„Búum í einstakri nálægð við fuglalíf og náttúru“

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri hefur búið á Nesbala á Seltjarnarnesi í tæpan áratug. Hann segir sérstakt að búa þar í tengslum við fuglalífið og náttúruna og ekki síður sé þægilegt að hafa golfvöllinn nánast í göngufæri. 

Guðni bjó lengi í Svíþjóð og stundaði nám í eðlisverkfræði við Háskólann í Lundi þar sem hann lauk doktorsprófi. Árið 1990, eftir átta ára dvöl á Íslandi, fékk hann prófessorsstöðu við Byggingatæknideild Verkfræðiháskólans í Stokkhólmi, með sérstaka áherslu á orkunýtingu húsa. Rannsóknir hans hafa að mestu snúist um orkunýtingu í byggingum og hinu byggða umhverfi og vísinda- og ráðstefnugreinar sem hann hefur skrifað liggja flestar á því sviði. Hann segir tildrög heimkomunnar hafa verið að eiginkona hans, Bryndís Sverrisdóttir safnafræðingur fékk stöðu við Þjóðminjasafn Íslands. Hann hafi þá farið að líta í kringum sig eftir starfi á Íslandi og þá hafi staða orkumálastjóra verið að losna og hann sótt um. Þau hjón hafa þó ekki slitið öll tengsl við Svíþjóð. Bæði börn þeirra búa þar og starfa. Sverrir Páll er leikari og lék meðal annars tennishetjuna Björn Borg í nýlegri mynd og Gunnhildur Margrét er doktor í háls-, nef- og eyrnalækningum og starfar sem yfirlæknir við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg. Guðni settist niður með Nesfréttum nýlega og ræddi um Nesið og ekki síður um starfssvið sitt sem eru orkumálin í skugga eða skjóli náttúruverndar eftir því hvernig á það er litið.

 Hvernig bar það til að Seltjarnarnes varð fyrir valinu? 

„Við bjuggum í Vesturbænum áður en við fluttum til Svíþjóðar. Eftir að við komum heim aftur bjuggum við fyrst á Eiðisgrandanum. Fljótlega varð þó ljóst að við yrðum að stækka við okkur vegna þess stærstur hluti fjölskyldunnar, börnin og barnabörnin búa öll í Svíþjóð. Við sáum að við yrðum að geta tekið á móti þeim og hýst þau þegar þau koma til landsins. Við fórum því að líta í kringum okkur sáum auglýst raðhús við Nesbala. Við hlupum til og festum kaup á því. Ég held að það hafi verið einu fasteignaviðskiptin sem fóru fram á höfuðborgarsvæðinu í vikunni eftir að Gerir Haarde hélt eftirminnilega ræðu og bað Guð um að blessa Ísland.“

Fuglalífið er einstaklega áhugavert

Guðni segir gleði felast í því að búa við Nesbala. „Við höfum aldrei séð eftir því að hafa staðsett okkur þar. Fuglalífið við Bakkatjörnina er mikill gleðigjafi. Því miður kom álftin ekki upp ungum í ár. Hugsanlega er hún orðin of gömul og komin úr barneign eins og sagt er á mannamáli. Hún náði sér í stegg aftur eftir lát fyrri maka. Grunur er um að hún hafi gengið frá honum vegna þess að hann hafi ekki gætt unga þeirra nægilega vel og veiðibjallan tók hann og át. Álftir geta verið grimmar og eigi þessi grunsemd við rök að styðjast sýnir það að heimilisofbeldi getur átt sér stað í þeirra heimi ekki síður en annarra. En það eru engar beinar sannanir fyrir þessari kenningu þótt henni hafi verið velt upp.“Guðni segir margar tegundir fugla heimsækja Bakkatjörnina en þau hjónin eru áhugafólk um fuglalíf. „Við höfum séð fálka koma og fara og um daginn sáum við branduglu. Það er sjaldgæft að þær séu hér en hafa tilhneigingu til þess að flaksast um eins og ránfuglar gera í varplöndum. Andategundir fara hér um og ég held að sjá megi tegundir nánast á hverju ári sem ekki hafa komið áður. Gæsin er líka föst við Bakkatjörnina og á golfvellinum má vaða gæsaskítinn upp í ökkla því hún er góður áburðardreifari og ber vel á landið. Fjörurnar eru líka stórkostlegar þótt einhver misbrestur hafi orðið við hreinsun þeirra.“Guðni minnist fuglalífsins í Skutulsfirði fyrir vestan en þar átti tengdafaðir hans Sverrir Hermannsson fyrrum þingmaður og ráðherra sumarbústað og dvöldu þau Bryndís stundum hjá foreldrum hennar vestra. „Þar er mikið fuglalíf á sumrin og einstaklega áhugavert að ganga fjöruhringinn innst í Skutulsfirði árla morguns þegar náttúran er að vakna til nýs dags.“

