Samningurinn mun breyta miklu fyrir okkur

Hér er Ingigerður núverandi formaður ásamt sex fyrrverandi formönnum ÍR. Frá vinstri; Þórir Lárusson, Reynir Sigurðsson, Hólmsteinn Sigurðsson, Ingigerður Guðmundsdóttir, Þorbergur Halldórsson, Hjálmar Sigurþórsson og Bjarki Þór Sveinsson.

Ingigerður Guðmundsdóttir segir samninginn við Reykjavíkurborg breyta mjög miklu fyrir ÍR og verða mikil lyftistöng fyrir félagið og íþróttastarfið í Breiðholtinu. Hún segir að samningurinn tryggi að ÍR geti sinnt hlutverki sínu sem hverfafélag Breiðholts mun betur. Hún bendir á að ÍR hafi séð um rekstur íþróttahúsanna í Austurbergi og Seljaskóla í nokkur ár og komin góð reynsla af því. Samningurinn tryggi að ÍR muni áfram reka íþróttahúsin ásamt íþróttahúsi Breiðholtskóla, sem gerir félaginu kleift að stilla æfingatímum iðkenda betur og nú er hægt að æfa á tímum sem áður var ómögulegt eins og t.d. á morgnaanna fyrir skólatíma.

En hver verða áhrif samningsins og verða þau sýnileg fljótlega. „Við sjáum og heyrum strax að samningurinn hefur jákvæð áhrif, það er meiri spenna og tilhlökkun í kringum starfið í ÍR. Deildirnar tala um að strax sé auðveldara að fá fólk/sjálfboðaliða að starfi innan deildanna. Þegar allir þættir samningsins hafa komið til framkvæmda mun aðstaða ÍR í Suður Mjódd gjörbreytast. ÍR mun loksins eignast aðstöðu í Suður Mjódd þar sem allar deildir geta æft, keppt og horft á aðra iðkendur allt á sama svæðinu. Í dag eru æfingar og iðkendur ÍR á mörgum mismunandi stöðum að æfa og þau þekkja jafnvel ekki jafnaldra sína í öðrum deildum. Breytingarnar munu því hafa mjög jákvæð áhrif á félagsandann og iðkendur munu njóta góðs af því. Við munum jafnvel geta samþætt æfingar á milli deilda. Einnig mun aðstaða fyrir foreldra batna og það mun auka tengingu við foreldra í öðrum deildum og auka líkur á að ná fleirum inn í sjálfboðaliðastarf félagsins,“ segir Inga.

Munum ná til fleiri barna og unglinga

Inga segir að með því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar í Breiðholti muni það vonandi verða til þess að með sameiginlegu átaki íþróttafélaganna í hverfinu náist til fleiri barna og unglinga í hverfinu. „Allar tölur um notkun á frístundastyrk Reykjavíkurborgar sýna að við verðum að ná fleiri börnum og unglingum í frístundastarf og því mikilvægt að íþróttafélögin vinni að því að ná til eitthvað af þeim. Bætt aðstaða mun einnig gera fleiri eldri borgurum kleift að æfa hjá ÍR t.d. þeir sem ekki vilja stunda þá leikfimi sem er í boði í dag hafa möguleika á að taka göngutúra inni í yfirbyggðu knatthúsi, alla vega yfir mesta skammdegið eða annað s.s. boccia.“

Gríðarleg breyting á hverfinu

„Ég hef því þá trú að með þessum samningi verði gríðarleg breyting á hverfinu og ásýnd svæðisins í Suður Mjódd mun gjörbreytast. Svæðið verður allt snyrt, komið verði fyrir göngustígum og betri æfingaaðstöðu á útisvæðum félagsins. Suður Mjódd er vissulega jaðarsvæði í Breiðholtinu og það eru því auðvitað einhverjir sem hafa áhyggjur að reisa íþróttamannvirki þar og telja að slíkt ætti að gera á öðrum svæðum í hverfinu. Ég er alls ekki sammála því. Svæðið er tilvalið sem íþrótta- og útivistarsvæði, enda fékk ÍR þetta svæði úthlutað til þess frá Reykjavíkurborg. Þá strax var lofað íþróttamannvirkjum til að sinna Breiðholtinu og með þessum samning er verið að standa við það loforð. Svæðið er að mínu mati á mjög góðum stað t.d. ef horft er til þess að samnýta mannvirkin og vellina með öðrum félögum. Það eru t.d. góðir göngu – eða hjólastígar að og frá svæðinu sem auðveldar iðkendum í Breiðholtinu og einnig frá Víking, Leikni, Fylki og jafnvel Breiðabliki að nýta aðstöðuna í Suður Mjódd. Í Mjóddinni er strætómiðstöð þar sem allir helstu strætisvagnar stoppa og því auðvelt fyrir iðkendur í hverfinu að koma í Mjóddina. Það þarf samt að skoða með Reykjavíkurborg hvernig við getum auðveldað börnum innan hverfisins að komist með almenningssamgögnum á milli íþróttahúsa og íþróttasvæða í Breiðholtinu og heim aftur. Í dag er frístundastrætó sem sækir börn í fyrsta og öðrum bekk í skólunum í hverfinu og keyrir þau í íþróttastarfið, foreldrar ná svo í börnin í íþróttahúsin.“

Framtíðin er björt

„Ég veit að framtíð ÍR og Breiðholtsins verður björt og ég hlakka til að sjá strax á næsta ári nýjan frjálsíþróttavöll og nýtt knattspyrnuhús. Breiðholtið í heild sinni mun njóta góðs af þessum samning því foreldrar vilja vera þar sem er gott, fjölbreytt og vel rekið íþróttastarf. ÍR er þátttakandi í Heilsueflandi Breiðholti og því er gott að vita að umgjörðin varðandi börnin okkar sé eins og best verður á kosið.“

You may also like...