Þétting byggðar á að skapa öflugra mannlíf

Skerjafjordur

Gert er ráð fyrir átta hundruð íbúðum í Skerjafirði.

Líkt og flestir hafa veitt athygli hafa miklar framkvæmdir staðið yfir í Miðborginni og Vesturbænum að undanförnu. Nýbyggingar hafa risið. Eldri byggingar hafa horfið eða verið endurbyggðar eftir því sem við á og vannýttir reitir verið teknir til skipulagningar fyrir atvinnulíf sem íbúðabyggð. Langt er frá að fyrir endann sjái á þessari uppbyggingu enda verið stefna borgaryfirvalda að undanförnu að nýta óbyggða reiti eða lítt byggða og endurnýja þar sem niðurníðsla hefur átt sér stað. Þá hefur ört vaxandi ferðaþjónusta kallað á framkvæmdir – einkum vegna hótela og annars gistihúsnæðis en einnig í verslana- og veitingastarfsemi. Vesturbæjarblaðið settist niður með Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á Kaffivagninum á Eiðisgranda á dögunum og farið var yfir ýmis atriði í þessari nýju sögu uppbyggingar.

„Við getum byrjað í Skerjafirðinum,“ sagði Hjálmar þegar hann hafði fengið kaffið sitt og snætt pönnuköku. „Byggðaáætlun þar er komin á undirbúningsstig eftir kaupsamning borgarinnar og ríkisins sem er nokkuð sérstök saga á bak við, bæði löng og flókin en nú er þetta klárt. Ég tel að menn eigi að flýta sér hægt og samstaða er um það en það er að hefjast undirbúning- og greiningarvinna fyrir þetta svæði. Það verður tekið mið af verðlaunatillögu fyrir allt Vatnsmýrarsvæðið en það þarf að rýna það allt mjög vel. Þetta er mjög sérstakt svæði og strandlengjan er mikilvæg.“

Skerjafjörðurinn – eitt skólahverfi

Hjálmar segir að í aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir að þarna geti risið á bilinu sex til átta hundruð íbúðir en nánari greining geti hugsanlega leitt í ljós að þarna rúmist eitthvað fleiri íbúðir. Æskilegt sé að Skerjafjörðurinn verði eitt skólahverfi í framtíðinni ásamt því svæði sem jafnan er kallað Litli Skerjó. „Mikilvægt er að hafa í huga að þarna verði vandað til verka og byggðin ekki of einsleit. Ekki er gert ráð fyrir neinum húsum hærri en fimm hæða og að nýi hlutinn aðlagist vel að því sem fyrir er á svæðinu. Hinum megin á Valssvæðinu gengt þessari fyrirhuguðu byggð er hafin af fullum krafti bygging 600 íbúða þannig að það eru að koma á bilinu tólf til fimmtán hundruð íbúðir til beggja enda NA-SV flugbrautarinnar sem nú hefur verið lokað með hæstaréttardómi, eins og frægt er.“

hjalmar-3

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Örfirisey hefur mikið aðdráttarafl

Þar sem setið var á Kaffivagninum lá beinast við að venda kvæðinu að öðru uppbyggingarsvæði í næsta nágrenni – það er að segja að Grandanum og Örfirisey. Hjálmar segir að þetta svæði hafi gríðarlegt aðdráttarafl. Magnað hafi verið í sumar að sjá mannfjöldann á hluta Grandans þar sem vinnustofurnar eru í gömlu verbúðunum. „Ég sé ekki annað fyrir mér en að sú þróun muni halda áfram. Sem dæmi er verið að stíga þar stórt skref og merkilegt að nú er verið að breyta gömlu síldarverksmiðjunni í hús sem verður tileinkað myndlist – meðal annars með einum þekktasta listamanni í heimi Ólafi Elíassyni, Nýlistasafninu og Kling og Bang auk þess sem veitingastaður verður þar á jarðhæðinni. Borgin hefur látið þetta til sín taka og er milliliður í þessu fyrirkomulagi. Ég held að þetta eigi eftir að vekja áhuga langt út fyrir landsteinana bæði fyrir listina og einnig hvernig unnið var að endurnýjun á gömlu verksmiðjuhúsi og er frábært dæmi um endurnýtingu þess.“

Stóru matvöruverslanirnar víkjandi

Hjálmar bendir á að í nýju deiliskipulagi felist að Grandinn og Örfirisey eigi áfram að vera athafna- og atvinnusvæði og að hluti þess verði áfram skilgreint sem sjávarútvegshöfn. „Þetta þýðir að íbúðabyggð og hótelbyggingar eru ekki leyfðar í Örfirisey og Grandanum. En við sjáum fyrir okkur á þessu svæði vettvang og umgjörð fyrir öfluga grasrótarstarfsemi og skapandi störf því nauðsynlegt sé að hin skapandi grasrót eigi sér einhverja staði í borginni.“ Hjálmar segir að deiliskipulagið kveði á um að stóru matvöruverslanirnar á þessu svæði séu víkjandi. „Þeim verður sem sagt ekki fjölgað og gefin hafa verið skilaboð um að þær verði ekki þar um aldur og ævi. Á hinn bóginn eru enn auðar lóðir utar á Grandanum og von er á öflugu þjónustufyrirtæki fyrir sjávarútveg þangað. Það er þannig starfsemi tengd sjónum sem við viljum einnig sjá þróast.“

