Fótboltinn er og verður sumaríþrótt hér á landi

Rúnar Kristinsson þjálfari KR

– segir Rúnar Kristinsson þjálfari meistaraflokk karla KR í knattspyrnu –

Rúnar Kristinsson tók við þjálfun KR liðnu hausti af Willum Þór Þórssyni sem náð hafði kjöri til setu á Alþingi. Rúnar er ekki ókunnugur KR. Hann stýrði liðinu á árunum frá 2010 til 2014 og liðið varð tvívegis Íslandsmeistari og þrívegis bikarmeistari undir hans stjórn. KR vann deildina tvisvar á árunum 2011 og 2013 og bikarinn þrisvar árin 2011, 2012 og 2014. Rúnar var einnig leikmaður liðsins í fjölmörg ár. Rúnar er eini leikmaðurinn sem hefur spilað yfir 100 leiki með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Eftir þetta hélt hann til Noregs. Hann gerðist þjálfari Lilleström í Noregi árið 2014 og svo Lokeren í Belgíu í fyrra en hann var leikmaður beggja liða á atvinnumannsferli sínum. 

“Já – það er rétt. Ég tók við af Willum þegar hann fór á þing að nýju og tók við fínu búi. Leikmannahópurinn er vel samansettur. Ég þekki þó ekki alla leikmennina nægilega vel þótt ég sé búinn að vera þessa mánuði með liðið. Það er nauðsynlegt fyrir þjálfara að þekkja vel til leikmanna sinn. Engir tveir eru eins – hvorki fótboltamenn né aðrir og það er mikilvægt að þekkja karaktereinkenni hvers fyrir sig. Það verður aldrei hægt að nálgast alla á sama hátt. Menn skylja hlutina hver með sínum hætti og það verður að nálgast menn með það í huga. Það er ekki hægt að húðskamma einhvern sem hefur ekki eiginleikann til þess að taka á móti þannig sendingum. Maður getur aldrei talað eins við alla. Þess vegna er svo mikilvægt að kynnast leikmönnum vel og þekkja hvernig best er að koma til móts við þá hvort sem þarf að hvetja þá, leiðbeina þeim eða jafnvel að finna að einhverju í fari þeirra.”

Starf þjálfarans er ekkert lúxuslíf

Rúnar á langan feril í knattspyrnu. Hann fór snemma að spila með landsliðinu og hefur verið meira og minna í eldlínunni síðan. Hann kveðst hafa verið farinn að íhuga að hætta alla vega að minnka eitthvað við sig en svo hafi KR komið til sögunnar á ný. “Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn dálítið þreyttur. Starf þjálfarans býður ekki upp á neitt lúxuslíf.  Undirbúningur æfinga og leikja svo ekki sé talað um þann tíma sem fer í undirbúning funda, klippa saman myndbönd af andstæðingum og eigin liði. En þetta er bara vinna og aftur vinna. Þjálfarstarfinu fylgja miklar fjarvistir frá fjölskyldu. Þjálfarinn er því mikið á ferð og flugi einkum meðan á keppnistímabilinu stendur. Ég tók einhvern tíman saman hvað ég hefði verið samanlagt lengi að heiman yfir eitt keppnistímabil og það var um 70 dagar eða rúmir tveir mánuðir.”

Reynir á þjálarann að standa að baki mönnum sínum

En það eru ekki bara fjarvistirnar. Fylgir ekki mikið stress þjálfunina og knattspyrnustjórn. “Vissulega fylgir stress þessu og stundum mikið. Það getur þó farið nokkuð eftir því hvernig liðinu gengur. Ef illa gengur kemur það niður á mannskapnum vegna þess að ég held að allir bæði þjálfarar og leikmenn hafi mikinn metnað til þess að gera sitt besta. Standa sig vel. Það getur farið illa á sálina hjá mönnum en fer þó oft eftir manngerðum og þá getur reynt á þjálfarann að standa við bakið á sínum mönnum. Bakka þá upp og treysta framhaldið. Allir þjálfara hafa metnað í að standa sig og setja þannig pressu á sjálfan sig í að ná árangri en pressan kemur líka frá stuðningsmönnum, fjölmiðlum og jafnvel forystumönnum félaga sem vilja ákveðinn árangur. Allt þetta þarf maður að geta unnið með svo það hafi ekki of mikil áhrif á það sem maður er að gera.»

