Menningarhátíð Seltjarnarness

Menningarhátíð Seltjarnarness fór fram á dögunum og var fjöldi veglegra, áhugaverðra og skemmtilegra viðburða í boði frá fimmtudegi til sunnudags.

Undirbúningur stóð yfir í eitt ár og lögðu um þrjú hundruð manns sitt af mörkum til að gera hátíðina að veruleika og sem glæsilegasta. Það var formaður menningarnefndar, Sjöfn Þórðardóttir, sem setti menningarhátíðina á fimmtudagseftirmiðdag. „Menningarstarf er veigamikill þáttur í bæjarlífinu allt árið um kring, enda eflir það bæjarbrag og ímynd Seltjarnarness út á við. Tilgangur hátíðarinnar er að auki að brjóta upp hverdagsleikann, upplýsa, fræða, skemmta og virkja mannauðinn og ná til fólksins með samveru fjölskyldu og vina. Menning og listir gleðja augað, auka víðsýni okkar, skilning og auka sköpunargleðina sem býr innra með okkur öllum. Mikilvægt er því að hvetja börn og ungmenni til þátttöku í menningarviðburðum í þeim tilgangi að auðga líf þeirra og færa þeim góðar minningar, þekkingu og reynslu,“ ritar Sjöfn í kynningarbæklingi fyrir hátíðina. Margt var um manninn við setninguna og á hinum ýmsu viðburðum helgarinnar. Ljóst er að listalífið á Seltjarnarnesi er fjölskrúðugt og metnaðarfullt.

You may also like...