25% íbúða verði leiguíbúðir

Enn nær Vesturbænum. Ýmsar framkvæmdir eru á döfinni við Vesturbugtina og víðar. „Við getum nefnt Vesturbugtina sem er svæðið á milli Slippsins og Sjóminjasafnsins. Það er búið að vera nokkuð lengi í undirbúningi. Þetta land er í eigu borgarinnar og deiliskipulagið gerir ráð fyrir að þar geti komið á bilinu 170 til 176 íbúðir. Þessa dagana er í gangi útboð sem er að ljúka og ég veit að nokkrir aðilar hafa sýnt því áhuga. Þarna nýtir borgin sér stöðu sína sem lóðareigandi til að tryggja félagslega fjölbreytni. Gert er ráð fyrir að borgin eignist 74 íbúðir af þessum rúmlega 170 sem verður síðan úthlutað á félagslegum forsendum – til Félagsbústaða og til húsnæðissamvinnufélaga.“ Hjálmar segir þetta vera í takt við þá stefnu borgarinnar að 25% nýbyggðra íbúða þurfi að vera leiguíbúðir hvort sem er á einka- eða félagslegum markaði og 5% íbúðanna renni til Félgsbústaða. „Með áherslu á félagslega fjölbreytni er verið að brjóta blað og við erum alveg viss um að ef ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana, og markaðurinn einn ráðið för, hefði á þessu svæði við höfnina eingöngu verið byggðar stóra íbúðir fyrir sterkefnað fólk. Stóra og dýrar íbúðir eiga fullan rétt á sér en byggðin yrði mjög einhæf ef eingöngu yrðu byggðar slíkar íbúðir.“ En hvað með samveruna við Slippinn? „Það er gert ráð fyrir að hann verði á sínum stað svo framarlega að eigendur hans og rekstraraðilar vilji vera þarna áfram.“

Exeterhúsið byggt í upphaflegri mynd

„Við Naustareitinn við Tryggvagötu eru framkvæmdir að fara aftur af stað og gerð rík krafa er gerð til lóðarhafa að Exeterhúsið verði byggt upp í sinni upprunalegu mynd sem bindingsverkshús og þess verður gætt að byggingaraðilar komist ekki upp með að stytta sér leið,“ segir Hjálmar. „Það voru hræðileg afglöp af hálfu byggingaraðilans að húsið skyldi rifið án nokkurra heimilda. Þetta er enn lögreglumál en við verðum að vona úr því sem komið er takist að byggja húsið í upprunalegri mynd. Þá er ákveðið að gera gömlu Fiskhöllina einnig upp í upprunalegri mynd með fallega hornturnunum sem var á húsinu eins og sjá má á gömlum ljósmyndum.“

Láreist timburhús við Seljaveg

Ef við nefnum aðeins Nýlendureitinn á horninu á Seljavegi og Mýrargötu er hafin bygging lágreistra einingarhúsa úr timbri og ofar þeirra á reitnum er gert ráð fyrir að flytja flutningshús. „Það er alveg rétt. Reykjavíkurborg hefur gert samning við Minjavernd um fáeinar flutningshúsalóðir og þessi lóð er ein þeirra. Ég tel reyndar æskilegast að hús fái að standa þar sem þau voru byggð, og það er auðvitað meginreglan, en það eru ákveðin tilfelli þar sem það er ill mögulegt eða ekki hægt. En ný timburhús, eins og nú er verið að byggja þarna á horninu, eru nokkurt nýmæli hér í borginni. Lítið hefur verið byggt úr timbri undanfarin ár og áratugi.“

