Þurfum ávallt að vera á tánum

Árni Einarsson-2

Árni Einarsson

Bæjarfulltrúar minnihlutans, þ.e. Samfylkingar og Neslista sátu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015. Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista, tilgreinir í bókun að fyrir því liggi einkum tvær ástæður af hans hálfu. Annars vegar að ekki hafi náðst fram tillaga minnihlutans um 15% lækkun leikskólagjalda og hins vegar að ekkert bóli á ákvörðun um endurbætur og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina. Nesfréttir spurðu Árna nánar út í þessa þætti og fjárhagsáætlunina almennt.

,,Það eru svo sem engin stórtíðindi eða breytingar í þessar áætlun og um hana er enginn meiriháttar ágreiningur. Eðlilega er áherslumunur í ýmsum málum en almenn samstaða um grunnþjónustu bæjarfélagsins og aðhald í rekstri. Við þurfum samt að tryggja að hún þjóni þörfum íbúa og tryggi góðar vinnuaðstæður fyrir starfsfólk bæjarins. Áætlunin verður að endurspegla raunþörf til að reka þessa þjónustu vel. Málaflokkar eru almennt í járnum að öðru leyti en því að launaliðirnir hækka frá áætlun yfirstandandi árs. Meira tilfærslur á milli liða og ýmsir kostnaðarliðir í málaflokkum standa í stað í krónutölu og lækka því að raungildi haldist verðþróun svipuð og verið hefur undanfarið. Bæjarfulltrúar koma nú orðið allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar og bæjarstjórn hefur setið fjölmarga vinnufundi síðastliðnar vikur þar sem farið hefur verið yfir gögn og forsendur. Á þessa fundi hafa einnig komið forstöðumenn sviða og farið yfir og skýrt einstaka rekstrarliði eftir því sem óskað hefur verið eftir. Þetta er vinnulag sem ég tel til fyrirmyndar í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn og stuðlar að vandaðri og gegnsærri stjórnsýslu.»

Álagningarstuðull fasteignaskatts lækkaður til þess að mæta hækkun á fasteignamati

Samkvæmt áætluninni lækkar álagningarstuðull fasteignaskatts úr 0,21% í 0,20%, eða um tæp 5%. Sú lækkun skilar sér hins vegar ekki til bæjarbúa sem bein krónutölulækkun, segir Árni, því tekjur bæjarsjóðs af fasteignagjöldum aukist um rúmlega 3% frá áætlun þessa árs. Fasteignagjöldin eru reiknuð út frá fasteignamati sem hefur hækkað umtalsvert á milli ára og því hefði hækkun gjaldanna orðið umtalsverð hefði stuðullinn ekki verið lækkaður.

Þú vilt lækka leikskólagjöld?

,,Það er stefna Neslistans að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu, eins og segir í bókun minni. Ég bendi þar einnig á að hátt fasteignaverð á Seltjarnarnesi gerir ungu fjölskyldufólki erfitt um vik að setjast að í sveitarfélaginu. Því þarf að koma með afgerandi og markvissum hætti til móts við þennan hóp og auðvelda honum búsetu í bænum, m.a. með lágum leikskólagjöldum og öðrum þjónustugjöldum vegna barna og ungmenna. Það er því ánægjulegt að tómstundastyrkir skuli hækka, fara úr 30 þúsundum í 50 þúsund.“

Lögðu til 15% lækkun

,,Bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu til við lokagerð fjárhagsáætlunarinnar að leikskólagjöld yrðu lækkuð um 15% frá því sem nú er. Það eru mér mikil vonbrigði að sú tillaga náði ekki fram að ganga. Ekki síst í ljósi kosningaloforðs meirihlutans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar fyrr á árinu um að lækka leikskólagjöld um 25%. Það er raunalegt að hefja kjörtímabilið á því að svíkja það loforð. Í umræðum á fundi bæjarráðs 20. nóvember síðastliðinn var opnað á að skoða lækkun leikskólagjalda þegar líður á næsta ár. Ég vona að það gangi eftir.“

Þú gerir í bókun þinni athugasemd við að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum við íþróttamiðstöðina?

,,Eins og fram kemur í bókuninni var samstaða innan bæjarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 um að fresta endurbótum og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina til næsta árs og nota tímann til þess að undirbúa þá framkvæmd enn betur. Það var gert. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 var, þrátt fyrir það, heldur ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna verkefnisins. Sama staða er enn í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015 og framkvæmdir við íþróttamiðstöðina ekki á dagskrá næstu ár ef marka má þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins. Þetta er ein brýnasta framkvæmd sem býður okkar. Núverandi ástand er t.d. óviðunandi fyrir fimleikadeild Gróttu og veldur þeim sem halda starfinu þar úti miklum vandræðum. Ég hef því lagt til með formlegum tillögum bæði í bæjarráði og bæjarstjórn að sölutekjum bæjarsjóðs vegna sölu lóðarinnar að Hrólfsskálamel 1-7 verði varið til þessa verkefnis í samræmi við tillögur sem settar eru fram í skýrslu sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar þann 25. september 2013. Það er miður að þessu brýna verkefni skuli enn á ný skotið á frest og neikvæð skilaboð til þess mikla fjölda sjálfboðaliða sem heldur uppi íþróttastarfinu í bænum.“

Minnihlutinn sat einnig hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunarinnar?

,,Við bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar sátum hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunar bæjarins með sameiginlegri bókun. Þar bendum við á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu. Okkur finnst þessi áætlun ekki standa undir því nafni heldur sé eingöngu verið að uppfylla lagskyldu og engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára.“

,,Þurfum ávallt að vera á tánum“

,,Verkefni, þjónusta og skyldur sveitarfélaga er vissulega að stórum hluta niðurnjörvuð í lögum. Þrátt fyrir það er svigrúmið sem sveitarfélögin hafa í þjónustu og forgangsröðun umtalsvert. Kröfur fólks og þarfir breytast. Því þurfa sveitarfélögin að mæta og vera ávallt á tánum. Dæmi um slíka breytingu er aukin umferð gangandi vegfarenda, aukin notkun á almenningssamgöngum og aukin notkun reiðhjóla, bæði til samgangna og útivistar. Við hér á Nesinu þurfum að mæta þessu t.d. með því að breikka og aðskilja hjóla- og göngustíga og bæta aðstöðu hjólreiðafólks við stofnanir bæjarins, s.s. með hjólastöndum og hjólaskýlum. Ég vona að þess muni sjást áþreifanleg merki á næsta ári,“ segir Árni Einarsson bæjarfulltrúi Neslista.

You may also like...