Stórbætt aðstaða fyrir Skólaskjól og Frístund

Nú við upphaf skólaársins verður tekið í notkun nýtt húsnæði fyrir lengda viðveru barna í 1. til 4. bekk í Grunnskóla Seltjarnarness. Í sumar hefur „Kálfurinn“ svokallaði, sem er viðbygging við Mýrarhúsaskóla, verið endurnýjaður til að bæta aðstöðu Skólaskjólsins. Alls er um rúmlega 180 fermetra húsnæði að ræða og skipting þess býður upp á marga möguleika fyrir frístundastarf barnanna.

Kálfurinn hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, lengst af sem kennarastofa skólans en síðustu ár hefur húsnæðið þjónað sem geymsla og æfingarými fyrir hljómsveitir. Fyrir tveimur árum var þak hússins endurnýjað og í sumar hefur það verið endurnýjað að innan. Veggir voru færðir og dyraop breikkuð til samræmis við gildandi staðla. Loftklæðning og gólfefni voru endurnýjuð. Nýjar innréttingar fyrir starfsemina hafa verið settar upp og ný salernisaðstaða auk þess sem útveggur var rofinn fyrir nýjan neyðarútgang. Að sögn Margrétar Sigurðardóttur, forstöðukonu Frístundamiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar og Rutar Hellenardóttur, forstöðukonu barnastarfs Frístundamiðstöðvarinnar mun þessi nýja aðstaða gjörbreyta forsendum fyrir faglegt starf í Skólaskjóli og Frístund.

You may also like...