Deiliskipulag í Suður Mjódd

Séð yfir ÍR svæðið í Suður Mjódd. Á teikningunni hefur íþróttavöllur fyrir ÍR verið settur inn.

Tillögur að deiliskipulagi fyrir Suður Mjóddina í Breiðholti hafa verið til kynningar að undanförnu og lýkur umsagnaferlinu við skipulagið í dag 17. ágúst. Þá tekur úrvinnsla við, farið verður yfir allan innsendar hugmyndir og athugasemdir og þær metnar. Gert er ráð fyrir að því verki loknu verði deiliskipulagið staðfest í skipulagsráði og síðar í borgarráði.

Um er að ræða svæðið í Suður Mjóddinni þar sem Félag eldri borgara, borgin vegna ÍR og Hekla hf. verða með íbúðir og starfsemi. Borg­ar­ráð samþykkti 26. janú­ar síðastliðinn vilja­yf­ir­lýs­ingu á milli Reykja­vík­ur­borg­ar og Heklu um lóðar­vil­yrði til fyr­ir­tæk­is­ins fyr­ir bygg­ingu nýrra höfuðstöðva bílaum­boðsins í Syðri-Mjódd sem yrði um 24 þúsund fer­metr­ar að stærð. Nokkuð var um athugasemdir vegna vilyrðisins til Heklu þar sem talið var að svo umfangsmikið athafnasvæði myndi ekki rúmast vel á þessu svæði. Flutningur Heklu í Mjóddina er hluti af stærra máli en það er uppbygging íbúðarhúsnæðis á Heklureitnum við Laugaveg þar sem bíla- og vélaumboðið hefur verið í langan tíma. Að deiliskipulaginu frágengnu og samþykkti má gera ráð fyrir að framkvæmdir muni hefjast á Heklusvæðinu en framkvæmdir eru þegar hafnar við byggingu íbúða fyrir eldri borgara og félagssvæðis ÍR.

You may also like...