Breiðholt Festival haldið í annað sinn

Breidholt festeval 2 1

Hátíðin Breiðholt Festival fór fram í Seljahverfi í Breiðholti laugardaginn 14. ágúst. Hátíðin er haldin af plötuútgáfunni Bedroom Community í Vogaseli í samstarfi við Hverfisráð Breiðholts og þjónustumiðstöðvar hverfisins. Veðrið lék ekki nægilega við hátíðarhaldara og gesti en talsvert rigndi einkum fyrri hluta þess tíma sem hátíðin stóð yfir. Þetta er í annað sinn sem aðstandendur Bedroom Community þau Valgeir Sigurðsson og Sigríður Sunna Reynisdóttir efna til hátíðar af þessu tagi en hin fyrsta fór fram í fyrrasumar í sannkallaðri bongó blíðu. S. Björn Blöndal formaður borgarráðs setti hátíðina líkt og í fyrra og sagði meðal annars í setningarræðunni ,,nú reynir á, ef þið þolið þetta, þá er hátíðin komin til að vera”.

Þrátt fyrir bleytu heppnaðist hátíðin ágætlega. Fjöldi listamanna kom fram og má þar nefna Hermigervil, Pascal Pinion og Daníel Bjarnason auk margra fleiri. Þá var hægt að hlusta á kóra, skoða myndlist, fara inn á vinnustofur listamanna sem höfðu vinnustofur opnar í tilefni dagsins auk þess að sækja ýmsa viðburði. „Við erum stolt og þakklát eftir aðra hátíðina okkar. Takk allir frábæru listamenn sem komu fram á hátíðinni, markaðssölumenn sem sýndu einstaka seiglu og töfruðu fram gómsætan mat og varning undir erfiðum aðstæðum, frábærir hátíðargestir og allir sem lögðu hönd á plóg. Veðrið var talsvert frábrugðið bongóblíðunni sem við fengum í fyrra en hátíðin er komin til að vera eins og S. Björn Blöndal sagði. Við erum þegar farið að huga að Breiðholt Festvel 2017,“ segir Sigríður Sunna Reynisdóttir á heimasíðu hátíðarinnar.

Breidholt festavel 3 1

Breidholt festavel 1 1

You may also like...