Styrkja á sjóvarnargarðinn frá Snoppu og út í Gróttu

Nesfréttir höfðu samband við Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóri og spurði út í stórgrýtið sem verið er að vinna með við Snoppu.

Bærinn geymir í dag mikið magn stórgrýtis sem bærinn fékk án endurgjalds á svæði þar sem gömlu kartöflugarðar bæjarins voru áður fyrr. (sjá mynd). Hér eru mikil verðmæti sem nýtast til að styrkja sjóvarnargarða hringinn í kringum Nesið en nú þegar er búið að ráðstafa helmingi magnsins til að styrkja sjóvarnargarðinn frá Snoppu og út í Gróttu. Ef ekki er fylgst náið með þessu svæði er fljótt að kvarnast úr eyjunni, eins og ljósmyndir í gegnum árin sýna. Árið 2012 óskaði ég eftir því við bæjarstjórn og Umhverfisstofnun að fá heimild til að taka á móti þessu stórgrýti. Stórgrýtið kom úr Þverholti þar sem verið var að sprengja mikið magn af efni og á þeim tíma var þetta verðmetið á um 200 m.kr. Það var mikill fengur fyrir bæinn að fá þetta stórgrýti gefins, en miklu máli skiptir í rekstri sveitarfélaga að gæta hagræðis og útsjónarsemi. Þessi geymsla á svæði gömlu kartöflugarðanna er tímabundinn og ekki sá geymslustaður sem best er á kosið en við höfum fundið fyrir miklum skilningi bæjarbúa þar sem um er að ræða mikil verðmæti sem nýtast við sjóvarnargarða bæjarins, sagði Ásgerður bæjarstjóri.

You may also like...