Heimilt að reisa 160 herbergja hótel á Landsímareitnum

Fyrirhuguð nýbygging á Landsímareitnum.

Borg­ar­ráð Reykja­vík­ur hefur samþykkt deili­skipu­lagstil­lögu Lands­s­ímareits­ins við Aust­ur­völl. Samkvæmt tillögunni er heim­ild til að reisa 160 her­bergja hót­el á bygg­ing­ar­reitn­um. Deili­skipu­lag hafði áður verið samþykkt fyr­ir reit­inn en þá var talið að hann næði ekki inn í kirkju­g­arð Vík­ur­kirkju. Á síðasta ári kom hins veg­ar í ljós að hluti garðsins er inn­an marka bygg­ing­ar­reits­ins og að þar væri að finna graf­ir.

Borgarfull­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins vildu fresta af­greiðslu skipu­lagstil­lög­unn­ar þar til niður­stöður forn­leifa­rann­sókn­ar á reitn­um lægju fyr­ir og svör hefðu feng­ist við fyr­ir­spurn frá borgarráði um hvaða laga­heim­ild­ir væru fyr­ir því að graf­inn yrði kjall­ari í aust­ur­hluta Vík­ur­kirkju­g­arðs og stór hót­el­bygg­ing reist þar ofan á. Tillagan var felld með fimm at­kvæðum meiri­hlut­ans gegn tveim­ur at­kvæðum Sjálf­stæðis­flokks. Í bók­un Kjart­ans Magnússonar borgarfulltrúa vegna máls­ins segir að Vík­urg­arður sé elsti kirkju­g­arður Reyk­vík­inga og að enn eigi eft­ir að kom­ast til botns í lög­fræðileg­um álita­mál­um vegna eign­ar­halds garðsins. „Vík­urg­arður er helgi­dóm­ur í hjarta borg­ar­inn­ar sem ber að vernda í stað þess að steypa stór­hýsi ofan í hann. Þar stóð fyrsta kirkja Reykja­vík­ur og rök hníga einnig að því að fyr­ir kristni­töku hafi þar verið heiðinn helg­istaður. Hingað til hef­ur verið talið að graf­ir skuli vera friðhelg­ar eft­ir því sem kost­ur er,“ segir í bókuninni. Félagið Lind­ar­vatn ehf. er eig­andi fasteigna á reitn­um. Félagið er í helm­ingseigu Dalness ehf. og Icelandair Group hf. Icelandair Hotels, dótt­ur­fé­lag Icelandair Group. Fyrir liggur leigu­samn­ingur til 25 ára um rekst­ur hót­els á reitn­um.

You may also like...