Hótel í Héðinshúsinu

Héðinshúsið við Seljaveg. Þar sem áður var hamrað járn, síðan þjálfað og leikið verður nú gististaður ferðamanna.

Gert er ráð fyrir að opnað verði hótel með allt að 140 herbergjum í Héðinshúsinu við Seljaveg. Það er Hótelkeðjan Center Hotels sem standa mun að hinu nýja hóteli. Center Hotels hefur fest kaup á verulegum hluta hússins standa breytingar á því nú fyrir dyrum.

Verslun 10 – 11 mun verða áfram í Héðinshúsinu og einnig Reykjavíkurapótek sem eru með starfsemi sína á jarðhæð hússins. Sá rekstur sem verið hefur á efri hæðum mun flytja burt eða er þegar fluttur. Má þar nefna Sjúkraþjálfun Reykjavíkur, Íþróttafélagið Mjölni sem flutt hefur starfsemi sína í fyrrum Keiluhöllina í Öskjuhlíð og Kvikmyndafyrirtæki Baltasars Kormáks sem er að flytja starfsemi sína í Gufunes. Héðinshúsið er eitt þekktra kennileita í Vesturbæ Reykjavíkur og dregur nafn sitt af Vélsmiðjunni Héðni en eigendur hennar létu reisa húsið á sinni tíð og var starfsemi hennar þar til húsa um lengri tíma.

You may also like...