð. En óvíst er að meira verði byggt. Golfvöllurinn er á frábærum stað, alger perla en býður ekki upp á stækkun. Þar er mikið fuglalíf og krían sér þar griðland. Mér finnst að koma mætti öðrum golfvelli – litlum golfvelli fyrir á túnunum neðan Nesstofu. Golfvelli sem hentað gæti eldra fólki og byrjendum. Þetta eru gömul tún og bithagar. Þarna gengu kýr og hross á árum áður. Nú er þetta svæði ekkert nýtt og í órækt. Þar sést sjaldan nokkur á ferli.” 

Ekki að sameinast Reykjavík

Margrét kveðst þeirrar skoðunar að Seltjarnarnes eigi ekki að sameinast Reykjavíkurborg sem sveitarfélag. “Það er hægt og sjálfsagt að vera með samvinnu en einnig nauðsynlegt að halda sínu. En ég hef ekkert um það að segja eftir að ég flutti úr bænum. Við hefðum helst viljað búa áfram á Nesinu en það var lítið um hentugt húsnæði fyrir okkur þegar við vildum minnka við okkur. Við erum samt vel staðsett að því leyti að stærstur hluti fjölskyldunnar er í nágrenni við okkur. Við eigum fimm börn. Ein dóttir okkar býr í Þýskalandi en hún keypti gamla húsið okkar á Lindarbrautinni og er væntanleg þangað með fjölskyldu sína vonandi á næsta ári. Hin dóttir okkar býr á Hagamelnum og synirnir þrír á Nesinu. Þau eru öll mjög nálægt okkur og það er dýrmætt. Ég er vön því frá æskuárum mínum á Skaganum á Akranesi að búa í nálægð við stórfjölskylduna. Það var ávallt mikil samheldni í Grundarfjölskyldunni og samgangur mikill.”

You may also like...