Brauð búskapur leikarar og skáld

– Fálkagata og Grímstaðaholt –

Fálkagata á Grímstaðaholti.

Þeir riðu átján eins og gengur

eftir miðjum Reykholtsdal

með nýja hjálma, nýja skildi,

nýja skó og troðinn mal. 

Þeir sungu frekt með fólskuhljóðum:

færum Snorra á heljarslóð,

og vöktu alla upp á bænum,

engum þótti ljóðin góð.

Þeir fóru um allt og undir rúmin

en engan Snorra fundu þó,

hann bjó við Fálkagötu og gerði

grín að þessu og skellihló. 

Í þessum texta fjallar Magnús Þór Jónsson Megas um dauða Snorra Sturlusonar. Skilur lesandann eftir með spurning um framtíð hans. En af hverju lætur Megas hann búa við Fálkagötu fremur en á einhverjum öðrum stað. Hvaða tengingu má finna á milli Snorra Sturlusonar og Fálkagötu. Snorri var veginn 1241 en Megas birti þennan texta fyrst 1968 og gaf hann út á plötu nokkru síðar. En hver var það sem bjó við Fálkagötu og gat tengst við Snorra. Var það Halldór Kiljan Laxness. Megas féll fyrir Halldóri eins og poppstjörnu þegar hann las Gerplu í útvarpið. Þá var pilturinn ellefu ára gamall og las Kiljan af áfergju eftir það. Á sinn hátt virðist Megas tengja þessa tvo helstu jöfra íslenskra bókmennta í texta sínum en Halldór átti íbúð við Fálkagötu.  

Halldór Kiljan Laxness er trúlega þekktasti íbúi við Fálkagötu í gegnum tíðina. Hann átti íbúð við Fálkagötu 17 sem var dvalarstaður hans í borginni. Hér situr hann í stólnum Eggið eftir Arne Jacobsen í stofunni að Fálkagötu 17.

Á forsíðu Tímans frá 23. október 1963 má lesa frétt sem hefst á fyrirsögninni “Grímstaðaholtið að Hollywood. Í fréttinni segir að það hafi heitið Grímstaðholt fyrir nokkrum árum en nú séu sumir farnir að kalla það Hollywood eða Beverly Hill Reykjavíkur. Blaðið segir tíu leikara búa þar og einn bætist fljótlega í hópinn. Rifjað er upp að Grímstaðaholtið hafi í eina tíð verið kallað Serkjahverfi og ekki þótt sérlega fínt. Nú sé öldin önnur. Á þessum tíma bjuggu Gunnar Eyjólfsson, Jón Sigurbjörnsson, Þóra Friðriksdóttir, Helgi Skúlason og Helga Bachmann við Fálkagötu 19. Skammt frá við Dunhagann bjuggu Herdís Þorvaldsdóttir, Katrín Thors, Bryndís Pétursdóttir og Brynja Benediktsdóttir. Þá var þess getið að Arndís Björnsdóttir hafi fest kaup á íbúð við Fálkagötu og væri væntanleg þangað. Einnig var þess getið að Gunnlaugur Scheving listmálari byggi við Fálkagötu og að Halldór Kiljan Laxness ætti íbúð þar sem væri dvalarstaður hans innan borgarmarkanna. Á mynd Guðjóns Einarssonar ljósmyndara sem fylgdi fréttinni má sjá húsalengjuna við Fálkagötu 17 til 21 og sum húsin voru þá nýbyggð. 

Hætt við að nota fuglaheitin

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir að nafnið Fálkagata hafi komið til árið 1919 þegar gatan var lögð. Árið eftir hafi verið ákveðin fleiri fuglanöfn á götum sem þar áttu að koma. Nöfnin eins og Súlugata, Lundastræti, Lómsgata, Smyrilsvegur, Arnargata, Þrastargata, Lóugata og Kjóastígur. Strax hafi komið fram mótmæli við nöfnunum Lómsgata, Lundastræti og Kjóastígur. Þar hafi aðallega búið fátækt fólk og því talin hætta á að því þætti niðurlægjandi að búa við götur með þessum nöfnum. Yrði ef til vill uppnefnt lómar, lundar og kjóar. Hin nöfnin urðu að veruleika en nú eru einungis eftir Fálkagata, Þrastargata og Arnargata. Fálkagata er á milli Arnargötu, Grímshaga, Tómasarhaga og Hjarðarhaga annars vegar og Dunhaga og Suðurgötu hins vegar.

