Skipt um gervigras

Gróttuvöllur

Mánudaginn 23. maí hefjast framkvæmdir á Vivaldi vellinum, en skipt verður um gervigras á bæði æfinga- og keppnisvellinum. Nýja grasið verður það sama og Valsmenn settu á keppnisvöll sinn á Hlíðarenda í fyrra. Tíu tilboð bárust í verkið og voru átta þeirra undir kostnaðaráætlun sem var ánægjulegt. Fyrirtækið Metatron annast framkvæmdina en umsjónaraðili er VSÓ ráðgjöf.

Mangi

Magnús Örn Guðmundsson, formaður ÍTS.

Um er að ræða töluverðar framkvæmdir sem felast í að fyrst verður allt gúmmíkurl ryksugað upp af vellinum og sett í stóra sekki. Því næst verður núverandi gervigrasmotta bútuð í sundur og rúllað upp í rúllur. Í framhaldinu kemur nýtt fjaðurlag og gervigrasmotta í gámum hverjum á eftir öðrum eftir því sem verkinu fram vindur. Að lokum verður ljósgrátt innfylliefni sett yfir gervigrasið, svokallað iðnaðargúmmí, sem við þekkjum t.d. innan úr þvottavélum og þurrkurum svo nærtækt dæmi sé tekið. Það kemur í stað dekkjakurlsins (SBR gúmmísins), sem mikil umræða hefur verið um síðustu misseri og er enn á flestum gervigrasvöllum landsins.

Ljóst er að mikið rask verður á allri starfsemi knattspyrnudeildar Gróttu í júní af þessum sökum. Tímasetning var valin í samráði við forráðamenn yngri flokka og meistaraflokks. Ekki var talið ráðlegt að hefjast handa fyrr í vor né síðar í haust þar sem veðurfar skiptir afar miklu máli í svona framkvæmd. Á sama tíma mun Evrópukeppnin í knattspyrnu standa sem hæst. Meistaraflokkur mun fá aðgengi að FRAM vellinum á meðan og íþróttahúsið, sparkvellir, Valhúsavöllur og aðrir grasbalar bæjarins verða fullnýttir af yngri kynslóðinni á meðan. Þess má geta að áætlað er að skipta út svörtu SBR gúmmíi sem er á sparkvöllum bæjarins í leiðinni, og mun það verkefni taka fljótt af.

Framkvæmdir á Vivaldi vellinum munu standa yfir í liðlega 6 vikur en verkefninu á að ljúka í byrjun júlí. Athafnasvæði verður girt af á bílastæði við sundlaugina og mun þá bílastæðum fækka nokkuð til skamms tíma. Benda má á stæði við leikskólana sem hægt er að notast við, auk stæða við Valhúsaskóla og tónlistarskólann (frá Kirkjubraut). Svo er um að gera að nota tækifærið og labba eða hjóla aðeins oftar í sund eða ræktina, rétt yfir hásumarið. Vonandi sýna Seltirningar verkefninu þolinmæði. Það sem mestu máli skiptir er að þegar uppi er staðið munu knattspyrnuiðkendur á Seltjarnarnesi æfa og keppa við enn betri og heilbrigðari aðstæður en í dag.

Magnús Örn Guðmundsson, formaður ÍTS

You may also like...