Um 75% kosningaþáttaka á Nesinu

Alls greiddu 2.560 atkvæði í nýafstöðnum bæjarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi eða um 75% kosningabærra manns. D listi hlaut 1.151 atkvæði og fjóra bæjarfulltrúa kjörna. S listi hlaut 693 atkvæði og tvo menn kjörna. N listi hlaut 380 atkvæði og einn mann kjörinn og F listi hlaut 264 atkvæði og engan mann kjörin. Auðir og ógildir seðlar voru 72.

Af D lista hlutu kosningu Ásgerður Halldórsdóttir, Magnús Örn Guðmundsson, Sigrún Edda Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson. Varamenn af D lista eru Ragnhildur Jónsdóttir, Sigríður Sigmarsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Hannes Tryggvi Hafstein. Af S lista hlutu kosningu Guðmundur Ari Sigurjónsson og Sigurþóra Bergsdóttir og varamenn eru Þorleifur Örn Gunnarsson og Karen María Jónsdóttir. Af N lista hlaut Karl Pétur Jónsson kosningu og Hildigunnur Gunnarsdóttir til vara.

D listinn ekki með helming atkvæða

Ef kosningaþátttaka og úrslit eru borin saman við kosningarnar 2014 þá voru 139 fleiri á kjörskrá en í ár. Atkvæði greiddu hins vegar 253 fleiri nú en árið 2014.

Þátttaka í kosningunum var ívið betri nú en árið 2014, 75,23% á móti 70,68%.

Auðir og ógildir seðlar voru 27 færri árið 2018 en 2014. Hlutfall þeirra var 4,29% árið 2014 en lækkaði í 2,81% árið 2018. Ef litið er til einstakra lista greiddu 44,96% kjósenda D listanum atkvæði sitt nú en 50,33% árið 2014. Þrátt fyrir að ná ekki helmingi atkvæða heldur D listi hreinum meirihluta sínum í bæjarstjórn.

S listi fékk 43 atkvæðum meira í kosningunum nú en 2014 en hlutfall kjósenda sem studdu listann nú lækkar í 27,07% úr 28,18% árið 2014. N listi sem bauð fram í samstarfi við Félag Viðreisnarfólks á Seltjarnarnesi fékk 84 atkvæðum meira en N listinn  árið 2014. Hlutfall kjósenda sem studdu listann hækkaði úr 12,83% árið 2014 í 14,84% nú. B  listi bauð fram árið 2014 en ekki í kosningunum nú. F listi bauð ekki fram í kosningunum 2014 en gerði það árið 2018. Listinn fékk 264 atkvæði eða 10,31% greiddra atkvæða.

You may also like...