Móholt varð Grímstaðaholt

Holtið sem kennt er við Grímstaði nefndist áður Móholt og dró nafn sitt af því að þar þurrkuðu Reykvíkingar mó sinn. Árið 1842 var fyrsta býlið reist á þessum slóðum. Þá kom Grímur Egilsson sér upp bæ og nefndi Grímsstaði. Stóð hann þar sem vesturendi Fálkagötu er nú. Varð það til þess að farið var að kenna holtið við býlið. Fyrsta byggingarskeið á Grímstaðaholti er á árunum 1842 til 1918. Um aldamótin 1900 voru 20 tómthúsbýli á holtinu og um 90 íbúar. Í skýrslu um húsakönnun í Reykjavík frá árinu 2007 á svæði sem afmarkaðst af Tómasarhaga, Dunhaga, Grímshaga, Suðurgötu og lóðum við Fálkagötu 1 til 13 kemur fram að 80 hús standi á þessu svæði. Húsin hafi einkum verið byggð á tveimur tímabilum. Á árunum 1919 til 1929 og hinsvegar á árunum 1950 til 1969. Hægt hafi á byggingaframkvæmdum eftir það um tíma en þær auknar nokkuð síðar.    

Málverk af Grímstaðaholti eftir Nínu Tryggvadóttur.

Halldór kaupmaður og Eyjólfur sundkappi

Knattspyrnufélagið Þróttur var stofnað 5. ágúst 1949 í félagsheimili Ungmennafélags Grímsstaðaholts sem var í herbragga við svonefnda Grímstaðavör við Ægisíðu. Stofnendur félagsins voru Halldór Sigurðsson kaupmaður og Eyjólfur Jónsson sundkappi og síðar lögreglumaður. Voru stofnfélagar 37 talsins og fyrsti formaðurinn var kosinn Halldór Sigurðsson. Halldór er talin fyrirmynd að Tomma í bókum Einars Kárasonar um Djöflaeyjuna. Þrátt fyrir að vera einungis knattspyrnufélag í fyrstu hafa Þróttarar keppt í öðrum greinum í gegnum tíðina. Félagið var starfrækt í vesturbæ Reykjavíkur til ársins 1969 þegar því var úthlutað svæði inn í Sundum. Þar starfaði það til 1998 þegar því var formlega komið fyrir í Laugardalnum þar sem það hefur aðsetur í dag. 

Fiskur kýr kindur kartöflur rófur og rabbabari

Einn af stofnendum Þróttar og fyrsti markvörður þess var Ögmundur H. Stephensen. Ögmundur Jónasson fyrrum alþingismaður og ráðherra ritaði eftirmæli um frænda sinn Ögmund H. Stephensen frá Hólabrekku á Grímstaðaholti. Þar segir hann meðal annars frá fyrrnefndri Grímstaðavör þaðan sem á þeim tíma var róið til fiskjar af krafti en við Sundskálavörina litlu austar hafi unglingum verið kennt að synda í sjónum. Á flötunum í grennd við Þormóðsstaði hafi hins vegar fiskur enn verið þurrkaður í miklum breiðum og í þessari hálfgildingssveit, þar sem enn voru kýr og kindur hafi fólk komist nokkuð nærri til sjálfbærni með kartöflu- og rófurækt, rabbabara í görðum og berjum á runnagróðri. Í vaskahúsum hafi verið saltfiskur í útvötnun.

