Enginn er fæddur fjármálasnillingur

Fjarmalavit-1 1

Fjármálavit nefnist kennsluefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir verkefninu í samvinnu við aðildarfélögin. Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu sem þykir afar vel heppnað. Krakkarnir sýna mikinn áhuga í tímum og spyrja um allt frá smálánum til íbúðarkaupa, og hvað það þýði eiginlega að vera gjaldþrota. Breiðholtablaðið ræddi við þær Kolbrúnu Ýr Kristjánsdóttur, fjármálaráðgjafa í útibúi Landsbankans í Mjódd og Lúðvíksdóttur, starfsmanns SFF og verkefnisstjóra Fjármálavits.

„Í hópavinnu eiga krakkarnir til dæmis að skoða hvernig hægt er að spara fyrir ákveðnum markmiðum eins og bílakaupum, heimsreisu og jafnvel að eiga fyrir útborgun í íbúð. Þau koma með mjög góðar hugmyndir og það er alveg klárt að þau hafa mikinn áhuga á að leggja fyrir, hvort sem það er til að eiga vasapening eða fyrir stærri markmiðum“ segir Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir starfsmaður Landsbankans í Mjódd. Kolbrún er ein af tæplega hundrað manna hópi starfsmanna íslenskra fjármálafyrirtækja sem hafa heimsótt grunnskóla víðs vegar um land undanfarið ár og kynnt verkefnið Fjármálavit sem er námsefni um fjármál fyrir nemendur í 8 til 10. bekk og Samtök fjármálafyrirtækja hafa þróað til þess að efla fjármálalæsi ungmenna.

Horfa á myndbönd og vinna verkefni

Kolbrún Ýr heimsótti nemendur í 10. bekk í Ölduselsskóla og Árbæjarskóla en einnig hafa Seljaskóli, Breiðholtsskóli og Hólabrekkuskóli fengið heimsókn frá starfsmönnum fjármálafyrirtækjanna með námsefni Fjármálavits. Krakkarnir horfa á myndbönd og vinna verkefni sem miða að því að fá þá til að hugsa um markmiðasetningu og hvað sparnaður skiptir miklu máli til þess að láta draumana rætast. Aðspurð um hvað standi upp úr hjá krökkunum eftir svona heimsóknir í skólana segir Kolbrún Ýr án efa vera myndböndin þar sem jafnaldrar þeirra tala til þeirra um þessi mál á þeirra eigin tungumáli, auk þess sem krakkarnir séu mjög hissa á því hvað hlutirnir í raun kosta.

Um 4000 nemendur fengið „Fjármálavit“ í heimsókn

Fjármálavit er þróunarverkefni með þann tilgang að kennarar og aðrir áhugasamir geti haft auðveldan aðgang að fjölbreyttu námsefni um fjármál á vefsíðu Fjármálavits. Liður í þeirri þróun er gott samstarf við kennaranema í Háskóla Íslands um frekari þróun á kennsluefni. Heimsóknirnar í Breiðholti eru hluti af röð heimsókna í grunnskóla á öllu landinu og frá því Fjármálavit var fyrst kynnt til sögunnar fyrir ári hafa nálægt 4000 nemendur í 10. bekk fengið Fjármálavit í heimsókn og leyst verkefni, en unnið er með hverjum bekk fyrir sig.

Kennarar og foreldrar þakklátir

Kristín Lúðvíksdóttir er verkefnisstjóri Fjármálavits. Hún segir að í heimsóknum í vetur hafi verið reynt við að fá nemendur til að hugsa um hvernig gott er að skipuleggja fjármálin og setja sér markmið. „Það er aldeilis ekki of snemmt að byrja á því þegar maður er 16 ára og á allt lífið framundan. Það eru ekki síst kennarar og foreldrar sem eru þakklátir fyrir að krakkarnir fái fræðslu um peninga. Margir segja að þeim hefði nú sjálfum ekki veitt af slíkri kennslu á unglingsárunum. Foreldrarnir eru mjög jákvæðir,“ segir Kristín.

You may also like...