Minningarskjöldur afhjúpaður á Hjallavelli

Minningarskjöldur um Hjálmar Kristinn Aðalsteinsson, KR-ing, var afhjúpaður á nýlegum tennisvelli við norðurhlið Íþróttahúss Hagaskóla þann 4. september sl. Hjálmar var fyrrum Íslandsmeistari, landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í borðtennis, auk þess að vera liðtækur tennisleikari og var lengst af starfsævinnar íþróttakennari í Hagaskóla.

Hjálmar hefði orðið 66 ára þann 4. september, en hann lést í janúar sl.

Hópur úr 1954 árganginum í Vesturbæ Reykjavíkur hafði forystu um að setja skjöldinn upp í samráði við fjölskyldu Hjálmars, Hagaskóla og Reykjavíkurborg. Aðalsteinn Hjálmarsson afhjúpaði skjöldinn. Ólafur Jóhannsson, Margrét Björnsdóttir, ekkja Hjálmars, S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR tóku til máls við athöfnina.

Erling Aðalsteinsson ljósmyndari og kennari tók myndir í tilefni afhjúpunarinnar.

You may also like...