Neskirkja 60 ára

Útlínur Neskirkju þóttu engri kirkju líkar þegar teikningar Ágústar Pálssonar arkitekts voru kynntar almenningi árið 1943. Þremur árum áður hafði hinni vaxandi höfuðborg verið skipt upp í fjórar sóknir, Dómkirkju, Hallgríms-, Laugarnes- og Nessókn. Guðjón Samúelsson, húsameistari, var fenginn til að hanna Hallgrímskirkju og Laugarneskirkju en Vesturbæingar fóru aðra leið. Alexander Jóhannesson, háskólarektor og formaður byggingarnefndar leiddi verkið og var efnt til samkeppni þar sem tillögur Ágústar urðu hlutskarpastar.

Neskirkja er fyrsta kirkjan á Íslandi sem teiknuð var út frá hugmyndum módernismans. Hún var ekki með hefðbundnu kirkjusniði, langskips, forkirkju og turns. Þá hafði höfundurinn, í anda nýrra hugmynda í arkitektúr, einkum í huga að byggingin nýttist sem best. Neskirkja var kirkja fólksins með ágætri aðstöðu fyrir safnaðarstarf sem var að sönnu nýlunda á þeim tíma.

Líkist kofaræksnum – sagði Jónas frá Hriflu

Í hópi þeirra sem fundu þessum teikningum allt til foráttu var Jónas frá Hriflu. Hann sagði þær helst lýsa þyrpingu af kofaræksnum og tóku margir undir þau orð. Þurfti að leita álits sérfræðings að utan til að fá staðfestingu á ágæti þessarar hönnunar. Byggingarnefndin sendi hinum þekkta arkitekt, Finnanum Elíel Saarinen teikningarnar og óskaði eftir áliti hans. Svarbréfið eigum við hér í kirkjunni þar sem hann fer fögrum orðum um þennan helgidóm sem átti að rísa í Vesturbænum. Langur tími leið þar til byggingin var tilbúin. Menn fóru sér að engu óðslega. Hópar og félög lögðu verkefninu lið með ýmsum hætti. Kvenfélagið bakaði og smurði og seldi afraksturinn til fjármögnunar kirkjunni, enda má segja að efniviður kirkjunnar sé ekki bara timbur, járn, gler og sement. Í hana fóru líka ófá egg, hveiti, smjör og sykur. Neskirkja er að sönnu kirkja fólksins og það voru einmitt kærleiksríkir einstaklingar og félög sem gerðu það mögulegt að Guðshús þetta skyldi rísa.

Framandlegt þá – til marks um sögulega byggingu nú

Í dag þykir Neskirkja vera til marks um einstaklega góða hönnun og sómir hún sér vel við Hagatorg í nágrenni þeirra bygginga sem þar standa. Það sem eitt sinn þótti framandlegt og nýstárlegt er nú til marks um sögulega byggingu sem er friðuð samkvæmt lögum. Neskirkja er tímamótakirkja og nú eru liðin sextíu ár frá því að hún var vígð á pálmasunnudegi 1957. Mikið verður um dýrðir 9. apríl næstkomandi þegar við fögnum þeim tímamótum. Frumflutt verður messa eftir organista kirkjunnar, Steingrím Þórhallsson, barnakór og drengjakór syngja ásamt kirkjukórnum. Báðir prestar þjóna og sóknarnefnd býður upp á ærlegt afmælismessukaffi að helgihaldinu loknu. Sérstaklega þætti okkur vænt um að sjá fermingarárganginn 1957 við messuna og hvetjum við þau sem mynda hann að setja sig í samband við okkur áður. Þetta verður hátíðarstund í Vesturbænum og óskandi er að fólk fjölmenni og samfagni okkur á þessum tímamótum.

Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur.

Droplaug Guðnadóttir, formaður sóknarnefndar.

You may also like...