Þorskhausar með hunangi og kjúklingasoði

Guðni nefnir golfvöllinn sem annan gleðigjafa á Nesinu. „Við spilum mikið golf og gott að stutt er á golfvöllinn. Þar eigum við líka í samskiptum við fugla, einkum kríuna sem er fastagestur á golfvellinum og mávurinn er ekki langt undan. Maður sér þegar makríllinn gengur upp að landi fyrir utan því þá er súlan að stinga sér tignarlega eftir æti.“Talið berst að makrílnum og fleiri fæðutegundum. Guðni segir makrílinn þungan í maga en minnist þess einnig að hér áður hafi loðna verið steikt í haframjöli til þess að minnka fitubrækjuna. Guðni er áhugamaður um fisk- og sjávarrétti og segir að eitt mesta lostæti sem hann geti hugsað sér séu heilgrillaðir þorskhausar smurðir með hunangi og kjúklingasoði til þess að fá gljáa á hausinn. „Matur og drykkur á Grandagarðinum er fyrir minn smekk með bestu veitingastöðum og þar fæ ég þennan uppáhaldsrétt minn. Ég held mikið upp á kæsta skötu en það má líka borða hana ferska. Frakkar flambera t.d. skötubörðin í pernod. Ég ætlaði eitt sinn að prufa það og komst þá að því að erfitt væri að nálgast þau vegna þess að Frakkar keyptu upp allan aflann. Að lokum fékk ég skötubörð en þau eyðilögðust í frysti sem bilaði með voðalegum afleiðingum þannig að það komst aldrei í verk að reyna þetta. Ef til vill á ég eftir að prufa það síðar.“

Búum við hækkandi stöðu sjávar 

En að orkumálunum sem Guðni fæst við dags daglega í störfum sínum hjá Orkustofnun. Þetta er stór málaflokkur og mönnum sýnist sitt hverjum um hvaða leiðir eigi að fara til þess að afla orku, dreifa henni um landið og nýta hana – einkum í atvinnuskyni. Guðni segir að hafa verði í huga að við getum ekki látið loftslagsmálin afskiptalaus. Við getum þurft að bregðast við afleiðingum af hækkandi hitastigi og þeim áhrifum sem það geti haft á lífríkið. „Ísland liggur á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans og gliðnun á sér stað á rekbeltum sem liggja um landið frá suðvestri til norðausturs. Þetta leiðir af sér að sjávarstaðan hér vestan til á landinu hækkar um 10 sentimetra á öld. Við búum því við hækkandi stöðu sjávar gagnvart landi þótt ekkert annað komi til. Allar hugmyndir um að staðsetja kirkjugarð utarlega á Nesinu ættu þannig að vera út af borðinu nema við viljum að lærleggir okkar verði í framtíðinni til sýnis fyrir forvitna ferðamenn líkt og í gömlum kirkjugörðum í Hvalfirði.“