Fékk tækifæri til að anda út

Rúnar ætlaði að taka því rólegar þegar hann hætti að spila árið 2007. “Þá fór ég að starfa hjá KR sem yfirmaður knattspyrnumála. Starfið fólst einkum í að vinna með þjálfurum yngri flokkanna og byggja starfið upp innan frá. Þarna var ekki um eins mikið álaga að ræða og á meðan maður spilaði. Ábyrgðin var á fleiri herðum og þarna átti maður nokkur góð á ef svo má segja. Alla vega var minna álag á manni og tíminn með fjölskyldunni meiri. Þarna fékk ég tækifæri til þess að anda út ef svo má segja og skoða líf mitt. En svo fór ég að þjálfa og er búinn að vera að því linnulaust síðan 2010 eða í átta ár. Það er alltaf eitthvað sem dregur mann að þessu. Þetta er skemmtilegt en getur líka verið rússibanareið. Rúnar segir allskyns hugsanir fara í gegnum hausinn á manni í þessu starfi. Alltaf geti eitthvað komið upp á sem þurfi úrlausnar við. “Það fylgir þessu líka mikil harka og atvinnuöryggið er lítið sem ekkert. Sá tíma sem þjálfari starfar hjá hverju félagi er alltaf að styttast. Í Englandi er meðaltalið komið niður í eitt ár. Jafnvel minni og getur talist í mánuðum. Eins og í Mið-evrópu. Líftími þjálfara er ekki langur hjá hverju félagi. Þetta er öðrum þræði og orðinn hörku viðskipti. Það eru komnir allskyns eigendur að knattspyrnufélögum. Jafnvel frá öðrum löndum og heimshornum. Frá Rússlandi, Kína, Tælandi og víðar. Þetta eru efnamenn sem hafa sínar skoðanir og lítið þol gagnvart liðum sínum ef þeim finnst árangurinn ekki nægilega góður. Og þá er þjálfarinn fyrstur að fjúka. Þeir reka knattspyrnuna eins og fyrirtæki. En það er ekki alltaf við þjálfaranna einan að sakast né leikmannhópinn sem hann stýrir. Oftar en ekki eru það eigendur félaganna sem vilja mun betri árangur en efni standa til og skella svo skuldinni á þjálfarana. Sem betur fer er þetta ekki orðið svona á Norðurlöndunum og því er starfsöryggið betra þar.»

Rúnar Kristinsson þjálfari KR ásamt formanni knattspyrnudeilar KR, Kristni Kjærnested.

Hentar góðum liðum að spila á gervigrasi

En ef við horfum aftur hingað heim. Hverjar eru stærstu breytingarnar í íslenska boltanum. “Ég tel að stærstu breytingarnar liggi í því að liðin eru að skipta yfir á gevigras.Við getrum notað náttúrugrasið í fimm mánuði á ári. Í Noregi vorum við á náttúrulegu grasi og það þykir mér alltaf betra en við spiluðum eina 7 til  8 leiki á útivelli á gervigrasi. Það er öðruvísi að spila á gervigrasi. Það hentar góðum liðum betur að spila á gervigrasinu vegna þess að hraðinn eykst þar og möguleikarnir til að spila góðan bolta eru meiri. Hins vegar er líka erfitt að vera alltaf að breyta um undirlag því leikur á gervigrasi er allt öðruvísi en leikur á náttúrulegu grasi. Við erum mikið að tala um að lengja tímabilið. Ég er samt ekki að sjá það bæta umgjörðina eða áhugann. Það koma ekki margir til þess horfa á fótbolta sitjandi í stúkunni í MAX galla í 10 metrum á sekúndu. Jafnvel í slyddu og snjókomu. Fótboltinn er og verður sumaríþrótt hér á landi. Hinar ytri aðstæður skapa það. Við erum líka alltaf að eignast fleiri og fleiri góða þjálfara. Menn eru farnir að spila betri bolta og leikskilningurinn er meiri. Við erum með vel skipulögð lið í Pepsideildinni og deildin er alltaf að verða betri.” Rúnar segir að margir góðir strákar hafi farið til að spila með erlendum liðum sem hafi aldrei verið í Pepsideildinni hér heima. Þetta eru ungir strákar sem annars hefðu styrkt Pepsideildina en við missum þá út til erlendra félaga. Jafnvel niður í 17 ti 18 ára gamla, strákar sem við sjáum kannski ekki fyrr en þeir eru komnir í A-landsliðið eða þá koma til baka ef hlutirnir hafi ekki þróast á réttan hátt fyrir þá og ganga þá til liða í Pepsideildinni.”

Góð ár í Breiðholtinu en samt alltaf Vesturbæingur

Rúnar á rætur víðar en í Vesturbænum. Foreldrar hann flutti í Breiðhotið þegar hann var sex ára. “Ég lít engu að síður á mig sem Vesturbæing. Ég átti heima á Reynimelnum þangað til ég var orðinn sex ára að foreldrar mínir fluttu í Breiðholtið þar sem þau búa enn. Ég flutti aftur vestur eftir þegar ég fór að heiman eins og sagt er. Keypti mína fyrstu íbúð í Vesturbænum og ætlaði mér alltaf að búa þar. En veran í Breiðholtinu varð til þess að ég byrjaði að spila fótbolta með Leikni en skipti síðan yfir til KR þegar ég var 13 ára. Tók bara strætó vestur í bæ til þess að vera í fótboltanum með KR. Engu að síður átti ég góð ár í Breiðholtinu. Ég er stoltur af því að hafa verið í Fellaskóla. Við kölluðum þetta stundum Beverly Hills. Þaðan komu margir öflugir krakkar og bestu vinir mínir úr koma úr þeim hóp,” segir Rúnar Kristinsson þjálfari KR í Pepsideildinni.

You may also like...