Reykjavíkurborg vill kaupa húsnæði póstsins í Mjóddinni

– býður póstinum húsnæðið þar sem Kaffi Strætó var til leigu –

Hugmyndir eru um að færa pósthúsið í Mjóddinni um set en þó ekki langt. Reykjavíkurborg hefur áhuga á að festa kaup á því húsnæði sem Íslandspóstur er í Mjóddinni í sama húsi og Strætó við Þönglabakka. Ef af kaupunum verður er borgin tilbúin að leigja póstinum húsnæði þar sem Kaffi Strætó var til húsa á árum áður og síðar Garnbúðin Gauja en það hefur staðið tómt að undanförnu.

Hugmyndir um kaup á húsnæði Íslandspósts kemur í framhaldi af því að nýlega festi borgin kaup á húsnæði sem var í eigu Strætó bs. á annarri hæð hússins. Borgin á því um 21% eignarhluta í húsinu nú þegar en myndi eignast allt að 79% ef af kaupum á húsnæði póstsins verður. Stjórnendur Íslandspósts eru að skoða þetta mál en árið 2011 var hætt við að loka pósthúsinu í Mjódd og sameina starfsemi þess pósthúsinu við Dalveg í Kópavogi vegna mótmæla Breiðhyltinga.

You may also like...