Seltjarnarnes komið að þolmörkum, eða hvað?

Stöðugur straumur ferðamanna út í Gróttu yfir varptíma! Krían ræðst á dróna yfir Bakkatjörn til að verja varp sitt! Rusl fýkur upp úr yfirfullum tunnum við Snoppu! Næturhrafnar hreiðra um sig í fuglaskoðunarhúsi! Tjaldi slegið upp í Plútóbrekku! Húsbílar hafa næturdvöl í Gróttu! Gestir þrífa sig í Kviku! ….. Ráðamenn klóra sér í hausnum og spyrja af hverju svo er komið?

Karen María Jónsdóttir.

Svarið er einfalt: af því að svona höfum við búið um hlutina með skorti á framtíðarsýn, og stefnuleysi í uppbyggingu og stýringu! Í dag beinum við gestum beint út í Gróttu með staðsetningu bílastæðis við Snoppu en sama stæði skapar húsbílum einnig algert næði yfir nótt. Skiltahrúga um lokun Gróttu yfir varptíma heldur ekki aftur af gestum sem ganga rakleiðis út í eyju við fjöru, enda eru engar aðrar upplýsingar um svæðið né skýringar af hverju krafist er ákveðinnar umgengni og virðingar. Drónaflug er ekki takmarkað þrátt fyrir að reglugerð um loftför heimili slíkt á friðlýstum svæðum. Ekkert “hlið” er að svæðinu eða miðstöð, engin umsjón! Enginn ber ábyrgð!

 Aðeins handfylli sótti sýninguna

Stýring í átt að annarri upplifun og þjónustu er heldur ekki til staðar. Af þeim þúsundum gesta sem sóttu Gróttu þetta sumarið sótti aðeins handfylli sýninguna Nesið kvatt í Nesstofu þar sem listaverkin kölluðust á við einstakt umhverfi þessa sögufræga steinhúss. Ástæðan: Nesstofa er í hvarfi frá Gróttu þar sem athafnasvæði bæjarins og grjóthrúga vestan þess sker svæðið. Upplýsingar um sýninguna voru ekki aðgengilegar erlendum gestum og gönguleiðir frá Gróttu að Nestofu ekki skipulagðar. Læknaminjasafnið og Ráðagerði, þar voru ljósin slökkt! Hvergi er hægt að sinna grunnþörfum svo sem leita skjóls, fara á klósett eða fá sér að borða.

 Viljum sjá aðgerðir

Sjálfbærni í ferðaþjónustu snýr að þekkingu á þeim takmörkum sem náttúran setur okkur. Samfylkingin mun á kjörtímabilinu leggja áherslu á markvissa stýringu enda er hún lykill að farsælli og sjálfbærri uppbyggingu og verndun viðkvæmra og friðlýstra svæða á Nesinu. Við viljum sjá aðgerðir er snúa að uppbyggingu innviða, þjónustu, afþreyingar með skilgreindum markmiðum og víðtæku samráði við alla hagaðila. Aðgerðir sem einkennast af gæðum, gestrisni og einstakri upplifun og standast væntingar ferðamannsins á sama tíma og þær þjóna íbúum, umhverfi og uppbyggingu atvinnurekstrar í bænum. Við höfum þegar lagt inn fyrirspurn um hvenær haldið verður áfram með vinnu við ferðamálastefnu sem lagður var grunnur að árið 2015 með skipan starfshóps.

 Finna þarf athafnasvæði bæjarins annan stað

Til að bæta upplifun og tryggja áframhaldandi umhverfisgæði á Vestursvæðum Nessins þarf að huga að tengingum, áningarstöðum, grænu umhverfi, manngerðu umhverfi, upplýsingamiðlun, menningu, minjum og uppbyggingu atvinnutækifæra tengdum þjónustu. Loka þarf veginum að Snoppu, flytja bílastæði að Ráðagerði og beina ferðamönnum enn frekar í almenningssamgöngur. Gera þarf Ráðagerði að hliði Vestursvæðanna og fá því hlutverk miðstöðvar þar sem gestir eru upplýstir um svæðið og umgengni í lifandi nýmiðlunarumhverfi. Leggja þarf áherslu á gang-andi og hjólandi umferð með markvissri uppbyggingu stígakerfis sem tengir saman þjónustu og einstaka áningarstaði í náttúrunni. Finna þarf athafnasvæði bæjarins annan stað og endurheimta náttúrusvæði sem nú eru undir grjóti. Bæta þarf reglum um drónaflug við lögreglusamþykkt bæjarins. Viðurkenna á Nesstofu sem lifandi menningarminjar og fá Lækninga-minjasafninu skýrt hlutverk enda hefur húsið þegar sannað sig sem fjölnota rými fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi og þjónustu. Landvörð þarf að ráða yfir háönn. 

 Vestursvæðin á forgangslista

Landsáætlun, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Ferðamálastofa taka ákvarðanir um fjárveitingu af hálfu ríkisins til uppbyggingar áfangastaða. Samfylkingin leggur áherslu á að vegna sérstöðu sinna verði Vestursvæðin sett á forgangslista yfir áfangastaði á höfuðborgarsvæðinu sem byggja þarf upp. Til viðbótar að tekið verði mið, í allri undirbúnings-, skipulags- og hönnunarvinnu, af stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist og umhverfishönnun Menningarstefnu í mannvirkjagerð sem samþykkt var árið 2007 sem og leiðbeiningariti Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands Góðir staðir um uppbyggingu ferðamannastaða frá árinu 2013.

 Karen María Jónsdóttir er varabæjarfulltrúi og skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar. Hún situr í umhverfisnefnd og til vara í skipulagsnefnd og stjórn Veitu.

You may also like...