Það á að vera gaman að koma í skólann

sigurlaug-h-svavarsdottir-1-1

Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir skólastjóri Fellaskóla.

„Þetta er annar veturinn minn í þessari lotu,“ segir Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir skólastjóri í Fellaskóla þegar Breiðholtsblaðið leit til hennar fyrir skömmu. „Ég starfaði hér á árunum 2002 til 2005 sem kennari og deildarstjóri og þekkti því nokkuð til þegar ég kom til baka. Ég rataði ágætlega um gangana og þekkti nokkuð af kennurum og öðru starfsfólki sem ég hafði unnið með en eðlilega var einnig komið nýtt fólk til starfa á þeim áratug sem ég var annars staðar. Ég hafði unnið með Kristínu Jóhannesdóttur sem var skólastjóri hér á undan mér og einnig Hólmfríði Guðjónsdóttur sem nú er skólastjóri Hólabrekkuskóla en hún var aðstoðaskólastjóri við Fellaskóla þegar ég starfaði þar í fyrra sinnið.“

Talið berst að Fellaskóla sem lengi hefur haft nokkra sérstöðu á meðal grunnskóla í Reykjavík. „Ég get nefnt í því sambandi að allt að 70% nemenda við skólann tala annað tungumál heima hjá sér en í skólanum. Við tókum líka saman fyrir skömmu fjölda þeirra tungumála sem nemendur tala og eru um 25. Skólahverfið stendur saman af fólki sem á sér oft ólíkan uppruna. Hér er mikil fjölmenning og mér finnst einkennandi hverju fólk nær vel saman. Þetta er dásamlegt hverfi að því leyti.“

Um 330 börn hófu skólagöngu í haust

En nú er nýtt skólaár hafið. „Í haust tókum við á móti um 330 börnum til skólagöngu. Þeim er frekar að fjölga á ný þótt talan sé langt frá því að ná þeirri stærð sem var þegar hún var hæst þegar hér voru allt að eitt þúsund nemendur, skólinn þrískiptur og kennt á laugardögum.“ Sigurlaug segir að verkefni þessa skólaárs miðist sérstaklega við að skapa jákvæðan og góðan brag í skólanum. „Við fengum styrk frá Sprotasjóði fyrir verkefni sem kallast Fellaþing en markmið þess er að efla þátttöku krakkanna í skólastarfinu og lýðræðislega starfshætti í skólanum. Með þessu verkefni gefst okkur tækifæri til þess að blanda hópum og láta krakkana vinna meira saman. Við erum gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni og erum einnig stolt af þessum góða styrk sen við fengum til þess að þróa það.“

Einn tveir og Fellaskóli

„Annað verkefni sem við erum að vinna að kallast Einn tveir og Fellaskóli og miðast við að búa til samfelldan skóladag þar sem kennslutími og frístundastarf ná að mynda eina heild. Krakkarnir í fyrsta og öðrum bekk eru þá í skólanum frá klukkan átta á morgnana til hálf þrjú á daginn. Þetta þýðir að skóladagurinn er lengri en gefur aftur á móti möguleika á að fella frístundastarfið að skóladeginum. Þetta er öðruvísi en hefðbundin dægradvöl að því leyti að frístundastarfið fer fram inn í sjálfu skólastarfinu.“ Sigurlaug segir þetta verkefni hafi upphaflega verið hugsað til þess að auka félagsfærni krakkanna og einnig að lengja þann tíma sem þau væru í íslensku málumhverfi. „Ég verð að segja að þetta hefur gengið mjög vel og hvað sem fjölda tungumála líður þá tala nánast öll börnin íslensku án þess að vera með neinn hreim af öðru tungumáli.“ Sigurlaug segir að horfa verði á alla þætti starfsins í samhengi. „Við erum ekki eingöngu að fást við mismunandi menningaráhrif heldur allt litróf samfélagsins ef svo má segja. Mín reynsla hér er sú að langflest börnin séu umburðarlynd og beri virðingu hvert fyrir öðru.“

fellaskoli-1-1

Skólahverfi Fellaskóla stendur saman af fólki sem á sér oft ólíkan uppruna.

Vil auka samstarf við foreldra

Sigurlaug segir að sér finnist margt hafa breyst í skólastarfi Fellaskóla á þeim áratug sem hún starfaði annars staðar. „Eitt af því er að nemendahópurinn er orðin mun fjölbreyttari en áður. Engu að síður sé hann einstakur hvað varðar góða tengingu innbyrðis og við kennara og starfsfólk skólans. „Þetta veldur því að mínu mati að starfið hér innan skólans verður skemmtilegra og mér finnst mjög áhugavert að starfa í svona umhverfi. Ég hef mikinn áhuga á að auka samstarf við foreldra. Ég vil fá þá til þeir þátttöku í skólastarfinu. Koma hingað og taka þátt í viðburðum sem eru í skólastarfinu. Heimili og skóli hefur verið að vinna að þessu markmiði og ég vil sérstaklega benda á mikilvægi þessa samstarfs skóla við þau samtök. Ég vil líka benda á þann góða starfsanda sem hefur þróast hér í gegnum árin. Starfsmannaveltan er róleg þótt alltaf verði ákveðin endurnýjun og þrátt fyrir aldur skólans er hér enn að störfum fólk sem hóf störf þegar skólinn var settur á stofn. Hefur fylgt honum alla tíð. Það er ómetanlegt. Sumt af þessu fólki er komið á þann aldur að geta farið á eftirlaun en hefur kosið að starfa áfram við gamla skólann sinn.“ Sigurlaug segir að alltaf þurfi að huga að heildinni og einnig að innra starfinu. „Mottóið okkar að það eigi að vera gaman að koma í skólann.“

You may also like...