Áttunda nikkuballið á Nesinu

Ungmennaráð Seltjarnarness hélt á dögunum Nikkuballið í áttunda sinn. Nikkuballið er einn af stóru viðburðunum sem Ungmennaráðið stendur fyrir. Ballið er haldið árlega við Smábátahöfn Seltjarnarness og er boðið upp á harmonikkudansleik og kaffiveitingar. Í ár var það harmonikkuleikarinn Þórður Arnar Marteinsson sem mundaði nikkuna ásamt því að hljómsveitin Stjúpmæður steig á stokk en hún er skipuð ungum tónlistarkonum af Nesinu.

Ungmennaráðið hélt einnig á dögunum Ungmennaþing fyrir öll ungmenni á aldrinum 16 til 25 á Nesinu. Á þinginu voru kjörnir áheyrnarfulltrúar ráðsins í fagnefndum Seltjarnarnesbæjar ásamt því að starfsemi ráðsins í haust var skipulögð. Á næstu mánuðum stefnir ungmennaráðið á að sækja um styrk fyrir ungmennaskiptum erlendis, halda fræðslukvöld um heimsreisur, sjálfboðaliðastarf og skiptinám ásamt því að bjóða upp á mánaðarleg skemmtikvöld með eldri borgurum síðasta miðvikudag hvers mánaðar í Skelinni. Önnin mun svo enda á Jólakaffihúsi Ungness sem er löngu orðinn fastur liður í jólahaldi Seltirninga. Ungmennaráðið fundar í Skelinni – Ungmennahúsi Seltjarnarness og er ráðið opið fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára sem búsett eru á Nesinu. Hægt er að fylgjast með starfinu á Facebook ásamt því að hafa samband við ráðið í skilaboðum.

You may also like...