Skil á milli stóriðju og minni fyrirtækja að hverfa

Guðni segir að ýmislegt sé að breytast í orkumálunum. Fleiri aðilar vilji nú kaupa raforku, aðilar með mun margbreytilegri starfsemi en áður. „Þetta kemur sér mun betur fyrir efnahag okkar. Þessi fyrirtæki dreifast meira um landið og valda ekki eins mikilli röskun. Hin skörpu skil sem hafa verið á milli stóriðju og minni iðnfyrirtækja eru að hverfa. Þetta er jákvæð þróun sem styður líka við þau markmið sem við þurfum að hafa í umhverfismálum og getur eflt atvinnulíf í landinu.“  

Ef Nesið væri í Bandaríkjunum væru loftlínur þar

Talið berst að orkudreifingunni, einu helsta deiluefni í raforkumálum þjóðarinnar. Hvort hún eigi að verða með loftlínum eða jarðstrengjum. Guðni segir að við séum komin vel á veg miðað við marga aðra að flytja raforkuna neðanjarðar og bendir á að ef Seltjarnarnes væri í Bandaríkjunum myndu loftlínur liggja um allt nesið. „Þetta er ágreiningsefni og því fylgja líka tæknileg vandamál. Stjórnvöld leggja nú aukna áherslu á lagningu jarðstrengja og vilja að það sé skoðað hvort flutningslínum megi koma í jörð þar sem sérstakar kröfur eru gerðar, t.d. vegna náttúru og menningarminja. Flutningskerfin hafa orðið eftir, því menn hafa ekki verið á eitt sáttir um hvernig standa beri að línulögnum og samkomulag liggur ekki fyrir um leiðir eða að hversu miklu leyti hægt er að nýta jarðstrengi til flutnings raforkunnar.“

Mikill munur á nýjum og eldri loftlínum

Guðni bendir á að RARIK hafi unnið ötullega að því að koma orkuflutningi þar sem um lægri spennu er að ræða niður í jörðina en vandamálið sé erfiðara viðfangs þegar kemur að raflínum með hærri spennu. „Þá er verkefnið bæði orðið tæknilega erfiðara og dýrara. Okkur finnst flutningur á raforku nógu dýr í dag og eftir því sem meira fjármagn er lagt til dreifingar orkunnar til þess að hægt sé að koma henni til notenda á eðlilegan hátt eykur það hættuna á að hækka þurfi verð til almennings og iðnaðar. Deilt er um hversu mikill munur er á kostnaði við raflínur og jarðstrengi en menn verða að gera sér grein fyrir því hann er mismunandi eftir því í hvernig land strengirnir eru lagðir. Loftlínur fyrir háa spennu geta haft umtalsverð sjónræn áhrif og því mikilvægt að taka tillit til þess eins og hægt er. Við sjáum eldri, efnismikil stálgrindarmöstur á Hellisheiðinni þar sem lítið hefur verið gert til þess að takmarka sjónræn áhrif. Andstæðan við það er ný háspennt lína frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Þar eru sjónræn áhrif af 220 kílóvatta línu á pari við venjulega byggðalínu. Þetta byggist á því hvernig möstur og stauravirki eru hönnuð og þeim komið fyrir í landslaginu.“

Rafvæðing samgöngumála komin á fulla ferð

Orkuskipti í samgöngumálum eru hafin. Samgöngutæki eru farin að ganga fyrir rafmagni og nú er búið að koma upp hleðslustöðvum fyrir bíla meðfram hringveginum þannig að hægt er að aka hann allan á rafdrifum ökutækjum. „Þetta er komið á fulla ferð. Við erum með starfshóp sem vinnur að verkefni í sambandi við orkuskipti þegar skipt er frá jarðefnaorkugjöfum yfir í rafmagn í tiltekinni starfsemi. Þessi hópur vinnur með orkufyrirtækjum og söluaðilum að því markmiði að koma upp dreifikerfi og hleðslustöðvum fyrir ökutæki um allt land. Það er mikill áhugi fyrir rafmagnsbílum bæði til einkanota og annarra samgangna. Strætó er að taka fyrstu rafmagnsvagn-ana í notkun og í framtíðinni munu minni rútubílar sem ætlaðir verða fyrir styttri vegalengdir og hringi koma til með að ganga fyrir rafmagni. Við erum líka farin að framleiða lífeldsneyti – metangas, metanól og dísilolíu úr repju. Hitaveituvæðingin á sínum tíma var ævintýri líkust og við getum notað þá þekkingu sem hún hefur gefið okkur til þess að ráðast í næsta skref í orkuskiptum sem eru samgöngumálin.“

