Hringbraut hættuleg fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur

Kjartan Magnússon 1

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.

Vestanverð Hringbraut er einhver hættulegasti staður landsins fyrir óvarða vegfarendur og mikilvægt að gripið verði sem fyrst til aðgerða þar að sögn Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa sem barist hefur fyrir úrbótum í umferðaröryggismálum við Hringbraut. Vísar Kjartan til þess að sextán skráð slys urðu á gangandi og hjólandi vegfarendum á þessum götukafla á átta ára tímabili, 2007 til 2014 eða tvö að meðaltali á ári.

Árið 2015 urðu hins vegar fjögur skráð slys á óvörðum vegfarendum við Hringbraut, þar af tvö með alvarlegum meiðslum að sögn Kjartans: ,,Þrjú þessara slysa urðu á gangbrautum á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Í janúar varð tólf ára gamall drengur fyrir sendibifreið á umræddum gatnamótum en meiðsl hans urðu sem betur fer ekki alvarleg. Í október var ekið á ellefu ára gamlan dreng á reiðhjóli á gangbraut við sömu gatnamót með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. Í desember var síðan ekið á 66 ára gamlan mann á sömu gangbraut. Í nóvember var ekið á mann á gatnamótum Hringbrautar og Birkimels og hlaut hann alvarleg meiðsl. Hvert slíkt slys er óviðunandi, hvað þá þessi slysafjöldi sem þarna er staðreynd,“ segir Kjartan.

Óskaði eftir greinargerð

Í október sl. óskaði Kjartan eftir því fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að unnin yrði greinargerð um umferðaröryggi á vestari hluta Hringbrautar. Í greinargerðinni yrði farið yfir slysatölfræði brautarinnar og gerðar tillögur í því skyni að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Greinargerðin var lögð fram í byrjun febrúar og þar eru m.a. upplýsingar um slysatölfræði kaflans frá Bjarkargötu vestur að hringtorgi við Ánanaust frá 2007 til 2014.

20 slys á níu ára tímabili

Samkvæmt greinargerðinni urðu sextán slys á óvörðum vegfarendum (gangandi og hjólandi) á vegarkaflanum á umræddu tímabili eða að meðaltali tvö á ári. Tíu skráð slys urðu á gangandi vegfarendum á tímabilinu, þar af fjögur alvarleg. Sex slys eru skráð á hjólreiðamönnum á tímabilinu, þar af tvö alvarleg. Ljóst er að slysin gætu hafa verið fleiri þar sem ekki er víst að öll slys séu skráð, sérstaklega ef þau eru ekki alvarleg. Þegar árinu 2015 er bætt við, er um að ræða tuttugu slys, þar af átta alvarleg.

Hraðakstur á Hringbraut

Í tengslum við greinargerðina voru gerðar hraðamælingar á tveimur stöðum við Hringbraut 25. janúar sl., annars vegar til móts við Elliheimilið Grund og hins vegar skammt norðan Meistaravalla. Lögbundinn hámarkshraði á báðum þessum stöðum er 50 km./klst. Niðurstöður hraðamælinganna voru þær að við Meistaravelli óku flestir ökumenn eða um 85% á 56 km. hraða á klukkustund og mældist mesti hraði þar 67 km/klst. Við Grund óku flestir ökumenn eða um 85% á 57 km. hraða á klukkustund og mesti hraði mældist 71 km./klst.

Gatnamót hækkuð

Í greinargerðinni segir að til að auka öryggi óvarinna vegfarenda sé vænlegast að draga úr hraða bifreiða og er lögð til breyting á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu í því skyni. Samkvæmt tillögunni verða gatnamótin hækkuð með sérstökum fláa fyrir akandi umferð, sem myndi draga úr hraðakstri. Einnig er lagt til að svokölluð mótlæg umferðarljós á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu verði fjarlægð þar sem komið hafi í ljós að vegfarendur taki rangar ákvarðanir með tilliti til þeirra og hefur það valdið slysum á gangandi vegfarendum eins og nýlegt dæmi sannar. Skoða má önnur gatnamót á Hringbraut í þessu samhengi. Aðrar aðgerðir, sem taldar eru koma til greina samkvæmt greinargerðinni, er lækkun hámarkshraða á Hringbraut úr 50 í 40 kílómetra hraða á klukkustund og að sett verði upp hraðavaraskilti á völdum stöðum.

Undirgöng góð lausn

Í nóvember 2014 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að gripið yrði til aðgerða í því skyni að tryggja börnum og ungmennum örugga gönguleið yfir Hringbraut á kaflanum milli Melatorgs og Grandatorgs. Gerði tillagan ráð fyrir því að skoðaðir yrðu tiltækir kostir varðandi undirgöng annars vegar og göngubrú hins vegar og æskileg staðsetning slíks mannvirkis metin út frá gönguleiðum barna og ungmenna yfir Hringbraut. Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna féllust hins vegar ekki á tillöguna. Kjartan segir það miður í ljósi þeirrar hættu sem gangandi vegfarendum sé búin við Hringbraut. ,,Á hverjum degi gengur fjöldi barna og ungmenna yfir Hringbraut á leið sinni í skóla og frístundastarf. Um sex þúsund manns búa í Gamla Vesturbænum en mestallt æskulýðsstarf í þágu hverfisins er sunnan Hringbrautar, KR, Frostaskjól, tónlistarskólinn Do re mi og skátafélagið Ægisbúar. Vesturbærinn er ekki eina hverfið í borginni, sem skorið er í sundur með fjögurra akreina stofnbraut, en í öðrum tilvikum sem það á við er börnum og ungmennum þó tryggð örugg gönguleið með göngubrú eða undirgöngum. Nýlega var t.d. opnuð göngubrú sem tryggir örugga gönguleið milli Norðlingaholts og Seláss eftir mikinn þrýsting foreldrafélaga í báðum þessum hverfum.“

Fjölgun íbúa hefur áhrif á umferð

Heyrst hefur að í Vesturbænum sé ekki hægt að koma fyrir göngubrú eða undirgöngum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur vegna þrengsla og fegurðarsjónarmiða. Kjartan er ósammála því og bendir á að víða erlendis hafi slíkum mannvirkjum verið komið fyrir með sómasamlegum hætti í jafnvel enn þrengri aðstæðum en við Hringbraut með góðum árangri: ,,Í skýrslu Mannvits um málið frá árinu 2009 er mælt með undirgöngum og bent á þrjár mögulegar staðsetningar við Hringbraut, t.d. við Bræðraborgarstíg. Stöðug framþróun er í hönnun slíkra mannvirkja víða erlendis eins og gefur að skilja. Með slíkum undirgöngum væri a.m.k. tryggð ein örugg leið fyrir börn og ungmenni sem þurfa að komast leiðar sinnar yfir Hringbraut. Hraðaminnkandi aðgerðir á öðrum gatnamótum eru einnig af hinu góða en eru ekki nærri því eins öruggar og undirgöng. Mörg alvarleg slys má nefnilega rekja til annarra þátta en hraðaksturs. Í ljósi stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar í Vesturbænum á komandi árum má búast við stóraukinni umferð á Hringbraut og víða annars staðar í Vesturbænum. Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að bregðast við því með því að gaumgæfa alla kosti sem orðið geta til þess að auka umferðaröryggi í hverfinu, ekki síst öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda,“ segir Kjartan Magnússon.

You may also like...