Séra Sigurður Árni í Litlabæ

Eitt af þekktari húsum á Grímstaðaholti er Litlibær og stendur í dag við Tómasarhaga 16b. Húsið var byggt í nokkrum áföngum. Fyrsti hlutinn var reistur 1893 af Einari Gamalíelssyni. Í júní árið 1896 seldi hann Halldóri Jónssyni bæinn ásamt meðfylgjandi lóð og kálgarði. Hann fékk síðan leyfi 26. júní 1909 til að byggja fjós og heyhús á lóðinni og stendur hlaðan enn. Nú er land Litlabæjar um 1400 fermetrar, sem er með því mesta í gamla hluta Reykjavíkur. Núverandi íbúar Litlabæjar eru Elín Sigrún Jónsdóttir og séra Sigurður Árni Þórðarson prestur í Hallgrímskirkju sem er barnabarn þeirra hjóna. Séra Sigurði segist svo frá. “Kristín, systir mín er mikil framkvæmdakona. Eftir japl, jaml og fuður tókst henni að fá borgaryfirvöld til að samþykkja að byggja mætti við steinbæinn, sem hún og gerði. Gunnar Bjarnason, völundur og smiður allra helstu tilgátuhúsa í landinu, var aðalsmiður og faðir hans, Bjarni Ólafsson, meistarinn. Með þeim var hópur af góðum mönnum að vinnu. Kristín bjó um tíma í húsinu ein. Skaftfellingar segja að tóftin afli trjánna og þegar húsið var komið kom prinsinn, Öyvind Kjelsvik. Þau hófu búskap og fyrr en varði voru þau flutt til hans heimalands, Noregs. Við Elín keyptum húsið af þeim og bættum við það sumarið 2002. Enn var Gunnar yfirsmiður og synir fyrri smiða komu einnig við sögu. Litlibær er því þriggja alda hús, frá 19. 20. og 21. öldinni. Það hefur stækkað með nýjum kynslóðum. Um tíma bjuggu tólf manns í steinbænum. Þá var þröngt en nú er rúmt. En alltaf hefur öllum liðið vel í Litlabæ. Hér er gott að vera og gott að búa. Litlibær er friðað hús hið ytra og eigendur hafa reyndar ákveðna stefnu að ekkert brjóti á góðri minjaverndarstefnu og allar lagfæringar eru unnar í samráði við yfirvöld þeirra mála.” 

Litlibær hús séra Sigurðar Árna og Elínar Sigrúnar Jónsdóttur.

Nýbakað við Fálkagötu

Fálkagata var lengi þekk fyrir gott bakarí. Á þeim tíma sem bökunarmenningu hafði ekki að öllu leyti náð þeim þroska er síðar varð og fólk vant að borða hvítt franskbrauð og dökkt rúgbrauð mátti finna alls kyns brauðmeti í Björnsbakarí á Fálkagötunni. Ekki þótti tiltökumál að skjótast af horni Hagamels og Kaplaskjólsvegar út á Fálkagötu eftir brauðmeti á laugardagsmorgnum. Björnsbakarí á Fálkagötu 18 var lokað eftir áratuga starfsemi en um var að ræða þriðju verslunina á vegum Björnsbakarís sem hefur verið lokað á síðustu tveimur árum. Steinþór Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Björnsbakarís, sagði ástæður þess vera samdrátt og breyttar neysluvenjur landans. „Brauðið hefur ekki gert neitt af sér,“ sagði Steinþór í samtali við Fréttablaðið 4. nóvember 2019. “Fólk er að taka upp nýjar lífstílsvenjur og svo hefur það tíðkast að einkaþjálfarar ráðleggi fólki að hætta að borða brauð. Vandamálið er ekki brauðið enda borðum við minnsta brauðið í Evrópu hér á Íslandi. Fastakúnnar bakarísins munu eflaust syrgja missinn en enn eru tvær verslanir Björnsbakarís starfræktar, önnur á Hringbraut og hin á Seltjarnarnesi.” Bakarí, myrkur og skáld geta orðið uppspetta að ýmsum hugrenningum. Jafnvel í einum og sama textanum eins og sjá má í ljóði eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Tæpast þarf langa íhugun til þess að sjá að uppspretta ljóðsins er á Fálkagötunni.

Það eru þrjúhundruð skref út í bakaríið

ég kaupi alltaf það sama

karamellusnúð og kókómjólk

lykt af hestaskít leggur yfir götuna

þegar ég beygi fyrir hornið

hellist myrkrið yfir

svartur bíll keyrir framhjá

með lík af skáldi

innanborðs.

You may also like...