Uppbyggingin er mest á jöðrum byggðar

Hjálmar bendir á að sú mikla uppbygging sem nú á sér stað í Vesturbænum sé nær eingöngu á jöðrum byggðar. Hann nefnir Héðinsreitinn sem dæmi um slíkt. „Þar hafa lóðareigendur áhuga á að byggja upp og að þar verði blanda af atvinnustarfsemi og íbúðum. Svo er það er reitur sem við höfum kallað BYKO reit þar sem gömlu Steindórshúsin standa á milli Sólvallagötu og Hringbrautar og Verslunin Víðir er nú til húsa. Þar er í gildi deiliskipulag sem gerir ráð fyrir byggingu nýrra íbúða – mig minnir allt að 100 íbúða. Við höfum fengið fyrirspurn um hvort í stað hluta þessara íbúða geti komið hótel en það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það.“ Hjálmar segir að nú sé byggingu um 130 íbúða að ljúka á Lýsisreitnum og í liðinni viku hafi verið samþykkt í borgarráði bygging 78 íbúða við Keilugranda auk lýðheilsugarðs. Hann segir að þyrlað hafi verið upp ryki um að þar ætti að koma KR svæði. Það sé furðulegur málflutningur því forsvarsmenn KR hafi margoft lýst því yfir að þeir hafi engan áhuga á þessu svæði en vilji þess í stað leggja áherslu á frekari uppbyggingu KR svæðisins.

Miðborgarlífið færist til vesturs

Hjálmar segir að mannlíf sem einkum hafi einkennt Miðborgina sé farið að breiða úr sér og teygja sig til austurs og vesturs ekki síst inn í gamla Vesturbæinn. Aukin ferðaþjónusta eigi þar hlut að máli en einnig vaxandi áhugi fólks á að búa miðsvæðis. Vesturbærinn hafi líka ýmislegt að bjóða og nefna megi að eftir endurbætur og uppsetningu stóra heita pottsins í Vesturbæjarlauginni hafi aðsókn að lauginni aukist um allt á 40%. „Þetta svæði á Melunum er sérstakt. Í kringum Vesturbæjarlaugina, Melabúðina og Kaffi Vest, út á Hagamelinn og niður á Ægissíðu líkist orðið miðbæjarkjarna með ákveðinni þjónustu. Hofsvallagatan er miðborgargata Vesturbæjarins. Í stað blómakassa sem þar voru eru nú komin myndarleg steinker. Það er búið að leggja nýtt malbikslag á götuna vestanverða, en gangstéttar eru að verða frekar lasnar við Hofsvallagötu og bráðabirgða hjólastígar. Þarna þarf að bæta úr en engar ákvarðanir hafa verið teknar hvernig verður nákvæmlega staðið að verki. Það má hins vegar ekki bíða að gera götur og gatnamót eins örugg fyrir fótgangandi vegfarendur og mögulegt er. Slys sem orðið hafa á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu kalla á úrbætur í þágu gangandi vegfarenda.“

Óásættanleg vinnubrögð við Suðurgötu

Suðurgatan berst í tal sem hefur verið lokuð í allt sumar vegna framkvæmda við undirgöng sem ekki sér fyrir endann á. Hjálmar segir að þetta verk sé búið að taka allt of langan tíma og veki menn til umhugsunar hvor ekki verði að setja strangari tímamörk í samninga um slík verk og fylgja þeim eftir af hörku. „Að mínu mati eru þetta óásættanleg vinnubrögð sem þar hafa átt sér stað.“

Þétting byggðar á að skapa öflugra mannlíf

Hjálmar minnist einnig á það sem hann kallar „hinn ásinn“ í byggð vestari hluta Reykjavíkur. Háskólasvæðið og nágrenni þess. „Nú er í undirbúningi bygging um 200 stúdentaíbúða og bygging höfuðstöðva CCP á reitnum við Vísindagarðana við Sæmundargötu og Sturlugötu og einnig eru áform um byggingu stúdentagarða við hliðina á Gamla Garði. En það er mikilvægt að hafa alltaf í huga á þessu mikla þéttingarskeiði sem nú er að hefjast að þéttingin má ekki að vera þétting þéttingarinnar vegna er markmið hennar að skapa borgarbyggð sem byggð sem býður upp á öflugra og skemmtilegra mannlíf, betri landnotkun og skilvirkari innviði. En það verður að gerast með réttum hætti. Fyrri þéttingartilraunir hafa ekki allar gefist nægilega vel.“

Byrjað á viðbyggingu við Vesturbæjarskólann

Hjálmar minnist í lokin á Vesturbæjarskólann og þær tafir sem orðið hafa á viðbyggingu við hann. Hann segir að breyta hafi orðið teikningum til þess að koma til móts við óskir foreldra en það hafi tekið óþarflega langan tíma. „En nú er stutt í útboð sem fer fram í október. Framkvæmdir hefjast að því loknu“ Hvert sem litið er í Vesturbænum standa yfir byggingaframkvæmdir, þeim nýlega lokið eða áform eru um að rísi. Ljóst er að íbúafjöldi bæjarhlutans mun vaxa á komandi tímum og eins og Hjálmar segir – þjónusta verði nærtækari og lífsgæði íbúa aukist og mannlíf verði öflugra. Fólkinu er tekið að fjölga fyrir framan ísbúðina, verslanir og vinnustofur í gömlu verbúðunum á Grandanum þegar Kaffivagninn er yfirgefinn og komið fast að hádegi.

You may also like...