Þróunin er á sumum sviðum mjög ör

Guðni segir að okkur finnist stundum eins og hlutirnir standi í stað og það verði mjög hægar tæknibreytingar. „Ef við skoðum hins vegar þróunina almennt þá sjáum við að hún er á sumum sviðum mjög ör. Ljósaperur nota nú almennt ekki nema brot af þeirri raforku sem þær þurftu fyrir áratug til að gefa sama ljósmagn. Einangrunargler í gluggum húsa er með húðun sem endurvarpar varmageislun og eðalgas milli glerja gefur varmatap sem er einungis þriðjungur þess sem venjulegt einangrunargler gaf áður. Vindorka og sólarorka sem fyrir nokkrum árum fengu ríflegar niðurgreiðslur til þess að ná endum saman efnahagslega nálgast nú að vera samkeppnishæfar við jarðefnaeldsneyti í raforkuframleiðslu. Það er ýmislegt að gerast í þessum málum.“  

 Lognmolla um dísilorkuverin

Guðni ræddi í árlegu jólaerindi orkumálastjóra meðal annars um dísilorkuver og sagði lognmollu ríkja í kringum þau miðað við byggingu vatns- og jarðvarmaorkuvera. Svo væri einnig um sérstakar “dísilvirkjanir” á hálendinu sem orkumálastjóri hefði ekkert með að gera. „Á hverjum degi og þó sérstaklega um helgar er stöðugur straumur kraftmikilla sérútbúinna jeppa, 300 til 400 kílóvatta dísilorkuvera á fjórum hjólum, inn á hálendið. Hver bíll ber með sér um 100 lítra af dísilolíu. Um 300 jeppar eru sameiginlega 10 MW orkuver og með tankarými fyrir 30 rúmmetra af dísilolíu. Um þetta hefur ekki verið fjallað í rammaáætlun og þessi ökutæki eru ekki háð umhverfismati. Bílunum er ekið undir miklu álagi, vélarnar eru farnar að gefa sig eins og við sjáum þegar þær ræskja sig út um púströrið á Miklubrautinni á leið út úr bænum. Sótmengunin frá þessum ökutækjum er tiltölulega mikil og því til viðbótar lekur mótorolía, bremsuglussi og gírolía frá þeim á leiðinni um hálendið. Þessi dísilorkuver á hjólum eru svo skoluð reglulega, jafnt í jökulvatni sem ferskvatnsám. Mesta athygli vekur þó að eigendur þessara færanlegu dísilvirkjana virðast ekki hafa neinar áhyggjur af þeirri sjónmengun, sem þessum virkjunum þeirra fylgja, heldur taka stoltir myndir af þeim við helstu náttúruperlur Íslands og setja á samfélagsmiðla.“

 Úr Skuggahverfinu á Seltjarnarnarness 
– með viðkomu í Svíþjóð

En hver er maðurinn sem stýrir orkumálum þjóðarinnar og hefur kosið sér búsetu á Seltjarnarnesi? „Ég er fæddur í Skuggahverfinu, við Hverfisgötuna í Reykjavík og ólst þar upp. Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík, svo Háskóla Íslands og þaðan til Lundar í Svíþjóð þar sem ég lagði stund á eðlisverkfræði og lauk doktorsprófi árið 1982. Að því búnu kom ég hingað heim og fékkst við ýmis störf þar til að ég sótti um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands en var metinn vanhæfur. Mér hljóp eitthvert kapp í kinn við það og ákvað að sækja um prófessorsstöðu í Svíþjóð til þess að fá hæfnismat þar. Það vildi ekki betur til en að ég fékk stöðuna og gegndi stöðu prófessors við KTH í Stokkhólmi í 17 ár þar til við fluttum heim og ég tók við stöðu orkumálastjóra.“

You may also like...